Fara í innihald

Stúdentauppreisnin í París 1968

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Maíuppþotin í París)
Götuvígi í Bordeaux á tíma stúdentauppreisnarinnar 1968.

Stúdentamótmælin eða stúdentauppreisnin eru heiti á hrinu mótmæla og óeirða sem hófust í París í maí árið 1968 og breiddust út til annarra hluta Frakklands. Í daglegu tali eru óeirðirnar gjarnan kenndar við maímánuð 1968 og einfaldlega vísað til þeirra sem „maí '68“ (franska: Mai 68). Óeirðirnar entust í um sjö vikur og einkenndust á þeim tíma af allsherjarverkföllum og yfirtökum stúdenta og verkamanna í háskólum og verksmiðjum. Þegar mótmælin stóðu sem hæst óttuðust ráðamenn í Frakklandi að þau væru byrjun á borgarastyrjöld eða byltingu.

Mótmælin í Frakklandi voru tengd mótmælahreyfingu í fleiri löndum sem var áberandi á árinu 1968. Atburðirnir þetta ár skildu eftir sig djúp spor í franskri menningu og þátttakendur í óeirðunum eru gjarnan kenndir við „68-kynslóðina“.[1]

Aðdragandi

[breyta | breyta frumkóða]

Óeirðirnar í Frakklandi áttu sér alþjóðlegan aðdraganda sem meðal annars fólst í aukinni óánægju ungmenna með ríkjandi samfélagsskipan. Á undanförnum árum höfðu sambærileg mótmæli meðal annars brotist út í Bandaríkjunum, einkum vegna óvinsælda Víetnamstríðsins. Í Evrópu leiddi ástand háskólanna til víðtækari mótmæla. Skólakerfið var víða afar íhaldssamt og byggðist á alræði prófessoranna.[2]

Aðfaranóttina 23. mars 1968 réðust 148 nemendur við heimspekideild Parísarháskóla í Nanterre inn í fundarsal kennara í deildinni til að mótmæla handtöku nokkurra manna sem höfðu verið handteknir vegna mótmælaaðgerða gegn Víetnamstríðinu og lögðu hana undir sig. Nemendurnir kröfðust jafnframt málfrelsis í skólanum og neituðu að yfirgefa salinn fyrr en þeim hefði verið heimilað að halda stjórnmálaumræður í fundarsölum skólans. Skólayfirvöld féllust á þetta og heimiluðu nemendunum eitt fundarkvöld.[3]

Þátttakendur í atvikunum hlutu viðurnefnið „22. mars-hreyfingin“ eða „hinir óðu“ (fr. les enragés). Þeir kröfðust meðal annars aukinnar aðildar stúdenta að stjórn háskólanna, fulls málfrelsis í skólunum og gagnrýndu hlutverk skólana í hinu nýkapítalíska þjóðfélagsskipulagi Frakklands.[4]

Upphaf óeirðanna

[breyta | breyta frumkóða]

Hin eiginlegu uppþot sem kennd eru við maí 1968 hófust í Parísarháskóla í Sorbonne þann 3. maí eftir að deildinni í Nanterre var lokað vegna áframhaldandi átaka þar og lögregluvörður bannaði allan aðgang að henni. Skömmu eftir hádegi þennan dag söfnuðust um 400 stúdentar saman í portinu við Sorbonne til að mótmæla lokun heimspekideildarinnar. Voru sumir þeirra vopnaðir kylfum vegna orðróma um að meðlimir úr hægrisinnuðum nemendasamtökum, „Vestrinu“ (fr. l'Occident), hygðust trufla samkomuna.[5] Jean Roche, rektor háskólans, ákvað síðar um daginn að biðja lögregluna að ryðja skólann.[6] Lögreglan kom á staðinn klukkan fjögur og tilkynnti öllum viðstöddum að þeir væru handteknir. Farið var með flesta mótmælendurna upp á lögreglustöð og þeim sleppt eftir stuttan tíma.[7]

Síðar sama dag kom til átaka milli lögreglu og stúdenta sem voru reiðir vegna handtöku mótmælendanna. Lögregla beitti táragasi gegn stúdentunum, sem köstuðu steinum í lögregluna. Óeirðir dreifðust um allt Latínuhverfið kringum háskólann og entust í um sex klukkustundir. Stúdentarnir voru um 2000 talsins á hápunkti þeirra þennan dag.[8] Daginn eftir var tekin ákvörðun um að loka Parísarháskóla um óákveðinn tíma. Höfðu þá um 600 stúdentar verið handteknir og af þeim hafði 27 verið haldið áfram í fangavist.[9]

Franskir stúdentar í Sorbonne á meðan á hersetunni stóð. Í bakgrunni er mynd af Maó Zedong.

Til frekari átaka kom á milli stúdenta og lögreglu á næstu dögum. Stúdentar héldu mótmælafundi og kröfugöngur þar sem þeir kröfðust þess að háskólinn yrði opnaður á ný, lögreglan hefði sig á brott úr Latínuhverfinu og að þeir sem enn voru í gæsluvarðhaldi yrðu látnir lausir. Smám saman blönduðust inn í málatilbúnað þeirra víðtækari kröfur eins og um samkennd með lágstéttum samfélagsins og gagnrýni á kapítalískt þjóðfélagsskipulag.[10] Þann 6. maí kom til götubardaga milli lögreglu og stúdenta um allt Latínuhverfið þar sem lögregla beitti táragasi, reyksprengjum og vatnsdælum gegn mótmælendunum.[11] Latínuhverfið hafði að mestu verið rýmt af mótmælendum næsta dag en harkaleg framganga lögreglunna hafði þá aukið almenningssamúð með stúdentunum. Meðal annars lýstu ýmis frönsk dagblöð og menntamenn yfir stuðningi við mótmælahreyfinguna, auk þess sem franski kommúnistaflokkurinn, sem áður hafði gert lítið úr hreyfingunni, tók afstöðu með henni.[12]

Þann 7. maí hélt stúdentahreyfingin í mótmælagöngu um Champs-ÉlyséesSigurboganum, þar sem þúsundir manns komu saman og sungu Internasjónalinn. Lögregla hafði veitt leyfi fyrir útifundinum svo lengi sem ekki yrði reynt að fara inn í Latínuhverfið en um kvöldið hélt hreyfingin þangað engu að síður og kom þá aftur til átaka sem entust fram eftir nóttu.[13] Daginn eftir var rætt um kröfur stúdentanna á franska þinginu. Tvö stærstu verkalýðsfélög Frakklands lýstu yfir stuðningi við stúdentanna ásamt hópi menntamanna undir forystu Jean-Paul Sartre. Þann 9. maí var ákveðið að opna háskólann á ný og var þá tilfinning margra að óeirðunum væri lokið.[14]

Hersetur í háskólum og verksmiðjum

[breyta | breyta frumkóða]
Franskir verkamenn í hersetu fyrir framan verksmiðju árið 1968. Fyrir aftan þá er spjald með fyrirsögninni „Verksmiðja hertekin af verkamönnum“ ásamt kröfulista.

Þrátt fyrir að tilkynnt hefði verið um að kennsla hæfist á ný í háskólanum var átökunum ekki lokið. Hætt var við opnun skólans og þeir nemendur sem mættu til náms 10. maí mættu lögregluþjónum og urðu að sýna skilríki til að komast inn í háskólann. Til enn frekari átaka kom á milli mótmælenda og lögreglu þar sem mótmælahreyfingin krafðist opnunar háskólans, brottfarar lögreglu frá Latínuhverfinu og sakaruppgjafar allra sem höfðu verið handteknir í fyrri mótmælunum.

Þann 10. maí reistu stúdentar götuvígi um allt Latínuhverfið en var rutt þaðan eftir götubardaga við lögreglu þar sem um 1.000 manns særðust, þar af 400 lögreglumenn. Stjórnvöld reyndu á næstu dögum að leita sátta við stúdentana en mótmælendur gripu tækifærið og tóku yfir byggingar Parísarháskóla.[1] Stúdentar tóku yfir Sorbonne, aðalbyggingu háskólans, og hófu þar hersetu næstu dagana, auk þess sem þeir héldu kennslu og málfundi um mögulegar þjóðfélagsumbætur sem þeir vildu stefna að.[15]

Þann 14. maí hófst hrina verkfalla í verksmiðjum Frakklands þar sem verkamenn ákváðu að sínu frumkvæði að líkja eftir aðferðum stúdentahreyfingarinnar og „hertaka“ verksmiðjurnar.[16] Nokkuð samráð varð til á milli stúdentanna og verkamannanna, einkum stéttarfélagsins CFDT.[17]

Viðbrögð de Gaulle og kosningar

[breyta | breyta frumkóða]

Óeirðirnar um allt Frakkland leiddu til þess að það hrikti í valdastoðum Charles de Gaulle Frakklandsforseta, sem hafði stýrt Frakklandi undanfarinn áratug. Þann 25. maí hélt de Gaulle sjónvarpsræðu um mótmælin þar sem hann sagði þau sýna fram á að þjóðfélagsbreytinga væri þörf og að þær skyldu felast í aukinni þátttöku manna í stjórn landsins. De Gaulle boðaði til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur sínar sem skyldu fara fram í júní og sagðist myndu segja af sér ef þeim yrði hafnað.[18]

Þann 29. maí hvarf de Gaulle óvænt úr landi og fór á fund franskra hershöfðingja í herstöð í Vestur-Þýskalandi, þar sem hann fullvissaði sig um að hann ætti stuðning franska hersins vísan ef til byltingar eða borgarastyrjaldar kæmi. Daginn eftir sneri hann aftur til Frakklands og flutti sjónvarpsávarp þar sem hann tilkynnti að í stað þjóðaratkvæðagreiðslunnar hygðist hann rjúfa þing og kalla til þingkosninga. De Gaulle varaði við því að í kosningunum myndi valið standa milli gaullisma og kommúnisma og að lýðræði í Frakklandi væri hætta búin.[10] Í kjölfar ávarps de Gaulle skipulögðu gaullistar og franskir hægrimenn vel heppnaða fjöldagöngu upp Champs-Élysées að Sigurboganum þar sem fjöldi fólks sýndi de Gaulle stuðning.[19]

Þingkosningar voru haldnar í tveimur umferðum 23. og 30. júní og í þeim unnu gaullistar stórsigur. Flokkur de Gaulle bætti við sig 97 þingsætum en andstæðingar hans töpuðu 118 sætum, helmingi þeirra sem þeir höfðu haft fyrir.[20] De Gaulle og stuðningsmenn hans túlkuðu sigurinn sem afgerandi traustsyfirlýsingu Frakka á stjórnina og höfnun á boðskap uppreisnarmanna. Eftir sigurinn stokkaði de Gaulle upp stjórn sína, meðal annars með því að skipta út forsætisráðherranum Georges Pompidou fyrir nýjan mann, Maurice Couve de Murville, og fela nýjum menntamálaráðherra, Edgar Faure, að koma til móts við mótmælendur með breytingum á háskólakerfinu.[21]

Eftirmálar og afleiðingar

[breyta | breyta frumkóða]

Þrátt fyrir kosningasigur gaullista urðu frönsk stjórnvöld að koma til móts við kröfur mótmælenda að nokkru leyti. Kennsla í háskólum landsins var gerð frjálslegri, samskipti við kennara urðu persónulegri og skólakerfið varð lýðræðislegra. Einnig voru gerðar ýmsar félagslegar umbætur. Þrátt fyrir þann stuðning sem Charles de Gaulle hafði hlotið í kosningunum neyddist hann til að segja af sér sem forseti Frakklands um ári eftir stúdentamótmælin eftir að hann tapaði í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar.[10]

  • Einar Már Jónsson (2008). Maí 68 : frásögn. Reykjavík: Ormstunga. ISBN 9789979630852.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Leifur Reynisson (20. desember 1998). „Barátta '68-kynslóðarinnar fyrir bættum heimi“. Morgunblaðið. bls. 34-35.
  2. Leifur Reynisson (1. mars 2008). „Forleikur stúdentamótmælanna í París“. mbl.is. Sótt 23. apríl 2024.
  3. Einar Már Jónsson 2008, bls. 19.
  4. Einar Már Jónsson 2008, bls. 20.
  5. Einar Már Jónsson 2008, bls. 23.
  6. Einar Már Jónsson (15. júní 1968). „Bylting í háskólanum“. Þjóðviljinn. bls. 4-5; 7.
  7. Einar Már Jónsson 2008, bls. 24.
  8. Einar Már Jónsson 2008, bls. 25.
  9. Einar Már Jónsson 2008, bls. 27.
  10. 10,0 10,1 10,2 Leifur Reynisson (11. nóvember 2018). „París: maí '68“. Tímarit Máls og menningar. bls. 22-32.
  11. Einar Már Jónsson 2008, bls. 37.
  12. Einar Már Jónsson 2008, bls. 38.
  13. Einar Már Jónsson 2008, bls. 39.
  14. Einar Már Jónsson 2008, bls. 40.
  15. Einar Már Jónsson 2008, bls. 70.
  16. Einar Már Jónsson 2008, bls. 75.
  17. Einar Már Jónsson 2008, bls. 79.
  18. Einar Már Jónsson 2008, bls. 83-84.
  19. Einar Már Jónsson 2008, bls. 91.
  20. Einar Már Jónsson 2008, bls. 98.
  21. Einar Már Jónsson 2008, bls. 100.