Max Weber

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Max Weber árið 1894

Max Weber (21. apríl 186414. júní 1920) var þýskur hagfræðingur og félagsvísindamaður. Hann er einn áhrifamesti fræðimaður á sviði félagsvísinda fyrr og síðar. Ásamt samstarfsmanni sínum Georg Simmel var hann leiðandi talsmaður eigindlegra rannsóknaraðferða í félagsvísindum.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Hann fæddist í Erfurt í Thϋringen og var sonur umsvifamikils lögmanns þar í borg er sat um skeið á prússneska þinginu og ríkisþinginu í Berlín. Móðir Webers var aftur á móti mjög trúrækinn og heittrúaður kalvínstrúarmaður. Weber var framúrskarandi námsmaður og lauk hinu meira doktorsprófi við Háskólann í Berlín árið 1891. Sérsvið hans var réttarsaga, en rannsóknir hans í þeirri grein gengu einnig mjög inn á svið hagsögu.

Weber var undir áhrifum frá tveimur skólum hugsunar, annars vegar var það þýski sagnfræðiskólinn þar sem hann tók margt frá Heinrich Rickert, og hins vegar var það marxíski hagfræðiskólinn. Afskipti hans af þýska sagnfræðiskólanum leiddu til þess að hann dróst inn í deilur um aðferðafræði. Þar varð hann að taka afstöðu sem var gagnrýnin í garð sögulegrar hagfræði og aðferða náttúruvísindanna.

Weber var afkastamikill fræðimaður og skrifaði mikið, mest þó á seinni árum. Eru verk hans best þekkt fyrir sögulega yfirsýn á vestræn samtímasamfélög og þróun þeirra á sviði efnahags, laga og trúarbragða. Hann skrifaði m.a. um hagfræði og hagsögu, aðferðafræði félagsvísindanna, charisma, skrifræði, lagskiptingu samfélagsins og um trúarbrögð í Kína og Indlandi. Þekktasta verk hans er líklega bókin Die protestantische Ethik und der 'Geist' des Kapitalismus sem hann skrifaði á árunum 1904 og 1905. Weber var einn fyrsti kennismiður skrifræðislegra skipulagsheilda sem hafðar voru sem fyrirmyndir bæði í stjórnun opinberra stofnana og fyrirtækja á einkamarkaði.

Bókin Mennt og máttur i íslenskri þýðingu Helga Skúla Kjartanssonar á tveimur fyrirlestrum sem Weber flutti upp úr aldamótunum 1900 - 1901 og kom út í lærdómsritaröð Bókmenntafélagsins 1973.

Félagsvísindin[breyta | breyta frumkóða]

Weber er þekktur fyrir margvísleg framlög hans til félagsvísindanna. Hann hefur haft varanleg áhrif hugmyndum manna á sviði félagsfræði, lögfræði, hagfræði, stjórnmálafræði, trúarbragðafræði og sagnfræði. Þekktasta verk hans er vafalaust Siðfræði mótmælenda og andi auðhyggjunnar (þ. Die protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus) (1905) en í þeirri bók kannaði hann tengsl kalvínisma og þróun kapítalisma. Weber var sérlega áhugasamur um áhrif trúarbragða á mennningu og rannsakaði ítarlega öll helstu trúarbrögðin.

Weber setti fram þá skilgreiningu á nútímaríkið sem oftast er vísað í að það væri samfélag manna sem gerði viðurkennda kröfu til einokunar á réttmætri beitingu ofbeldis á afmörkuðu landsvæði.

Weber skilgreindi vald sem getu manna til þess að ná fram vilja sínum gagnvart öðrum burtséð frá óháð vilja þeirra. Valdi skipti hann í þrjá flokka:

 1. Náðarvald nefnist það vald sem er bundið einstaklingi og persónu hans. Slíkt vald er því tímabundið.
 2. Hefðarvald nefnist vald sem flyst milli kynslóða, t.d. innan konungsfjölskyldna.
 3. Regluvald byggist á formlegum, oftast skrifuðum reglum og föstu skynsamlegu kerfi (sjá skrifræði).

Hagfræðin[breyta | breyta frumkóða]

Max Weber er þekktastur fyrir rannsóknir sínar á sambandi trúar og efnahagshorfum, og þar er kapítalismi einn rauður þráður sem endurtekur sig í hans verkum. Hann er oft talinn vera einn af grundvallarhöfundum þeirrar hugmyndar að menningarlegar þættir hafi áhrif á hvernig efnahagskerfi eru skipulögð, og þessar hugmyndir eru enn mikilvægar í nútíma hagfræði.

Weber leit á sjálfan sig fyrst og fremst sem hagfræðing og voru allar stöður hans sem prófessor í hagfræði, þó að framlag hans á því sviði falli að mestu í skuggann af hlutverki hans sem upphafsmaður nútíma félagsfræði. Sem stjórnmálahagfræðingur og hagsagnfræðingur tilheyrði Weber „yngsta“ þýska sögulega hagfræðiskólanum. Mikill munur var á áhugamálum og aðferðum skólans annars vegar og nýklassíska skólans (sem nútíma almenn hagfræði er að mestu leyti sprottin af) hins vegar skýrir hvers vegna erfitt er að greina áhrif Webers á hagfræði í dag. En þrátt fyrir að rannsóknaráhugi Webers hafi verið mjög í takt við þennan skóla, voru skoðanir hans á aðferðafræði og jaðarnytjum verulega frábrugðnar skoðunum annarra þýskra sagnfræðinga og voru í raun nær skoðunum Carl Menger og austurríska skólanum. [1] Framlag Weber til hagfræðinnar var ekki eins umfangsmikið og margra annarra í greininni en þó var það áhrifamikið. Hugmyndir hans hafa haft varanleg áhrif á fræðigreinina með því að leggja áherslu á menningar-, trúar- og félagsfræðilega þætti sem hafa áhrif á efnahagslega hegðun og hvernig efnahagskerfi eru skipulögð. Meginþema í félagsfræði verkum Weber's var sjónarhorn hans á kapítalisma. Weber skoðaði samspil trúar og efnahagsþróunar. Hann hélt því fram að siðbót mótmælenda og kenningar kalvínismans, hafi stuðlað að tilkomu nútíma kapítalisma.[2]

Siðfræði mótmælenda og andi auðhyggjunnar[breyta | breyta frumkóða]

Max Weber hafði einnig mikil áhrif með Siðfræði mótmælenda og anda auðhyggjunnar (þýska: Die protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus). Bókin byrjaði sem safn ritgerða en upprunalegi þýski textinn var skrifaður á árunum 1904 og 1905, og var þýddur á ensku í fyrsta sinn af bandaríska félagsfræðingnum, Talcott Parsons árið 1930. [2]

Í bókinni kannaði hann hvernig tengsl milli trúar, þá aðallega mótmælendatrúar og tilkomu nútíma kapítalisma. Weber hélt því fram að sýn mótmælenda til vinnu gegndi mikilvægu hlutverki þegar horft væri til mótunar á efnahagslegri hegðun einstaklinga og þróun á kapítalískra efnahagskerfa, þar sem lögð var mikil áhersla á vinnusemi ásamt sparsemi og þeirra sýn á skyldu. Þetta hafði í för með sér mikil áhrif á hvernig horft væri til hagvaxtar með menningarlegum og sálrænum þáttum og er þetta talinn grunntexti í hagrænni félagsfræði og tímamóta framlag til félagsfræðilegrar hugsunar almennt. [3]

Weber notaði tölfræðilegar upplýsingar til að sanna staðreyndina um að þau sem fylgdu mótmælendatrúnni höfðu meiri áhuga á starfi og litu á vinnuna sem skuldbindingu sem skapar hagstæðustu vinnu aðstæðurnar. Þetta mótaði upprunalega skrifræði.

Skrifræði[breyta | breyta frumkóða]

Weber mótaði góðan skilning á eðli og hlutverki skrifræðis sem hefur enn í dag áhrif á samfélags vísindi og rannsóknir stjórnmála og skipulags. Hann skilgreindi skrifræði sem skipulagsform sem einkennist af stigveldum, formlegum reglum og aðgerðum, verkaskiptingu og ópersónulegum samskiptum. Hann taldi það vera skilvirk og skynsamleg leið til að skipuleggja stórar og flóknar stofnanir, t.d. ríkisstofnanir og fyrirtæki. Samkvæmt Weber var skrifræði byggt á meginreglum sérhæfingar, fyrirsjáanleika og eftirlits, sem gerði ráð fyrir skilvirkri framkvæmd verkefna og ákvarðanatökuferla.

Weber ræddi einnig hugmyndina um hið fullkomna mynstur skrifræðinnar, þar sem hann leggur áherslu á lykileiginleika eins og vel skilgreind hlutverk, stigveldisskipan, (enska: hierarchical chain of command), skipan sem byggir á verðleikum og formlegum reglum. Hann var þó einnig meðvitaður um mögulega galla skrifræðis, þar á meðal hættuna á persónulegri niðurlægingu og járnbúri (enska: iron cage) hagfræðinnar, þar sem kerfið verður of stíft og mannlaust.

Innsýn Webers í skrifræði hefur valdið varanlegum áhrifum á rannsóknir stofnana og stjórnarhátta, sem leyfir okkur að skilja þeirra uppbyggingu og virkni, ásamt styrkleika þeirra og takmörkunum í samtímasamfélagi. Skrifræði hafði áhrif á hagfræði með því að leggja grunninn að skoðunum um stjórnmál og efnahagskerfi. [4]

Economy and Society[breyta | breyta frumkóða]

Annað verk eftir Max Weber sem talið er eitt það merkasta eftir hann er „Economy and Society“ sem var gefið út eftir að hann lést. Max Weber náði ekki að klára verkið áður en hann lést en þrátt fyrir það er verkið víðtækt og samanstendur af mörgum bindum. Verkið inniheldur greiningu á mörgum þáttum tengt fyrirkomulagi félags- og efnahagsmálum. Weber byrjaði á því að útskýra tegundir félagslegra aðgerða sem að lagði grunninn að greiningu hans á efnahagslegri og félagslegri hegðun. Þar næst kannaði hann félagslega uppbyggingu og tengsl, og hvernig síbreytilegar samfélagsgerðir höfðu áhrif á mótun mannlegri hegðun.

Hann lagði áherslu á mikilvægi stöðu, stéttar og valds sem voru að hans mati lykilþættir í félagslegum samskiptum og lagskiptingu. Í ritunum kynnti Weber hugtakið yfirráð og flokkaði hann það í þrjá hópa; hefðbundið vald, forystu vald og lagalegt-skynsemis vald. Hugtökin eru nauðsynleg til að skilja mismunandi stjórnarhætti og vald í efnahagslegum og félagslegum stofnunum. Weber beitti tegundafræði sinni á félagslegum aðgerðum sérstaklega á efnahagslega hegðun. Hann greinir á milli mismunandi tegunda efnahagsaðgerða, þar á meðal hefðbundinna efnahagsaðgerða, áhrifafræðilegra efnahagsaðgerða og verðmæta skynsamlegra efnahagsaðgerða. Hann fjallaði einnig um hvernig aðgerðirnar geta skarast á við mismunandi gerðir efnahagskerfa. Verkið er viðamikið og flókið en varð mjög áhrifa mikið og veitti dýrmæta innsýn í uppbyggingu og hreyfanleika efnahags- og félagslegra kerfa. [5]

Ljósmyndir[breyta | breyta frumkóða]

Bókakápur[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Beiser, Frederick C. (2011). The German historicist tradition. Oxford New York: Oxford university press. ISBN 978-0-19-969155-5.
 2. 2,0 2,1 Weber, Max; Baehr, Peter R.; Wells, Gordon C.; Weber, Max (2012). The Protestant ethic and the "spirit" of capitalism and other writings. Penguin twentieth-century classics (23. print. útgáfa). New York: Penguin Books. ISBN 978-0-14-043921-2.
 3. McKinnon, Andrew M. (2010-03). „Elective Affinities of the Protestant Ethic: Weber and the Chemistry of Capitalism“. Sociological Theory (enska). 28 (1): 108–126. doi:10.1111/j.1467-9558.2009.01367.x. ISSN 0735-2751.
 4. Waters, Tony; Waters, Dagmar (2015), Waters, Tony; Waters, Dagmar (ritstjórar), „Max Weber's Writing as a Product of World War I Europe“, Weber's Rationalism and Modern Society (enska), Palgrave Macmillan US, bls. 19–28, doi:10.1057/9781137365866_2, ISBN 978-1-349-47664-0, sótt 8. september 2023
 5. Weber, Max; Roth, Guenther; Wittich, Claus; Weber, Max (1979). Economy and society: an outline of interpretive sociology. Berkeley London: University of California Press. ISBN 978-0-520-02824-1.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • Weber, Max (1978(2. útgáfa)). Mennt og máttur. Hið íslenska bókmenntafélag.
 • Barnard, Alan (2000). History and Theory in Anthropology. Cambridge University Press.
 • Morrison, Ken (2000). Marx, Durkheim, Weber: Formations of Modern Social Thought. Sage Publications.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]