Oliver Kahn
Oliver Rolf Kahn (15. júní 1969 í Karlsruhe) er þýskur fyrrum knattspyrnumaður og markmaður sem spilaði lengst af á ferli sínum með Bayern München. Þrisvar var hann kjörinn besti markmaður heims, fjórum sinnum besti markmaður Evrópu og tvisvar knattspyrnumaður ársins í Þýskalandi.
Leikferill
[breyta | breyta frumkóða]Aðeins sex ára gekk Kahn til liðs við Karlsruher FC og var þá útileikmaður. En brátt gerðist hann markmaður og hefur staðið milli stanganna allar götur síðan. Árið 1987 fékk Kahn í fyrsta sinn að spreyta sig með aðalliðinu í Bundesligunni. Það var þó ekki fyrr en 1990 að hann var orðinn fastamaður í byrjunarliðinu. Árið 1993 var Kahn í fyrsta sinn valinn í þýska landsliðið en sat þó á bekknum. Árið 1994 var Kahn keyptur til Bayern München fyrir 4,6 milljónir þýskra marka en þar var metupphæð í Þýskalandi fyrir markvörð. Ári síðar, 1995, fékk Kahn í fyrsta sinn að spreyta sig í markinu hjá landsliðinu, eftir að hafa setið á varamannabekknum þar í tvö ár. Landsliðið sigraði þá Sviss 2:1. Hins vegar var Andreas Köpke enn aðalmarkmaður landsliðins, þar til hann lagði skóna á hilluna 1998. Þá fyrst tók Kahn við sem aðalmarkmaður. Árið 1996 vann Kahn sinn fyrsta titil er Bayern München sigraði í Evrópukeppni bikarhafa. Ári síðar varð Kahn í fyrsta sinn þýskur meistari en alls náði hann þeim áfanga átta sinnum. Árið 2002 varð hann fyrirliði þýska landsliðsins en hann tók við þeirri stöðu af Oliver Bierhoff og skilaði henni tveimur árum síðar til Michael Ballack. Fyrsta stórmót Kahns var Evrópumótið í Englandi 1996, en þá sat hann allan tímann á bekknum. Fyrsta stórmótið þar sem hann spilaði með var Evrópumótið í Þýskalandi 2000. Þar náðu Þjóðverjar hins vegar ekki að komast upp úr riðlakeppninni. Kahn hefur leikið 557 leiki í Bundesligunni, sem er met hjá markmanni. Hann á einnig metið í að halda marki sínu hreinu samfleytt eða í 19 leiki í röð. 17. maí 2008 lék hann sinn síðasta leik í Bundesligunni (gegn Hertha Berlin). Þann 27. maí sama ár lék hann svo síðasta leik sinn í atvinnuknattspyrnu er Bayern München sigraði Mohun Bagan AC á Indlandi 3:0. Kveðjuleikur fyrir Kahn fór fram 2. september 2008 milli Bayern München og þýska landsliðsins. Leikurinn endaði 1:1.
Félagslið Kahns
[breyta | breyta frumkóða]Félag | Ár |
---|---|
Karlsruher FC | 1987-1994 |
Bayern München | 1994-2008 |
Stórmót Kahns
[breyta | breyta frumkóða]Mót | Staður | Árangur | Ath. |
---|---|---|---|
EM 1996 | England | Meistari | Kahn sat á bekknum alla leikina |
HM 1998 | Frakkland | 8 liða úrslit | Kahn sat á bekknum alla leikina |
EM 2000 | Belgía / Holland | Riðlakeppni | |
HM 2002 | Suður-Kórea / Japan | 2. sæti | |
EM 2004 | Portúgal | Riðlakeppni | |
HM 2006 | Þýskaland | 3. sæti |
Titlar
[breyta | breyta frumkóða]Meistari | Fjöldi | Ár |
---|---|---|
Þýskur meistari | 8 | 1997, 1999, 2000, 2001, 2003, 2005, 2006, 2008 |
Bikarmeistari | 6 | 1998, 2000, 2003, 2005, 2006, 2008 |
Deildarbikarmeistari | 6 | 1997, 1998, 1999, 2000, 2004, 2007 |
Evrópubikarmeistari | 1 | 1996 |
Champions League meistari | 1 | 2001 |
Heimsbikarmeistari | 1 | 2001 |
Heiðranir
[breyta | breyta frumkóða]- Besti markmaður Bundesligunnar: 1994, 1997, 1998, 1999, 2001
- Besti markmaður heims: 1999, 2001, 2002
- Besti markmaður Evrópu: 1999, 2000, 2001, 2002
- Knattspyrnumaður ársins í Þýskalandi: 2000, 2001
- Besti leikmaður á HM 2002 (eini markmaður sem það hefur afrekað)
- Annað sætið sem besti knattspyrnumaður heims 2002 (á eftir Ronaldo)
Annað markvert
[breyta | breyta frumkóða]Þann 18. september 1999 skall Oliver Kahn svo harkalega saman við félaga sinn Samuel Kuffour að hann rotaðist og var meðvitundarlaus í nokkrar mínútur. Þegar hann rankaði við sér reyndi hann að halda leik áfram en varð að fara út af á 55. mínútu vegna vanlíðunar.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Oliver Kahn“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt janúar 2010.