Sögubrot af nokkrum fornkonungum

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sögubrot af nokkrum fornkonungum er brot úr konungasögu eða fornaldarsögu, sem fjallaði um danska og sænska fornkonunga.

Sögubrotið er talið vera endursaminn og aukinn texti Skjöldunga sögu, þ.e. brot úr yngri gerð sögunnar. Textinn hefur orðið fyrir áhrifum frá riddarasögum, og gæti verið frá síðari hluta 13. aldar.

Sögubrotið er varðveitt í handritinu AM 1eβ I fol. Það eru 6 skinnblöð frá því um 1300, og skiptist textinn í tvo samfellda kafla. Guðbrandur Vigfússon sýndi fram á það fyrir löngu að Sögubrotið, hefur verið hluti af einu handriti Knýtlinga sögu (AM 20 b I fol.), og það því haft að geyma samfellda sögu Danakonunga frá forneskju.

Í Sögubrotinu er m.a. frásögn af Brávallabardaga, þar sem Haraldur hilditönn féll.

Johan Fredrik Peringskjöld gaf Sögubrotið fyrst út í Stokkhólmi árið 1719, undir nafninu: Sögubrot af nockorum fornkongum í Dana oc Svia velldi, þaðan er nafnið komið. Útgáfunni fylgdi sænsk þýðing.

Bjarni Guðnason gaf Sögubrotið út með Danakonunga sögum, árið 1982, og gerir nánari grein fyrir því í formála.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]