Nombre de Dios
Nombre de Dios (spænska: nafn guðs) er hafnarbær á Atlantshafsströnd Panama við mynni Río Chagres.
Bærinn var upphaflega stofnaður sem spænsk nýlenda árið 1510 af Diego de Nicuesa og var fyrsta byggð Evrópumanna á Panamaeiðinu. Bærinn var alla tíð illa staðsettur við hliðina á mýri og illverjanlegur árásum. Hann var fram á 17. öld viðkomustaður spænska Gullflotans og Silfurlestarinnar, múldýralestar sem flutti góðmálma úr námum inni í landi. 1572 rændi enski sjóræninginn Francis Drake bæinn og náði Silfurlestinni á sitt vald árið eftir. Á 17. öld tók Portobello við hlutverki áfangastaðar Gullflotans. Bærinn er enn til, en er nú miklu minni en hann var á 16. öld.
Fyrir gerð Panamaskurðarins var Nombre de Dios fyrsti áfangastaður skipa sem fóru erfiða leið yfir Panamaeiðið um röð áa og stöðuvatna. Höfn bæjarins er fræg fyrir mikinn fjölda skipsflaka sem liggja þar.