Fara í innihald

Breiðdalsvík

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gata í Breiðdalsvík.
Breiðdalsvík

Breiðdalsvík er þorp í Fjarðabyggð og stendur það við samnefnda vík á Austfjörðum. Íbúar voru 128 árið 2015.

Víkin Breiðdalsvík er á milli Kambaness og Streitishvarfs og stendur þorpið við hana. Aðalatvinnuvegur þorpsbúa er sjávarútvegur og svo þjónusta við ferðamenn sem er vaxandi grein.

Byggðin á Breiðdalsvík er ekki gömul. Gránufélagið lét reisa þar vörugeymslu um 1889, og árið 1896 reisti Brynesverslun á Seyðisfirði hús efst á Selnesi. Það brann tíu árum síðar en nýtt verslunarhús var reist í staðinn og er það elsta hús þorpsins.

Í gamla Kaupfélaginu er nú jarðfræðisetur og þar er minningarstofa um Stefán Einarsson, prófessor við Johns Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum, sem var úr Breiðdal. Í gömlu símstöðinni er Steinasafn Breiðdals. Í þorpinu er hótel sem er opið allan ársins hring og þar er einnig skóli og sundlaug, verslun og bílaverkstæði.

Breiðdalsvík er einn af fáum stöðum á Íslandi sem hefur orðið fyrir loftárás, en að morgni 10. september 1942 réðist þýsk herflugvél á íbúðarhúsið Hamar og var skotið á það sprengikúlum úr vélbyssu. Níu göt komu á húsið en enginn slasaðist þótt fólk væri inni í húsinu.

  • „Heimasíða Grunnskólans í Breiðdalshreppi. Sótt 12. apríl 2011“.
  • „Breiðdalsvík á www.east.is, skoðað 12. apríl 2011“.
  • „Þetta er mér enn ofarlega í huga. Gagnasafn Morgunblaðsins, skoðað 12. apríl 2011“.
  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.