Oddný Guðmundsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Oddný Guðmundsdóttir (15. febrúar 19081985) var farkennari og rithöfundur. Hún var frá Hóli á Langanesi.

Árið 1939 kom Oddný heim eftir að hafa stundað nám í Svíþjóð. En á yngri árum hafði hún dvalist við nám og störf á Norðurlöndunum og í Sviss. Oddný Guðmundsdóttir var vel máli farin og ágætur rithöfundur.

Oddný var farkennari í þrjátíu ár. Hún kenndi á Vestfjarðarkjálkanum í þrettán vetur, fjögur ár á Snæfellsnesi, tvö í Borgarfirði og eitt ár í Dalasýslu. Hún kenndi svo í skemmri tíma en skólaárið spannar í Húnavatnssýslu, Eyjafirði, Tjörnesi, Breiðdalsvík og fleiri stöðum. Hún skrifaði einnig nokkrar bækur og þar að meðal: Svo skal böl bæta árið 1943, Veltiár árið 1947, Tveir júnídagar árið 1949 og ritaði auk þess smásögur í blöð og tímarit og vann að þýðingum.

Árið 1978 tók Erlingur Davíðsson viðtal við hana fyrir bókaflokkinn Aldnir hafa orðið. Þá var Oddný sjötug. Þegar Erlingur settist niður við eldhúsborðið heima hjá henni til að hefja viðtalið, tók hann eftir því að það var engin kaffikanna á borðinu. Þá sagði hún að hún hafi aldrei átt kaffikönnu en þætti samt kaffisopinn góður. Hún hafi heldur ekki átt karlmann og sakni þess ekki neitt. En í staðinn fyrir að segja frá atvikum og ævintýrum af langri ævi sinni þá tók hún sérstakt mál til meðferðar, sem hún nefnir: Segðu okkur sögu. Þá sögu er hægt að lesa í Aldnir hafa orðið (8. bindi).

Oddný fór allar sínar ferðir á reiðhjóli hvort sem það var fara á milli bæja eða milli landshluta. Þótti henni ekki mikið mál að skreppa norðan frá Langanesi og suður til Reykjavíkur á reiðhjóli sínu.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Erlingur Davíðsson, Aldnir hafa orðið. Frásagnir og fróðleikur (Akureyri: Skjaldborg, 1979): bls. 123-138 í 8. b.