Masoud Pezeshkian
Masoud Pezeshkian | |
---|---|
مسعود پزشکیان | |
Forseti Írans | |
Núverandi | |
Tók við embætti 30. júlí 2024 | |
Þjóðhöfðingi | Ali Khamenei |
Varaforseti | Mohammad Reza Aref |
Forveri | Mohammed Mokhber (starfandi) |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 29. september 1954 Mahabad, Íran |
Þjóðerni | Íranskur |
Börn | 4[1] |
Háskóli | Tabriz-háskólinn í læknavísindum Íranski háskólinn í læknavísindum |
Undirskrift |
Masoud Pezeshkian (persneska: مسعود پزشکیان; f. 29. september 1954) er íranskur hjartaskurðlæknir og umbótasinnaður stjórnmálamaður sem er núverandi forseti Írans.[2] Pezeshkian sat áður á íranska þinginu fyrir kjördæmið Tabriz, Osku og Azarshahr og var jafnframt varaforseti þingsins frá 2016 til 2020. Hann var heilbrigðis- og læknanámsráðherra frá 2001 til 2005 í ríkisstjórn Mohammads Khatami.[3] Pezeshkian var kjörinn sveitarstjóri sýslanna Piranshahr og Naghadeh í Vestur-Aserbaísjan-fylki á níunda áratugnum.[4] Hann gaf kost á sér í forsetakosningum Írans árið 2013 en dró framboð sitt til baka, og aftur árið 2021 en hlaut ekki framboðsleyfi.[5] Pezheskhian bauð sig aftur fram til forseta árið 2024, í kosningum sem haldnar voru eftir að forsetinn Ebrahim Raisi lést í þyrluslysi. Í þetta sinn hlaut Pezeshkian leyfi stjórnvalda til að bjóða sig fram og var kjörinn forseti í seinni umferð þann 5. júlí.[6]
Æska og menntun
[breyta | breyta frumkóða]Pezeshkian fæddist í Mahabad í Vestur-Aserbaísjan-fylki þann 29. september 1954[7] og er kominn af írönskum Aserum.[8] Árið 1973 lauk hann stúdentsprófi og flutti til Zabol til að gegna herþjónustu. Á þessum tíma varð hann áhugasamur um læknisfræði. Hann sneri aftur til heimahéraðs síns eftir að hafa lokið herþjónustu og gekk í læknaskóla og útskrifaðist með gráðu í almennri læknisfræði. Á tíma stríðs Írans og Íraks (1980–1988) fór Pezeshkian oft fram á vígstöðvarnar, þar sem hann hafði umsjón með að senda læknateymi og vann sem hermaður og herlæknir. Pezeshkian hlaut starfsleyfi sem heimilislæknir árið 1985 og hóf að kenna lífeðlisfræði við læknaskólann.
Auk persnesku talar Pezeshkian mörg tungumál, þar á meðal asersku, kúrdísku, arabísku og ensku.[9][10]
Pezeshkian hélt áfram námi eftir stríðið og sérhæfði sig í almennum skurðlækningum við Tabriz-læknisfræðiskólann. Árið 1993 hlaut hann undirsérgrein í hjartaskurðlækningum við Íranska læknisfræðiskólann. Hann varð síðar sérfræðingur í hjartaskurðlækningum og varð forseti Tabriz-læknisfræðiskólans árið 1994. Hann gegndi þeirri stöðu í fimm ár.[11]
Ferill
[breyta | breyta frumkóða]Pezeshkian hóf feril í stjórnmálum þegar hann tók sæti í ríkisstjórn Mohammads Khatami sem aðstoðarheilbrigðisráðherra árið 1997. Hann var útnefndur heilbrigðisráðherra fjórum árum síðar og gegndi því embætti frá 2001 til 2005.[12][óvirkur tengill] Síðan þá hefur hann verið kjörinn á íranska þingið fimm sinnum fyrir kjördæmi í Tabriz, og var varaforseti þingsins frá 2016 til 2020.
Þann 6. júlí 2024 var Pezeshkian kjörinn forseti Írans eftir að hafa unnið sigur í seinni umferð forsetakosninga daginn áður með 16,3 milljónum atkvæða (53,7%) gegn 13,5 milljónum (44,3%) sem Saeed Jalili hlaut.[13] Áætlað er að hann taki við embætti einhvern tímann á milli 22. júlí og 5. ágúst 2024, eftir að hann hefur sagt upp þingsæti sínu.[14]
Pezeshkian er kórankennari og upplesari Nahj al-balagha, lykiltexta meðal sjíamúslima.[15]
Skoðanir
[breyta | breyta frumkóða]Íslamska byltingarvarðliðið
[breyta | breyta frumkóða]Pezeshkian er stuðningsmaður íslamska byltingarvarðliðsins og hefur sagt að í núverandi mynd sé það „frábrugðið því sem áður var“.[16] Hann fordæmdi skilgreiningu ríkisstjórnar Donalds Trump Bandaríkjaforseta á byltingarvarðliðinu sem hryðjuverkasamtökum árið 2019.[17] Eftir að Íranir skutu niður bandarískan dróna árið 2019 sakaði Pezeshkian ríkisstjórn Bandaríkjanna um hryðjuverk og lýsti ákvörðun byltingarvarðliðsins um að skjóta hann niður sem „sterku kjaftshöggi gegn glæpaleiðtogum Bandaríkjanna“.[18] Pezeshkian klæddist einkennisbúningi byltingarvarðliðsins á háskólafundi til að svara gagnrýni og sagðist myndu klæðast honum aftur.[19]
Gagnrýni á íranska kerfið
[breyta | breyta frumkóða]Pezeshkian hefur ítrekað gagnrýnt stjórnkerfi Írans. Á tíma mótmælanna í Íran árið 2009 flutti Pezeshkian ræðu þar sem hann gagnrýndi meðferð stjórnvalda á mótmælendum. Í ræðunni vitnaði hann til orða Alís, fyrsta imams sjíamúslima, til Maliks Ashtar um að ekki bæri að koma fram við fólk „eins og villidýr“.[20]
Pezeshkian kallaði viðbrögð íranskra stjórnvalda við mótmælunum 2018 „vísindalega og vitsmunalega röng“. Hann kenndi íranska kerfinu um mótmælin og sagði: „Við hefðum átt að gera betur“.[21] Eftir mótmælin gegn dauða Möhsu Amini árið 2022 krafðist Pezeshkian þess að stofnað yrði sérstakt teymi til að meta og skýra atvikið. Þrátt fyrir að segjast telja að meðferð stjórnvalda á mótmælendunum og réttarhöldin gegn þeim stæðust ekki stjórnarskrá landsins, og krefjast þess að sakborningunum yrðu útvegaðir lögmenn, gaf hann síðar út yfirlýsingu þar sem hann fordæmdi mótmælin og sagði þau ekki þjóna hagsmunum almennings.[22]
Viðhorf til þjóðernishópa
[breyta | breyta frumkóða]Pezeshkian hefur lagt áherslu á réttindi þjóðernishópa eins og Asera, Kúrda og Balúka og segir að vernda beri réttindi allra þessara hópa. Hann styður að 15. gr. stjórnarskrár Írans verði innleidd fyrir alla þjóðernishópa. Í henni stendur: „Opinbert og sameiginlegt tungumál og stafróf fólksins í Íran er persneska. Skjöl, samskipti, opinber gögn og kennslubækur verða að vera á þessu máli en notkun staðbundinna tungumála og tungumála þjóðarbrota í fréttum og fjölmiðlum og kennsla á bókmenntum þeirra í skólum er frjáls, samhliða persneska tungumálinu.“ Pezeshkian segir að innleiðing þessarar meginreglu dragi úr hvöt aðskilnaðarsinna og andófsmanna.[23] Pezeshkian styður jafnframt að aserska verði kennd í írönskum skólum.[5]
Einkahagir
[breyta | breyta frumkóða]Eiginkona Pezeshkians var kvensjúkdómalæknir.[24] Hún lést ásamt yngsta syni þeirra árið 1993 í bílslysi.[25] Hann ól upp tvo eftirlifandi syni og dóttur sína einn og kvæntist aldrei aftur.[26] Dóttir hans, Zahra, er með mastersgráðu í efnafræði frá Sharif-tækniháskólanum, og vann hjá undirdeild íranska olíufélagsins áður en stjórn Hassans Rouhani tók við völdum. Hún er gjarnan talin pólitískur ráðgjafi.
Pezeshkian er aðdáandi fótboltaliðsins Tractor S.C.[27]
Almenningsímynd
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir telja fjölskyldu Pezeshkians vera langt frá stjórnmálalífi hans og hann er sjálfur talinn hafa flekklaust orðspor í efnahagsmálum. Pólitískir andstæðingar hans hafa hins vegar sakað hann um að vernda fólk sem er viðriðið spillingu.[28][29]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Ahangar, Ali. „مسعود پزشكيان؛ كسي كه مثل هيچ كس نيست“. Etemaad Daily. Sótt 29. júní 2024.
- ↑ „Centrist Masoud Pezeshkian will be Iran's next president“. Al Jazeera. 6. júlí 2024.
- ↑ „در مورد مسعود پزشکیان در ویکیتابناک بیشتر بخوانید“. www.tabnak.ir (persneska). Sótt 10. júní 2024.
- ↑ „Iran International“.
- ↑ 5,0 5,1 „افراد ردصلاحیتشده فقط توانستند یک نامه بنویسند“. Iranian Labour News Agency. 1. mars 2016. Sótt 2. mars 2016.
- ↑ „Pezeshkian er nýr forseti Íran“. mbl.is. 6. júlí 2024. Sótt 6. júlí 2024.
- ↑ „مسعود پزشکیان کیست؟“ [Hver er Masoud Pezeshkian?]. Entekhab (persneska). 21. maí 2024. Afrit af uppruna á 18. júní 2024. Sótt 28. júní 2024.
- ↑ Editorial (14. júní 2024). „The Guardian view on Iran's presidential election: more choice, but little real hope of change“. The Guardian (bresk enska). ISSN 0261-3077. Sótt 6. júlí 2024.
- ↑ Sharifi, Kian. „Who is Masud Pezeshkian, Iran's President-Elect?“. Radio Free Europe/Radio Liberty.
- ↑ Wintour, Patrick (6. júlí 2024). „Masoud Pezeshkian: the former heart surgeon who became president of Iran“. The Guardian (bresk enska). ISSN 0261-3077. Sótt 6. júlí 2024.
- ↑ „در مورد مسعود پزشکیان در ویکیتابناک بیشتر بخوانید“. www.tabnak.ir. Sótt 13. júní 2024.
- ↑ „Persian Press Review“. Tehran Times. 29. maí 2010. Sótt 9. september 2010.
- ↑ Fassihi, Farnaz (6. júlí 2024). „Reformist Candidate Wins Iran's Presidential Election“. The New York Times. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. júlí 2024. Sótt 6. júlí 2024.
- ↑ „President-elect's inauguration ceremony slated for July 22 – August 5“. Islamic Republic News Agency. 6. júlí 2024. Sótt 6. júlí 2024.
- ↑ „Reformist candidate Masoud Pezeshkian shakes up Iran presidential election“. www.ft.com. Sótt 13. júní 2024.
- ↑ مسعود پزشکیان: من بازهم لباس سپاه میپوشم/ سپاه با چیزی که الآن میبینید متفاوت است (persneska). 13. júní 2024. Sótt 13. júní 2024 – gegnum www.rokna.net.
- ↑ „ملت با قدرت از سپاه مقتدر دفاع میکند“. www.alef.ir. 16. júní 2024. Sótt 16. júní 2024.
- ↑ „پزشکیان: سپاه مشت محکمی به دهان یاوهگوییهای آمریکا زد/ طنین شعار «مرگ بر آمریکا» در مجلس“. www.alef.ir. 16. júní 2024. Sótt 16. júní 2024.
- ↑ „پزشکیان: من بازهم لباس سپاه میپوشم؛ سپاه اگر نبود کشور تجزیه شده بود“. اصلاحات نیوز (persneska). 16. júní 2024. Sótt 16. júní 2024.
- ↑ Mehrabi, Ehsan (10. júní 2024). „Who is Masoud Pezeshkian, the Only Pro-Reform Candidate?“. Iran Wire.
- ↑ „انتخابات ریاستجمهوری ایران؛ مهدی کروبی از نامزدی مسعود پزشکیان حمایت کرد“. BBC News فارسی (persneska). 19. júní 2024. Sótt 21. júní 2024.
- ↑ Dagres, Holly (19. júní 2024). „Masoud Pezeshkian is a possible game changer in the upcoming Iranian presidential election“. Atlantic Council (bandarísk enska). Sótt 21. júní 2024.
- ↑ رادیوفردا (25. apríl 2018). „پزشکیان: اصل ۱۵ قانون اساسی برای همه اجرا شود“. رادیو فردا (persneska). Sótt 16. júní 2024.
- ↑ „مقامهای جمهوری اسلامی و همسرانشان؛ مردان نامدار و زنان 'بینام'“. BBC News فارسی (persneska). Sótt 13. júní 2024.
- ↑ Wintour, Patrick (6. júlí 2024). „Masoud Pezeshkian: the former heart surgeon who became president of Iran“. The Guardian (bresk enska). ISSN 0261-3077. Sótt 6. júlí 2024.
- ↑ „مسعود پزشکیان“, ویکیپدیا، دانشنامهٔ آزاد (persneska), 13. júní 2024, sótt 13. júní 2024
- ↑ „پزشکیان: اکثر بازیهای تراکتور را با نوهام محمدحسین به استادیوم میرویم /با هم بحث میکنیم؛ نقدم میکند، اما هیچوقت دعوا نمیکنیم – خبرآنلاین“. www.khabaronline.ir. Sótt 16. júní 2024.
- ↑ „دفاع تأسفبار پزشکیان از 2 نماینده مجلس متهم به فساد مالی در بازار خودرو!“. رکنا (persneska). 16. júní 2024. Sótt 16. júní 2024.
- ↑ جهان, Fararu | فرارو | اخبار روز ایران و (16. júní 2024). „حمله زاکانی به پزشکیان: از یک بیعدالتی محض دفاع میکرد“. fa (persneska). Sótt 16. júní 2024.
Fyrirrennari: Mohammad Mokhber (starfandi) |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |