Fara í innihald

Marteinn Einarsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 8. mars 2013 kl. 18:36 eftir Addbot (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. mars 2013 kl. 18:36 eftir Addbot (spjall | framlög) (Bot: Flyt 2 tungumálatengla, sem eru núna sóttir frá Wikidata á d:q1902961)
(breyting) ← Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)

Marteinn Einarsson (d. 7. október 1576) var biskup í Skálholti frá 1548-1556 og var annar lútherski biskupinn þar.

Marteinn var frá Stað á Ölduhrygg, sonur Einars Ölduhryggjarskálds Snorrasonar, sem þar var prestur frá því um 1500 til dauðadags 1538, en móðir hans var Ingiríður Jónsdóttir, systir Stefáns Skálholtsbiskups. Einar Ölduhryggjarskáld átti fjölda barna með að minnsta kosti þremur konum. Alsystir Marteins var Guðrún, kona Daða Guðmundssonar í Snóksdal, en hálfbræður hans voru Gleraugna-Pétur Einarsson, sýslumaður og prestur í Hjarðarholti, og Moldar-Brandur Einarsson, sýslumaður á Snorrastöðum og í Hítarnesi.

Marteinn var níu ár við nám í Englandi (ein systir hans giftist enskum manni og bjó þar), kom síðan aftur til Íslands að námi loknu, var tvö ár við kaupmennsku í Grindavík en var orðinn prestur árið 1533 og tók við Stað á Ölduhrygg eftir föður sinn stuttu síðar. Hann var síðan officialis Skálholtskirkju 1538 og var kjörinn Skálholtsbiskup 1548 er Gissur Einarsson lést. Fór hann þá til Danmerkur að fá vígslu en Jón Arason sendi Sigvarð Halldórsson ábóta í Þykkvabæ sem fulltrúa kaþólskra manna. Ekkert mark var þó tekið á því og þótt eitthvað þætti skorta á guðfræðikunnáttu Marteins biskupsefnis var bætt úr því með því að láta hann sitja á skólabekk í hálft ár. Að því búnu var Marteinn vígður 7. apríl 1549 og fór svo heim til Íslands um sumarið. Hann var handtekinn af sonum Jóns Arasonar, Birni og Ara, haustið 1549 og var um eitt ár í haldi, lengst af á Möðrufelli hjá Ara. Jón biskup orti gamanbrag um handtökuna. Þegar Daði í Snóksdal fangaði Jón og syni hans haustið 1550 voru þeir fluttir í Skálholt, þar sem Marteinn var aftur tekinn við völdum, og höggnir þar.

Marteinn gegndi biskupsembættinu næstu árin og gaf meðal annars árið 1555 út fyrstu íslensku sálmabókina sem enn er til og þýddi marga sálma sjálfur. Hann sagði af sér 1557 þar sem honum þótti konungur ganga um of á eignir og réttindi stólsins. Hann settist aftur að á Stað og hélt áfram prestskap til 1569 en þá sagði hann af sér embætti og bjó eftir það í Álftanesi á Mýrum til æviloka. Marteinn þótti fær málari og fékkst við kirkjuskreytingar, er sagður hafa málað kirkjurnar bæði á Hólum og í Skálholti, en ekkert hefur varðveist af málaralist hans.

Kona Marteins hét Ingibjörg en föðurnafn hennar er óþekkt. Synir þeirra voru Jón Marteinsson sýslumaður í Árnesþingi og Halldór Marteinsson bóndi í Álftanesi og á Seljalandi. Dæturnar voru Guðrún prestsfrú á Melum í Melasveit og Ingiríður, kona Ólafs Bagge Janssonar fógeta á Bessastöðum. Einnig átti Marteinn synina Þórð prest í Hruna, sem giftist Katrínu Hannesdóttur ekkju Gissurar biskups Einarssonar, og Einar prest á Stað á Ölduhrygg.

Fyrirrennari:
Gissur Einarsson
Skálholtsbiskupar Eftirmaður:
Gísli Jónsson