Petteri Orpo
Petteri Orpo | |
---|---|
Forsætisráðherra Finnlands | |
Núverandi | |
Tók við embætti 20. júní 2023 | |
Forseti | Sauli Niinistö Alexander Stubb |
Forveri | Sanna Marin |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 3. nóvember 1969 Köyliö, Finnlandi |
Þjóðerni | Finnskur |
Stjórnmálaflokkur | Samstöðuflokkurinn |
Maki | Niina Kanniainen-Orpo |
Börn | 2 |
Háskóli | Háskólinn í Turku |
Antti Petteri Orpo (f. 3. nóvember 1969) er finnskur stjórnmálamaður sem er núverandi forsætisráðherra Finnlands. Hann hefur verið formaður finnska Samstöðuflokksins frá árinu 2016 og forsætisráðherra frá árinu 2023.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Orpo hefur setið á finnska þinginu frá árinu 2007 og var fjármálaráðherra Finnlands frá 2016 til 2019 í ríkisstjórn Juha Sipilä. Frá júní 2017 var hann jafnframt staðgengill forsætisráðherrans.[1] Hann var áður innanríkisráðherra Finnlands frá árinu 2015 og landbúnaðar- og skógræktarráðherra frá 2014 til 2015.[2]
Orpo tók lögmannspróf árið 2002 og vann frá 2002 til 2003 sem samningamaður fyrir innanríkisráðherra Finnlands.[3]
Í kosningum á finnska þingið árið 2011 náði Orpo endurkjöri með 11.018 atkvæðum í kjördæmi Suðvestur-Finnlands.[4] Í nóvember 2012 tók hann við af Jan Vapaavuori sem þingflokksformaður Samstöðuflokksins.[5]
Þann 20. júní 2023 tók Orpo við af Sönnu Marin sem forsætisráðherra Finnlands eftir að Samstöðuflokkurinn vann sigur í þingkosningum fyrr á árinu.[6]
Stjórnmálaskoðanir
[breyta | breyta frumkóða]Skoðanir Petteri Orpo í stjórnmálum eru yfirleitt taldar vera í anda borgaralegrar mið-hægristefnu. Samstöðuflokkurinn, sem hann leiðir, telur sig hófsaman íhaldsflokk sem styður efnahagsfrjálslyndi og einstaklingsfrelsi. Orpo hefur talað fyrir aðhaldi í ríkisútgjöldum, einföldun stjórnsýslunnar og umbótum í þágu viðskipta. Í kosningunum 2023 lagði hann áherslu að stefna skyldi að því að draga úr ríkisskuldum. Hann hefur lýst yfir áhyggjum af því að of skyndileg skipti yfir í endurnýjanlega orku kunni að leiða til hærra orkuverðs fyrir neytendur.
Orpo styður aðild Finnlands að Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu og harðari línu á móti Rússlandi. Orpo hefur einnig lýst yfir áhyggjum af komu innflytjenda til Finnlands og hefur krafist strangara landamæraeftirlits og brottflutninga hælisleitenda sem ekki fá dvalarleyfi.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Valtioneuvosto.fi Geymt 9 júní 2017 í Wayback Machine Skoðað 25. júní 2023.
- ↑ Samlingspartiets ministrar är klara, litar på gamla namn. Svenska YLE 27. maí 2015. Skoðað 25. júní 2023.
- ↑ Petteri Orpo. Riksdagsmatrikel.
- ↑ Egentliga Finland - Invalda. Riksdagsvalet 2011. YLE. Läst 18 november 2012.
- ↑ Saml har valt ny ordförande för riksdagsgruppen. Vasabladet 13. nóvember 2012. Skoðað 25. júní 2023.
- ↑ Clason, Sofia (2. apríl 2023). „Petteri Orpos succé – vinner valet i Finland“. www.expressen.se (sænska). Sótt 20. júní 2023.
Fyrirrennari: Sanna Marin |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |