Fara í innihald

Ólympsfjall (Mars)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Olympus Mons)
Gervihnattamynd af fjallinu tekin 22. júní 1978 af Viking 1 geimfari Geimferðastofnunar Bandaríkjanna

Ólympusfjall eða Ólympsfjall (latína: Olympus Mons) er 24 kmdyngja á Mars, staðsett á Þarsis-svæðinu. Það er hæsta fjall reikistjörnunnar og jafnframt hæsta fjall sólkerfisins og þar með hæsta fjall sem vitað er um. Fjallið er um 540 km í þvermál og er því stærra að flatarmáli en Ísland. Í toppi þess er sigdæld, sem er um 85 km löng og 60 km breið. Hún er nálægt 3 km á dýpt og í henni eru gígar eldfjallsins, 6 að tölu.

Ólympusfjall nær þó aðeins 25 km yfir meðalhæð yfirborðs Mars, þar sem það stendur í 2 km djúpri dæld, það er afmarkað af virkisbrekku sem er allt að 6 km há, en hún á sér enga líka meðal dyngja Mars.

Árið 2004 tók Mars Express geimfarið myndir af hrauni á fjallinu sem var aðeins 2 milljóna ára gamalt, sem gefur til kynna að eldfjallið gæti enn verið virkt.

Hawaiieyjar eru dæmi um dyngjur af svipaðri stærðargráðu, en stærð Ólympusfjalls orsakast líklega af því að á Mars eru ekki jarðflekar, og jarðskorpan var þar með föst á ákveðnum stað yfir heitum reit og hið mikla hraun sem kom upp dreifðist ekki yfir stærra svæði.