Theatiner-kirkjan í München

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Theatiner-kirkjan er reist í barokkstíl

Theatiner-kirkjan í München var reist á 17. öld og er fyrsta kirkjan norðan Alpa sem reist var í ítölskum barokk-stíl.

Heitið[breyta | breyta frumkóða]

Formlega heitir kirkjan Stiftskirche St. Kajetan, en hún er þó ávallt kölluð Theatiner-kirkjan (Theatinerkirche). Theatiner var heiti á kaþólskri munkareglu á þessum tíma. Auk þess stendur kirkjan við Theatinerstrasse.

Háaltarið er umvafið miklum skreytingum

Saga kirkjunnar[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1659 gerði Henrietta Aðalheiður frá Savoy, eiginkona kjörfurstans Ferdinands, heit um að reisa hina fegurstu og dýrustu kirkju ef hún eignaðist heilbrigðan erfingja í karllegg. Kirkjan yrði þá gefin munkum af Theatiner-reglunni. Þremur árum síðar eignaðist hún prinsinn Maximilian Emanúel og voru þá gerðar áætlanir um smíði kirkjunnar. Byggingameistarinn var sóttur til Ítalíu, enda átti kirkjan að vera reist í ítölskum barokkstíl. Hornsteinninn var lagður 1663 og var kirkjan Sant’ Andrea della Valle í Róm fyrirmyndin. Kirkjan var vígð 1675, en var þó ekki fullkláruð. Miklar deilur spunnust um framhliðina og var frágangi hennar því skotið á frest. Henrietta sá því kirkjuna aldrei fullkláraða, því hún lést 1676. Turnarnir voru reistir 1684-92. Framhliðin þurfti að bíða í hartnær öld. Hún var ekki gerð fyrr en 1765 í rókókóstíl. Samfara kirkjunni var stórt klaustur reist fyrir Theatiner-regluna. Það myndaði ásamt kirkjunni stóran ferning. Hins vegar var klaustrið lagt niður 1801 af Maximilian I. konungi Bæjaralands. Kirkjan varð þá að hirðkirkju konungs og klaustrinu var breytt í ráðuneyti (fjármála, dómsmála og kirkjumála). Í loftárásum seinni heimstyrjaldar skemmdist kirkjan nokkuð og ráðuneytin talsvert. Kirkjan var lagfærð frá 1946-55. Viðgerðum á klaustrinu lauk ekki fyrr en 1973. Kirkjan er enn sem áður skreytt á margvíslegan hátt, bæði með vegg- og súlnaskrauti, sem og málverkum og öðrum listaverkum.

Grafhvelfing[breyta | breyta frumkóða]

Theatiner-kirkjan er, ásamt Frúarkirkjunni, grafarkirkja hertoganna, kjörfurstanna og konunganna í München. Um 50 manneskjur hvíla í kirkjunni, þar á meðal Karl VII keisari þýska ríkisins.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Theatinerkirche (München)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt janúar 2010.