Fara í innihald

Lúðvík 2. af Bæjaralandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Wittelsbach-ætt Konungur Bæjaralands
Wittelsbach-ætt
Lúðvík 2. af Bæjaralandi
Lúðvík 2.
Ríkisár 10. mars 1864 – 13. júní 1886
SkírnarnafnLudwig Otto Friedrich Wilhelm
Fæddur25. ágúst 1845
 Nymphenburg-kastali, München, Bæjaraland
Dáinn13. júní 1886 (40 ára)
 Starnberg-vatn, Bæjaralandi, þýska keisaradæminu
GröfKirkja heilags Mikaels, München
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Maximilian 2. af Bæjaralandi
Móðir María af Prússlandi

Lúðvík 2. (Ludwig Otto Friedrich Wilhelm; 25. ágúst 1845 – 13. júní 1886)[1] var konungur Bæjaralands frá 1864 þar til hann lést árið 1886. Hann er stundum kallaður „Svanakonungurinn“, „Lúðvík óði“ eða „Ævintýrakonungurinn“ (der Märchenkönig). Lúðvík var einnig greifi af Rínarlandi, hertogi af Frankalandi og hertogi af Svefalandi.[2]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Lúðvík tók við bæversku krúnunni á nítjánda aldursári eftir dauða föður síns, Maximilians 2. konungs, árið 1864.[3] Lúðvík settist að í höllinni Hohenschwangau og lét breyta svefnherbergjum hennar. Hann lét koma fyrir eftirlíkingu af klettabjargi og gervifossi við rúm sitt auk appelsínutrjáa og stjörnum prýddum gervinæturhimni fyrir ofan það.[3]

Vinskapur tókst með Lúðvík og tónskáldinu Richard Wagner eftir að Lúðvík sótti óperuna Tristan og Isolde árið 1865 í München.[3] Lúðvík gerðist velgjörðamaður Wagners og átti mikinn þátt í að byggja upp vinsældir hans og hefja hann upp á sess sem eitt af þjóðskáldum Þýskalands. Ráðherrum Lúðvíks og öðrum mektarmönnum Bæjaralands var ekki vel við vinskap þeirra þar sem þau óttuðust að hinn samkynhneigði Lúðvík væri ástfanginn af Wagner.[3]

Valdaár[breyta | breyta frumkóða]

Tveimur árum eftir að Lúðvík settist á konungsstól barðist Bæjaraland með Austurríki og bað ósigur í stríði gegn Prússlandi. Í fransk-prússneska stríðinu árið 1870 börðust Bæjarar hins vegar með Prússum gegn Frakklandi. Lúðvík hafði lítil afskipti af þessum stríðum og kom hvergi nálægt vígvellinum.[3] Eftir sigur Prússa gegn Frökkum skrifaði Lúðvík undir „keisarabréfið“ svokallaða og féllst á að Bæjaraland gerðist hluti af nýja þýska keisaraveldinu sem Prússar stofnuðu. Hugsanlegt er að Otto von Bismarck kanslari Prússlands hafi mútað Lúðvík til hlýðni með því að notfæra sér skuldir konungsins vegna hinna fjölmörgu byggingar- og listaverkefna sem hann stóð fyrir.[3] Talið er að Lúðvík hafi hlotið um sex milljónir gyllina úr ríkishirslu Prússlands eftir sameiningu Þýskalands undir stjórn Prússa.[3]

Bæjaraland hélt sjálfstæði innan nýja þýska ríkisins í vissum málum en Lúðvík dró sig í æ meiri mæli frá daglegu stjórnarlífi og einbeitti sér þeirra í stað að listaverkefnum og gerð nýrra bygginga. Hann lét byggja tvær mikilfenglegar hallir og Neuschwanstein-kastala. Með Neuschwanstein-kastala hugðist Lúðvík byggja sér nokkurs konar draumaríki í Ölpunum og átti höllin að minna sem mest á riddarakastala frá miðöldum í rómantískum anda.[3]

Lúðvík eyddi öllu fé sínu (en ekki fé ríkisins) í þessi verkefni og virti ráð ráðherra sinna um að draga úr eyðsluseminni að vettugi. Að lokum gripu ráðherrarnir árið 1886 til þess ráðs að lýsa Lúðvík geðveikan vegna eyðslusemi hans og lokuðu hann inni í Berg-höll. Deilt er um hvort Lúðvík hafi í raun og veru verið geðveikur.[4]

Dauði[breyta | breyta frumkóða]

Lúðvík lést á dularfullan máta þann 13. júní 1886 ásamt geðlækni sínum, dr. Bernhard von Gudden. Um kvöldið fóru mennirnir tveir í göngutúr frá Berg-höll meðfram bakka Starnberg-vatns. Lúðvík og Gudden sáust síðast á lífi klukkan hálfsjö en skiluðu sér ekki heim á tilsettum tíma. Klukkan hálfellefu fann þjónustulið hallarinnar konunginn og geðlækninn látna í fjöru vatnsins. Opinber skýring á dauða Lúðvíks var sú að hann hefði framið sjálfsmorð. Þessi skýring hefur oft verið dregin í efa, meðal annars vegna þess að ekkert vatn var í lungum konungsins[5][6] og vegna þess Lúðvík hafði ekki gefið til kynna að hann væri í sjálfsmorðshugleiðingum.[5][7] Auk þess voru ummerki þess að Gudden hefði verið veitt höfuðhögg og hann tekinn kverkataki.[8] Kenningar fóru því fljótt á kreik um að Lúðvík hefði verið myrtur af óvinum sínum er hann reyndi að flýja frá Berg-höll.[5]

Margar byggingarnar sem Lúðvík lét reisa eru í dag vinsælir ferðamannastaðir í Bæjaralandi. Í dag er Lúðvíks gjarnan minnst sem þjóðhetju Bæjaralands þótt hann hafi helst verið talinn ónytjungur á meðan hann lifði.[3]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Rupert Hacker: Ludwig II. von Bayern in Augenzeugenberichten. 1966, bls. 363.
  2. Adreßbuch von München 1876, p. 1.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 3,6 3,7 3,8 „Síðasti miðaldakóngurinn“ , Þjóðviljinn, 22. júní 1986.
  4. „Mad King Ludwig? Study claims Bavarian monarch was sane“. Der Spiegel. Hamburg. 31. janúar 2014. Sótt 1. febrúar 2014.
  5. 5,0 5,1 5,2 Nöhbauer, Hans. Ludwig II. (Taschen, 1998), bls. 88.
  6. von Burg, Katerina. Ludwig II of Bavaria. (1989), bls. 308.
  7. von Burg, Katerina. Ludwig II of Bavaria. (1989), bls. 315.
  8. „Der Mythos vom Märchenkönig“. focus.de. 12. júní 2010. Sótt 14. júní 2011.