Margaret Sanger
Margaret Sanger | |
---|---|
Fædd | 14. september 1879 |
Dáin | 6. september 1966 (86 ára) |
Þjóðerni | Bandarísk |
Störf | Kynfræðingur, hjúkrunarfræðingur |
Maki | William Sanger (g. 1902; sk. 1921) James Noah H. Slee (g. 1922; d. 1943) |
Börn | 3 |
Margaret Higgins Sanger (14. september 1879 – 6. september 1966) var bandarísk baráttukona fyrir getnaðarvörnum og tjáningarfrelsi sem stofnaði samtökin American Birth Control League (ísl. „Bandaríska getnaðarvarnabandalagið“), sem varð síðar þekkt undir nafninu Planned Parenthood. Hugmyndir Sanger um að konur ættu sjálfar að fá að ákveða hvenær og hvernig þær yrðu óléttar voru mjög umdeildar en hlutu smám saman hljómgrunn meðal almennings. Margaret Sanger var brautryðjandi í aðgengi að getnaðarvörnum. Hún hefur hins vegar oft verið gagnrýnd í seinni tíð fyrir stuðning sinn við arfbótastefnu.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Margaret Sanger fæddist þann 14. september árið 1879 í New York-fylki í Bandaríkjunum og var sjötta barnið af ellefu sem foreldrar hennar eignuðust. Móðir hennar, sem var kaþólsk, hafði alls orðið ólétt átján sinnum. Hún lést um fimmtugt úr berklum og leghálskrabbameini.[1] Margaret taldi fjölda barneigna hafa stuðlað að dauða móður sinnar, og átti þetta eftir að hafa áhrif á skoðanir hennar.[2]
Margaret gerðist hjúkrunarfræðingur í kringum aldamótin og vann við heimahjúkrun og heilsugæslu. Árið 1902 giftist hún William Sanger og átti eftir að eignast með honum tvo syni og eina dóttur sem lést í barnæsku. Árið 1910 flutti fjölskyldan til New York-borgar, þar sem Margaret fékk vinnu sem ljósmóðir í austurhluta borgarinnar. Hún aðstoðaði aðallega við fæðingar í heimahúsum, sér í lagi hjá innflytjendum.[1]
Algengt var að börn létust við fæðingu og Sanger komst oft í tæri við fátækar konur sem höfðu stefnt eigin lífi í hættu með því að framkvæma þungunarrof á sjálfum sér eða reyna að framkalla fósturlát. Margar konur vissu ekki hvernig mátti forðast óæskilega þungun og urðu því oft óléttar. Þetta starfsumhverfi átti þátt í því að Margaret Sanger þróaði með sér róttækar hugmyndir um það að konur ættu að hafa frelsi til að stjórna barneignum sínum. Hún einsetti sér því að berjast fyrir aukinni kynfræðslu og lögleiðingu getnaðarvarna, sem voru litnar hornauga og víða bannaðar með lögum.[1]
Barátta fyrir getnaðarvörnum
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1914 stofnaði Sanger mánaðarlegt fréttablað undir nafninu The Woman Rebel, þar sem hún skrifaði greinar um sjálfræði kvenna yfir eigin líkömum. Sama ár skildi Sanger við eiginmann sinn. Hún átti í samböndum við nokkra karlmenn á næstu árum, meðal annars rithöfundinn H. G. Wells, en giftist síðan olíujöfrinum James Slee, sem studdi baráttu hennar heilshugar.[1]
Sanger ferðaðist til Frakklands og Hollands til að kynna sér lyfjafræði og tala við verka- og kvenréttindakonur og skrifaði síðan bæklinginn „Family Limitation“, sem var prentaður í leyni andstætt lögum og honum útbýtt á milli kvenna. Árið 1916 stofnaði Sanger fyrstu göngudeildina á sviði fjölskylduáætlunar í Bandaríkjunum ásamt systur sinni, Ethel Byrne, sem einnig var hjúkrunarfræðingur. Stofan var opin í tíu daga og á þeim tíma voru 448 manns afgreiddir. Systurnar fræddu bæði konur og karla um getnaðarvarnir og bentu þeim á apótek þar sem hægt var að kaupa hettur, sem var ólöglegt að nota sem getnaðarvarnir en þó löglegt að selja til annarra nota. Eftir tíu daga lokaði lögreglan stofunni og handtók Margaret og Ethel, sem voru síðan dæmdar í mánaðarlangt fangelsi fyrir að brjóta gegn lögum sem bönnuðu dreifingu og fræðslu um getnaðarvarnir. Handtakan vakti mikla athygli og leiddi til þess að stuðningur við málstað Sangers jókst.[1]
Að nokkrum árum liðnum úrskurðaði dómstóll í New York-fylki að löglegt væri að læknar ávísuðu getnaðarvörnum og því gat Sanger árið 1923 opnað löglega móttöku með lækni sem forstöðumann. Hún hafði í millitíðinni stofnað samtökin American Birth Control League, sem urðu síðar að fjölskylduáætlunarsamtökunum Planned Parenthood Federation of America. Sanger ferðaðist um Bandaríkin til að fræða fólk um getnaðarvarnir og barneignir og samtökin opnuðu jafnframt skrifstofu í Washington, D.C. til að hafa áhrif á Bandaríkjaþing. Hún var oft handtekin fyrir aðgerðir sínar á þessum árum.[1]
Árið 1936 var Sanger handtekin fyrir að taka við getnaðarvörnum fyrir móttökuna í póstsendingu, en þær voru enn skilgreindar sem klámfengið efni samkvæmt lögum. Dómstóllinn úrskurðaði hins vegar að vegna nýrra upplýsinga um skaðsemi óæskilegra þungana gætu getnaðarvarnir ekki lengur talist klámfengnar. Úrskurðurinn gilti aðeins í New York, Connecticut og Vermont.[1]
Uppgötvun pillunnar
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1951 kynntist Sanger líffræðingnum Gregory Pincus, sem hafði lengi stundað rannsóknir á áhrifum kynhormóna og var þekktur fyrir þróun sína á gervifrjóvgunum í tilraunaglösum. Sanger taldi að rannsóknir Pincusar gerðu hann rétta manninn til að vinna að þróun getnaðarvarnarpillu og hafði því samband við fjárhagslegan bakhjarl sinn, auðkonuna Katharine McCormick, til að biðja hana að fjármagna rannsóknir þess efnis. McCormick féllst á tillögur Sangers og skrifaði árið 1953 ávísun upp á 40.000 Bandaríkjadali til að styrkja rannsóknir Pincusar, sem var stórfé á þeim tíma. Pincus hlaut ríkuleg fjárframlög frá McCormick á næstu árum og tókst að endingu ásamt læknisfræðiprófessornum John Rock að þróa lyfið Enovid, sem veitti nær fullkomna vörn gegn þungun. Rock og Pincus höfðu árið 1954 gert rannsóknir á áhrifum prógestrónhormónagjafar með þátttöku 50 kvenna í Massachusetts. Vegna strangra laga í fylkinu um getnaðarvarnir varð síðar að færa rannsóknirnar til Púertó Ríkó.[3]
Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum veittu blessun sína við lyfinu árið 1959 og árið 1960 fékkst leyfi til að selja lyfið á almennum markaði. Sanger og félagar hennar litu á þetta sem stórsigur og pillan náði miklum vinsældum á örskömmum tíma. Aðeins tveimur árum eftir að Enovid komst á almennan markað voru 1,2 milljónir bandarískra kvenna komnar með lyfseðil upp á pilluna.[2]
Arfbótastefna
[breyta | breyta frumkóða]Sanger hefur lengi verið gagnrýnd fyrir stuðning sinn við arfbótastefnu, sem naut talsverðs fylgis meðal bandarískra menntamanna á millistríðsárunum. Meðal annars skrifaði Sanger fjölda greina um arfbætur í tímaritið Birth Control Review, sem hún hafði stofnað árið 1917. Svartir Bandaríkjamenn urðu sér í lagi tortryggnir gagnvart Sanger vegna þessa og óttuðust sumir að hún vildi koma getnaðarvörnum í dreifingu til að útrýma kynstofni þeirra.[1] Sumir blökkumenn töldu að dreifing p-pillunnar væri liður í samsæri til að hefta fjölgun svarts fólks í Bandaríkjunum og hvöttu svartar konur til að taka pilluna ekki því blökkufólki yrði að fjölga til þess að breyta pólitísku jafnvægi í Bandaríkjunum.[2]
Dauði
[breyta | breyta frumkóða]Margaret Sanger lést þann 6. september 1966. Árið áður hafði verið leitt í lög að hjónum leyfðist að nota getnaðarvarnir.[1]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 1,7 1,8 Christer Magnusson (1. júní 2013). „Frumkvöðull um kynfræðslu“. Tímarit hjúkrunarfræðinga. bls. 30-32.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 „Fyrst var hún hötuð en í dag er hún daglegt brauð“. Lifandi vísindi. 4. nóvember 2014. Sótt 9. febrúar 2022.
- ↑ Ásgerður Júlíusdóttir (9. apríl 2010). „„Töfrapillan"“. SunnudagsMogginn. bls. 26.