Fara í innihald

Mikki Mús

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Mickey Mouse)
Upphafleg teikning af Mikka Mús úr Steamboat Willie

Mikki Mús (Mickey Mouse á ensku) er teiknimyndapersóna sem er lukkudýr Walt Disney-fyrirtækisins. Walt Disney og Ub Iwerks sköpuðu hann saman hjá Walt Disney-hreyfimyndastúdíóinu árið 1928. Mikki er talandi og manngerð mús sem venjulega klæðist rauðum stuttbuxum, stórum gulum skóm og hvítum hönskum. Mikki er ein frægasta skáldpersóna í heimi.

Mikki birtist fyrst í tilraunateiknimyndinni Plane Crazy en var opinberlega kynntur til sögunnar í stuttmyndinni Steamboat Willie (1928), einni fyrstu hljóðteiknimynd allra tíma. Steamboat Willie var fordæmalaus á sínum tíma fyrir það hvernig hún skeytti saman teiknimynd við tónlist og alls kyns óhljóð. Myndin var einn mesti smellur í bandarískum kvikmyndahúsum þess árs og skaut Walt Disney upp á stjörnuhimininn nánast á einu bretti. Því er ekki ofsögum sagt að Mikki hafi lagt grunninn að risaveldi Walt Disney og í raun öllum bandaríska teiknimyndaiðnaðinum. Mikki átti eftir að birtast í fleiri en 130 myndum, þ. á m. The Band Concert (1935), Brave Little Tailor (1938) og Fantasíu (1940). Mikki birtist aðallega í stuttmyndum en líka endrum og eins í kvikmyndum í fullri lengd. Tíu af teiknimyndum Mikka voru tilnefndar til Óskarsverðlauna sem besta teiknistuttmyndin, en aðeins ein vann: Lend a Paw árið 1942. Árið 1978 varð Mikki fyrsta teiknimyndapersónan sem fékk stjörnu á Hollywood Walk of Fame-götunni.

Frá og með árinu 1930 birtist Mikki líka oft í myndasögum. Dagblaðastrípa með hans nafni, aðallega teiknuð og samin af Floyd Gottfredson, birtist vikulega í 45 ár. Mikki hefur einnig birst í myndasögublöðum eins og Topolino í Ítalíu, Andrésar Andarblöðunum á Íslandi og í sjónvarpsþáttaröðum eins og The Mickey Mouse Club á meðal annarra. Hann birtist líka í öðrum miðlum, þ. á m. tölvuleikjum. Hægt er að heilsa upp á Mikka og fá eiginhandaráritun hans í skemmtigörðum Disney.

Mikki er oft í fylgd kærustu sinnar, Mínu Músar, hundsins síns Plútós, vina sinna, Andrésar Andar og Guffa, og erkióvinar síns, Svarta-Péturs. Þótt hann hafi í upphafi verið hrekkjótt andhetja mildaðist Mikki með árunum og varð fremur góðlyndur en ævintýragjarn. Árið 2009 byrjaði Disney að leggja meiri áherslu á hrekkjótta og ævintýragjarna hlið hans fremur en glaðlyndi og kátleika.[1]

Mikki birtist fyrst á íslensku árið 1939 og hét þá Búri bragðarefur. Leiftur gaf út.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Barnes, Brooks (4. nóvember 2009). „After Mickey's Makeover, Less Mr. Nice Guy“. New York Times. Sótt 5. nóvember 2009.
  Þessi menningargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.