Fara í innihald

Pjotr Stolypín

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Pjotr Stolypín
Пётр Столы́пин
Forsætisráðherra Rússlands
Í embætti
21. júlí 1906 – 18. september 1911
ÞjóðhöfðingiNikulás 2.
ForveriÍvan Goremykín
EftirmaðurVladímír Kokovtsov
Persónulegar upplýsingar
Fæddur14. apríl 1862
Dresden, Saxlandi, þýska ríkjasambandinu
Látinn18. september 1911 (49 ára) Kænugarði, rússneska keisaradæminu (nú Úkraínu)
DánarorsökMyrtur
MakiOlga Borisovna Neidhardt
StarfStjórnmálamaður

Pjotr Arkadjevítsj Stolypín (kyrillískt letur: Пётр Арка́дьевич Столы́пин) (14. apríl 1862 – 18. september 1911) var þriðji forsætisráðherra Rússlands og innanríkisráðherra rússneska keisaradæmisins frá 1906 til 1911, í valdatíð Nikulásar 2. keisara. Valdatíð hans einkenndist af viðleitni til að sporna við starfsemi byltingarhópa og af umbótum á landbúnaði Rússlands. Stolypín var einveldissinni og vonaðist til þess að styrkja stöðu krúnunnar. Hann er talinn einn síðasti valdamikli stjórnmálamaður rússneska keisaratímans er rak skýra stefnu og reyndi að koma á stórtækum umbótum.[1]

Þótt Stolypín sé og hafi verið mjög umdeildur á sínum tíma er hann hátt skrifaður í Rússlandi í dag. Árið 2008 lenti Stolypín í öðru sæti í rússneskri netkosningu um mestu mikilmenni í sögu Rússlands.[2]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Pjotr Stolypín stundaði nám í landbúnaðarfræðum í Sankti Pétursborg, þar sem Dmítríj Mendelejev var einn af kennurum hans.[3][4] Hann hóf ríkisstjórnarferil sinn í innanríkisráðuneytinu og síðar í landbúnaðarráðuneytinu. Hann varð landstjóri Grodno í maí árið 1902 og landstjóri Saratov í febrúar 1903. Stolypín gat sér orðstír sem eini landstjórinn sem tókst að hafa stjórn á fólki ríkis síns í byltingunni árið 1905. Stolypín varð innanríkisráðherra í apríl árið 1906 og síðan forsætisráðherra 21. júlí. Stolypín gegndi þaðan af báðum ráðherraembættunum samtímis og var því voldugri en algengt var meðal stjórnmálamanna í rússneska keisaradæminu.

Ráðherratíð[breyta | breyta frumkóða]

Stolypín leysti upp rússneska þingið þann 8. júní 1907 og breytti reglugerðum þess til að auðvelda sér að fá samþykki fyrir lagafrumvörpum sínum.[5][6] Breytingarnar, eða „valdarán“ Stolypíns, drógu úr atkvæðavægi rússnesku lágstéttanna og gerðu róttækum stjórnmálahópum erfiðara fyrir að komast á þing.

Á ráðherratíð sinni beitti Stolypín sér fyrir umbótum í landbúnaði og jarðeignarrétti Rússlands. Í Rússlandi var við lýði óðalskerfi þar sem ræktarland tilheyrði yfirleitt stöku óðali þar í grenndinni. Stolypín vildi kæfa samfélagsóeirðir í fæðingu með því að skapa stétt smærri landeigenda sem gætu nýtt eigin jarðir.[7] Þessar tilraunir Stolypíns til markaðs- og nútímavæðingar gerðu hann lítt vinsælan meðal rússneskra íhaldsmanna; meðal annars varð Lev Tolstoj honum öskureiður og sagði honum í bréfi að „hætta þessum hræðilegu hlutum! Nú er nóg komið af því að líta upp til Evrópu, það er tímabært að Rússland þekki eigin hug!“[8]

Rússneskir byltingarsinnar hötuðust við Stolypín og reyndu margsinnis að koma honum fyrir kattarnef. Árið 1906 sprakk sprengja við sumarbústað Stolypíns og um 28 manns létu lífið.[4] Stolypín komst lífs af en dóttir hans missti báða fæturna í tilræðinu og sonur hans slasaðist alvarlega.[4][9] Stolypín brást við árásum byltingarmanna með því að stofna nýtt réttarkerfi með herlögum sem leyfðu ríkisstjórninni að handtaka og rétta skjótt yfir meintum byltingarmönnum. Um 3.000 til 5.500 manns voru sakfelldir og teknir af lífi af þessum sérstöku dómstólum frá 1906 til 1909. Á þingfundi þann 17. nóvember 1907 kallaði þingmaður Kadet-flokksins, Fjodor Rodítsjov, gálgann „hið fljótvirka mánudagsbindi Stolypíns“. Stolypín brást við með því að skora á Rodítsjov í einvígi en þingmaðurinn ákvað að biðjast afsökunar frekar en að berjast við Stolypín.

Morðið á Stolypín[breyta | breyta frumkóða]

Stolypín var loks myrtur árið 1911. Hann var staddur ásamt Nikulási keisara í Kænugarði við afhjúpun á minnisvarða til heiðurs Alexander 2. Rússakeisara.[4][10] Stolypín og keisarinn voru viðstaddir leiksýningu í óperuhúsi borgarinnar þann 14. september þegar Dmítríj Bogrov, rússneskur lögfræðingur í þjónustu leynilögreglu keisarans, gekk upp að Stolypín og skaut á hann tveimur skotum. Skotin hæfðu Stolypín í brjóstkassann og vinstri handlegginn. Stolypín lést fjórum dögum síðar.

Bogrov var hengdur tíu dögum eftir morðtilræðið. Rannsókninni á morðinu var hætt að tilskipun keisarans. Þetta hefur leitt til samsæriskenninga um að Stolypín hafi ekki verið myrtur að undirlagi vinstrisinnaðra byltingarmanna, heldur hafi íhaldsmenn komið honum fyrir kattarnef af ótta við umbætur hans og áhrif hans á keisarann. Þetta hefur þó aldrei verið sannað. Stolypín var grafinn í Kænugarði.[11]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Imperial Russia, 1815-1917 - Position Paper
 2. „Stalín í hópi mikilmenna“. Fréttablaðið. 30. desember 2008. Sótt 8. maí 2018.
 3. Bok, M.P. (1953). Vospominaniya o moem otse P.A. Stolypina. New York: Chekhov publishers.
 4. 4,0 4,1 4,2 4,3 „Utan úr heimi: Rússland“. Austri. 7. október 1911. Sótt 8. maí 2018.
 5. Orlando Figes, A People's Tragedy. The Russian Revolution 1891-1924, p. 225
 6. Oxley, Peter (2001). Russia, 1855 - 1991: from tsars to commissars. Oxford University Press.
 7. „Stolypin, Piotr Arkadevich“. The Columbia Electronic Encyclopedia. Sótt 8. maí 2018.
 8. „ROYAL RUSSIA NEWS. THE ROMANOV DYNASTY & THEIR LEGACY, MONARCHY, HISTORY OF IMPERIAL & HOLY RUSSIA“. Royal Russia News. Sótt 8. maí 2018.
 9. „Frjettir frá útlöndum: Rússland“. Vestri. 6. október 1906. Sótt 8. maí 2018.
 10. „Banatilræði við Stolypin, yfirráðherrann rússneska“. Ísafold. 30. september 1911. Sótt 8. maí 2018.
 11. O. Figes (1996) A People's Tragedy. The Russian Revolution 1891-1924, bls. 223.