Fara í innihald

Málmur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Málmar)
Rauðglóandi málmur.

Málmur í skilningi efnafræðinnar er frumefni, sem myndar auðveldlega jónir (katjónir) og hefur málmtengi. Málmar eru einn þriggja meginflokka frumefna sé flokkað eftir jónunar- og bindieiginleikum, ásamt málmungum og málmleysingjum. Í lotukerfinu skilur skálína sem dregin er frá bóri til pólons á milli málma og málmleysingja. Frumefni á þessari línu eru málmungar, stundum kallaðir hálfmálmar; frumefni neðar til vinstri eru málmar; frumefni ofar til hægri eru málmleysingjar.

Málmleysingjar eru algengari í náttúrunni en málmar þrátt fyrir að málmar séu aðaluppistaða lotukerfisins. Sumir vel þekktir málmar eru ál, blý, gull, járn, kopar, silfur, sink, títan og úran.

Fjölgervingar málma eiga það til að vera gljáandi, þjálir, sveigjanlegir og góðir leiðarar á meðan málmleysingjar (á föstu formi) eru yfirleitt stökkir, skortir gljáa og eru einangrarar.

Efnislegir eiginleikar[breyta | breyta frumkóða]

Málmar hafa ákveðna efnislega eiginleika: þeir eru yfirleitt gljáandi (þeir „ljóma“), hafa háan eðlismassa, eru sveigjanlegir og þjálir, hafa yfirleitt hátt bræðslumark, eru yfirleitt harðir og leiða rafmagn og varma vel.

Þessir eiginleikar eru aðallega vegna þess að atómið hefur aðeins laust tak á ystu rafeindum (gildisrafeindum) sínum; af þessum sökum mynda gildisrafeindirnar eins konar „sjó“ í kringum málmjónin. Flestir málmar eru efnafræðilega stöðugir (óhvarfgjarnir), fyrir utan alkalímálma og jarðalkalímálma, sem finnast lengst til vinstri í lotukerfinu.

Málmblöndur[breyta | breyta frumkóða]

Málmblanda er efnablanda með málmkennda eiginleika sem inniheldur að minnsta kosti eitt málmfrumefni. Dæmi um málmblöndur eru stál (járn og kolefni), látún (kopar og sink), brons (kopar og annars málms einkum tins), harðál (ál og kopar). Málmblöndur eru sérhannaðar fyrir þær aðstæður sem þær eiga að duga við. Blöð þotuhreyfils getur til dæmis innihaldið meira en tíu frumefni.

Málmoxíð[breyta | breyta frumkóða]

Oxíð málma eru basísk; oxíð málmleysingja eru súr.