Fara í innihald

Nymphenburg-kastalinn í München

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Aðalálma Nymphenburg-kastala. Stóru hliðarálmurnar sjást ekki á þessari mynd.

Nymphenburg-kastalinn í München var reistur af kjörfurstanum Ferdinand fyrsta fyrir eiginkonu sína Henríettu Aðalheiði. Kastalinn er rétt fyrir vestan miðborgina. Hallargarðurinn er einn sá stærsti í heimi.

Gömul teikning af kastalanum
Loftmynd í Steinssalnum
Fagur hestvagn í hestvagnasafninu

Saga Nympenburg-kastalans

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Henríetta Aðalheiður fæddi erfingjann, Maximilian Emanúel, varð kjörfurstinn Ferdinand svo glaður og hrifinn að hann ákvað að reisa eiginkonu sinni kastala. Hún sjálf lét reisa Theatiner-kirkjuna í München í þakkarskyni. Framkvæmdir við kastalann hófust 1664 og var hann stækkaður nokkrum sinnum í gegnum tíðina. Kastalinn var aðallega notaður sem sumardvalarstaður Wittelsbach-ættarinnar í gegnum tíðina. Nokkrir merkir atburðir gerðust í kastalanum. 1741 mættu fulltrúar frá Frakklandi, Spáni, Saxlandi og Prússlandi, auk Karls kjörfursta, á fundi í kastalanum og gerðu bandalag gegn Austurríki. Þá var María Teresa nýorðin keisaraynja í Austurríki og stríðið um erfðir þar á bæ nýhafið. Bandalag þetta varð til þess að Karl kjörfursti var seinna kjörinn konungur og síðar krýndur keisari þýska ríkisins. Bæjaraland var gert að konungsríki 1806. Maximilian konungur dó í kastalanum 1825 og barnabarn hans Lúðvík II fæddist þar. 1863 heimsótti Otto von Bismarck Lúðvík konung og hittust þeir í kastalanum. Í loftárásum seinna stríðsins slapp kastalinn við skemmdir, nema hvað ein sprengja lenti í kastalakapellunni og eyðilagði hana.

Kastalagarðurinn

[breyta | breyta frumkóða]

Nymphenburg-kastali er með tvo stóra garða. Fyrir framan er sléttur grasagarður með nokkrum tjörnum. Fyrir aftan er víðáttumikill skógargarður, en hann var áður fyrr við borgarmörk München. Í dag er byggð allt í kring. Garður þessi er einstaklega fagur og einn stærsti kastalagarður heims. Á grasbalanum fyrir framan var haldið hestamót Ólympíuleikanna 1972.

Nokkra fagra sali er að finna í kastalanum. Þeirra helsti er Steinsalurinn (Steinerner Saal) sem skreyttur er með veggmálverkum og freskum. Annar þekktur salur er Fagrisalur (Schönheitsgalerie) þar sem Lúðvík konungur lét hengja upp málverk af 36 fallegum konum frá München. Alls eru þrjú söfn í kastalanum.

  • Hestvagnasafn í suðurálmunni
  • Postulínssafn í suðurálmunni
  • Safn um manninn og náttúruna í norðurálmunni

Söfnin og kastalinn sjálfur eru mjög vinsæl. Um 300 þús manns sækja kastalann heim árlega. Auk þess eru haldnir tónleikar í kastalanum árlega síðan 2004.