Sæfíflar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sæfiflar
Fjölbreyttar tegundir sæfifla
Fjölbreyttar tegundir sæfifla
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Holdýr (Cnidaria)
Flokkur: Kóraldýr (Anthozoa)
Undirflokkur: Hexacorallia
Ættbálkur: Actiniaria
Undirættbálkar

Sæfíflar (fræðiheiti: Actiniaria) eru ættbálkur frumstæðra sjávardýra af flokki holdýra. Þeir eru náskyldir kóröllum og marglyttum. Þekktar eru yfir 1000 tegundir sæfífla í 46 ættum sem gerir þá að tegundaauðugasta undirhóp holdýra.

Útlit og einkenni[breyta | breyta frumkóða]

Kóraldýr skiptast í tvo undirflokka: Hexacorallia og Octocorallia, en sæfíflar tilheyra fyrrnefnda flokknum. Sæfíflar eru ólíkir dæmigerðum kóröllum á því að þeir eru stærri og lifa einir og sér en ekki í sambýli eins og kórallar.

Sæfífill

Nafn sæfífla dregur nafn sitt af fíflablómum því útlit sæfífla þykir minna á blóm. Á ensku nefnist sæfífillinn „sea anemone“ og dregur nafn sitt af anemónblóminu sem er af sóleyjarætt og getur verið afar litskrúðugt líkt og sæfífillinn. Líkami sæfífilsins er byggður upp af límkenndum diski eða fæti, sívölum líkama og örmum sem mynda hring í kringum op sem starfar sem munnur og yfirleitt líka sem endaþarmur.

Í örmunum eru stingfrumur sem sæfífillinn notar til að lama bráð sína en armarnir bregðast við minnstu snertingu með því að skjóta eiturþráðum í bráðina og armarnir beina bráðinni svo í opið þar sem sérstakt meltingarlífffæri sér um að melta bráðina. Eins og meðal annarra sexukóralla er fjöldi armanna yfirleitt margfeldi af 6. Dæmigerður sæfífill er oftast í kringum 1-5 cm í þvermál og 2-10 cm á lengd en þó geta sæfíflar verið minni en 1 cm að stærð og allt upp í 120 cm í þvermál en stærsti sæfífillinn er risasæfífillinn (Stichodactyla mertensii) en hann getur orðið allt að 1,25 metrar í þvermál sem gerir hann að stærsta núlifandi holdýrinu.


Lifnaðarhættir[breyta | breyta frumkóða]

Sæfíflar eru algengastir á grunnsævi í suðrænum hlýjum sjó en finnast þó um gjörvallt hafið á öllu dýpi. Þeir festa sig við sjávarbotninn eða aðra fasta hluti í sjónum svo sem steina eða kóralrif. Þó eru til sæfíflar sem festa sig ekki og reika um hafið. Sæfíflar geta hreyft sig með því að renna sér á botninum en mannsaugað getur ekki greint þessa hreyfingu þar sem hún er afar hæg en einnig eru til sæfíflar sem losa sig frá því yfirborði sem þeir voru fastir við.

Flestir sæfíflar eru rándýr. Helstu bráðir þeirra eru krabbar, lindýr og jafnvel smáfiskar en fátt er þó sem sæfífillinn bregður sér ekki til munns. Sæfíflar éta yfirleitt það sem passar í gegnum munnop þeirra. Helstu afræningjar sæfífla eru ýmsir fiskar og sæsniglar. Margir sæfíflar geta notað arma sína til að verja sig eða sent eiturþræði út frá líkama sínum. Til eru tegundir sæfífla sem geta synd frá rándýrum.

Sæfíflar búa yfir mikilli getu til að fjölga sér og geta fjölgað sér bæði með kynæxlun og kynlausri æxlun. Við kynæxlun dæla þeir kynfrumum í sjóinn og frjóvgun þeirra verður þar. Okfruman þroskast síðan í lirfu sem festir sig við hafsbotninn og þroskast þar sem nýr sæfífill. Við kynlausa æxlun myndast aftur á móti nýr einstaklingur með eins konar knappskoti og er afsprengið þá með nákvæmlega sama erfðaefni og foreldrið. Sumar tegundir sæfífla „ganga“ með afkvæmið inni í sér og geta af sér fullmótað afkæmi út um munnopið.

Sæfíflar geta lifað mjög lengi og verða oft 60-80 ára gamlir. Eiginleiki sæfífilsins til að „klóna“ sig gefur honum möguleikann á að lifa nánast að eilífu.

Samlífi[breyta | breyta frumkóða]

Sumir sæfíflar lifa í samlífi við aðrar dýra- og örverutegundir. Trúðfiskar lifa innan um arma sæfífla því húð þeirra er þakin slími sem virkjar ekki stingfrumur sæfíflanna. Trúðfiskar geta því lifað í skjóli frá rándýrum án þess að vera stungnir. Trúðfiskar éta ýmis sníkjudýr og afræningja sæfífla og iða súrefnis- og næringarríku vatni um sæfífilinn. Samlífi trúðfiska og sæfífla gagnast því báðum aðilum samlífisins.

Annað dýr sem nýtir sér samlífi við sæfífila er kuðungakrabbinn sem setur sæfífla á kuðunginn sinn. Eitur sæfíflanna verndar krabbann frá rándýrum og virkar sem felubúningur á sjávarbotninum. Sæfíflar hagnast einnig á því að lifa á skeljum kuðungakrabba því það veitir þeim aðgang að afgangsfæðu kuðungakrabbans og gefur þeim tækifæri til að makast á sama tíma og kuðungakrabbarnir hittast til að makast sjálfir. Þegar kuðungakrabbar skiptir um skel passar þeir gjarnan upp á að færa sæfífilinn yfir á nýju skelina.

Sumir sæfíflar lifa í samlífi með ljóstillífandi grænþörungum eða skoruþörungum. Þörungurinn fær vernd frá afráni, skjól og aðgang að sólarljósi og í staðinn fær sæfífillinn súrefni og sykrur sem eru aukaafurðir frá ljóstillífun þörungsins.

Kuðungakrabbi með sæfífil sem lífvörð

Sæfíflar og við[breyta | breyta frumkóða]

Sæfíflar eru vinsælir í fiskabúr enda geta þeir verið mjög fallegir og litskrúðugir og einnig er það talið vera gefandi að sjá sæfífilinn í samlífi með trúðafisknum, bæði sæfíflum og trúðafiskum er gjarnan safnað úr sjónum og hefur þetta mikil áhrif á stofnstærðir beggja dýranna með því að draga úr þéttleika þeirra á nýtingarsvæðunum. Einnig verða sæfíflar sem búa á grunnsævi við strendur fyrir áhrifum frá mengun mannsins.

Á Ítalíu og Spáni er ein tegund sæfífils, Anemonia viridis, notuð til manneldis og telst vera herramannsmatur.

Flestir sæfíflar eru skaðlausir mannkyninu en nokkrar mjög eitraðar tegundir eins og Actinodendron arboreum, Phyllodiscus semoni og Stichodactyla hafa valdið alvarlegum áverkum og geta verið banvænar mönnum.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Hvað eru sæfíflar?“. Vísindavefurinn. (Skoðað 30.09.2018).
  • „Sea Anemones“. Sótt 30. september 2018.
  • „Fact Sheet: Sea Anemones“. Sótt 30. september 2018.
  • „Sea Anemones“. Sótt 30. september 2018.
  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.