Luis de Souza

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Luis Emilio de Souza Ferreira Huby (f. 6. október 1908 - d. 29. september 2008) var knattspyrnumaður og verkfræðingur frá Perú. Hann skoraði fyrsta HM-mark þjóðar sinnar í Úrúgvæ 1930.

Ævi og ferill[breyta | breyta frumkóða]

Luis de Souza fæddist í Lima og gekk menntaveginn. Hann innritaðist í verkfræðideild háskólans Universitario de Deportes í heimaborg sinni og hóf árið 1926 að leika fyrir knattspyrnulið íþróttafélags skólans, sem síðar hlaut nafnið Club Universitario de Deportes og er annað tveggja sigursælustu knattspyrnuliða Perú. Hann var í fyrsta kappliði félagsins sem tók þátt í perúsku deildarkeppninni árið 1929 og varð meistari í fyrstu tilraun. Hann átti eftir að bæta öðrum landsmeistaratitl á ferilsskránna árið 1934.

De Souza var valinn í perúska landsliðið sem keppti á HM í Úrúgvæ árið 1930. Hann skoraði jöfnunarmark síns liðs í fyrsta leiknum gegn Rúmeníu en Evrópumennirnir reyndust sterkari eftir að Perú missti mann af velli og leiknum lauk með 3:1 ósgri. Í næsta leik töpuðu Perúmenn fyrir heimamönnum 1:0 og luku þar með keppni.

Árið 1934 sendu Perú og Síle sameiginlegt lið í keppnisför til Evrópu. De Souza var í leikmannahópnum en veiktist illa á leiðinni og mátti líða miklar kvalir þar sem enginn skipslæknir var um borð. Í kjölfarið lagði hann skóna á hilluna aðeins 25 ára að aldri. Hann hélt þó áfram tryggð við gamla félagsliðið sitt, Club Universitario de Deportes og sat í stjórnum þess og kom að hönnunm, byggingu og jafnvel fjármögnun ýmissa íþróttamannvirkja þess. Hann lést rétt um viku fyrir 100 ára afmælisdag sinn árið 2008.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]