Listi yfir morð á Íslandi frá 1874–1969

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Þetta er listi yfir morð á Íslandi frá 1874–1969.

September 1874[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing Morð á nýfæddu barni
Staður
Fórnarlamb Nýfætt barn
Gerandi ~20 ára kona
Dómur 5 ár
Kristbjörg Björnsdóttir (1854–1936) gerðist sek um að hafa orðið ófrísk eftir vinnumann, ógift, og fætt barnið á laun. Hún mun síðan hafa gripið vasahníf (sjálfskeiðung) sem hún notaði til að stinga barnið. Daginn eftir faldi hún látið barnið í mógröf og mokaði ofan á. Ekki kemur fram af hverju, en svo virðist sem Kristbjörg hafi vísað á barnið síðar. Hún var dæmd til 5 ára betrunarhússvinnu.[1]

12. september 1877[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing Morð á nýfæddu barni
Staður
Fórnarlamb
Gerandi ~25 ára kona
Dómur 6 ár
Þorbjörg Jóhannesdóttir (1852–?) hafði fætt barn á laun og ógift. Átti hún barnið úti á túni við bæinn sem hún vann á, aðfararnótt 12. september 1877. Er barnið var fætt, þrýsti Þorbjörg fast á höfuð þess og kramdi áður en hún kastaði barninu í skurð og henti sandi yfir. Barnið fannst ekki en Þorbjörg viðurkenndi verknaðinn og sagði að hún hafði frá byrjun ætlað sér að fyrifara barninu. Þorbjörg var dæmd til 6 ára betrunarhússvinnu í október 1877.[2]

13. september 1891[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing
Staður Norðurland eystra
Fórnarlamb ~33 ára ófrísk kona
Gerandi ~21 árs maður
Dómur Dæmdur til dauða
Guðfinna Jónsdóttir (1858–1891) fannst látin í grynningum í Svartárvatni rétt hjá Svartárkoti á norð-austanverðu Íslandi, þann 16. september 1891. Guðfinna hafði orðið ófrísk eftir mann að nafni Jón Sigurðsson (1870–1893) sem var vinnumaður á Mýri í Bárðardal. Að kvöldi morðsins hafði Jón komið að hitta Guðfinnu, en þá var meðganga hennar um það bil hálfnuð. Eftir að hann fór, bað hún húsmóður sína um að gefa sér fararleyfi þetta kvöld, og fékk hún það. Guðfinna fór og hitti Jón við Svartárvatn og var mjög glöð að sjá hann. Jón, hins vegar, veittist strax að henni, tróð upp í hana vettlingunum sínum og hélt fyrir vit hennar þar til hún var látin. Þá henti hann Guðfinnu í ána og reið aftur til vinnu. Leitað var að Guðfinnu strax daginn eftir en hún fannst ekki fyrr en þremur dögum eftir morðið. Var lík hennar þegar flutt til Svartárkots og grunaði fólk að ekki væri um slys að ræða. Sent var eftir sýslumanninum á Héðinshöfða, sem lagði strax af stað til Svartárkots. Sýslumaðurinn sendi amtmann sinn um leið að sækja héraðslækninn á Akureyri og kom hann að Svartárkoti þann 24. september. Grunur féll strax á Jón Sigurðsson og var ákveðið að hann skildi vera viðstaddur líkskurðinn (krufninguna) á Guðfinnu, sem og hann var, en eftir hana sagði héraðslæknirinn að dánarorsök væri köfnun og því af mannavöldum. Sýslumaðurinn reið til Svartárvatns til að rannsaka vettvang morðsins og fann þar fótspor. Gróf hann það upp og hafði með sér aftur til Svartárkots en þar voru skór Jóns bornir saman við fótsporið. Jón játaði loks morðið og var dæmdur til dauða í október 1891, sem var staðfest af Hæstarétti árið 1893. Var hann sendur til Kaupmannahafnar þar sem aftakan átti að fara fram. Jón framdi hins vegar sjálfsvíg í fangaklefa sínum í Kaupmannahöfn, en þar barði hann höfði sínu af alefli í vegg klefans svo höfuðkúpa hans mölbrotnaði svo, eins og segir í Þjóðviljanum 1893, "heilasletturnar fóru út um allt herbergið." [3]

12. janúar 1893[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing Morð á nýfæddu barni
Staður Þistilfjörður, Norðurlandi eystra
Fórnarlamb Nýfætt barn
Gerandi 29 ára kona, 24 ára maður (systkini)
Dómur 10 ár
Sólborg Salína Jónsdóttir (1864–1893) og Sigurjón Einarsson (1869–?). Hið svokallaða Sólborgarmál kemur fyrir í dómabókum í janúarbyrjun 1893. Hálfsystkinin Sólborg Salína Jónsdóttir 29 ára og Sigurjón Einarsson 24 ára, voru vinnuhjú á Svalbarði í Þistilfirði eru talin að hafa á laun eignast barn og fyrirfarið því. Upphaf Sólborgarmála, síðla hausts 1892 barst að Héðinshöfða bréf til Benedikts sýslumanns. Í þessu bréfi skýrði hreppstjóri frá því, að sá orðrómur væri almennur í sveitinni, að vinnukona á prestssetrinu Svalbarði sem hét Sólborg 29 ára hefði síðari hluta sumars fætt barn í dul og komið því fyrir. Hefðu margir, þóst sjá þess merki, að hún væri vanfær, en síðan hefði henni horfið þykktin. Tilgátur manna væru, að hálfbróðir stúlkunnar Sigurjón, sem einnig var heimilisfastur á Svalbarði, kynni að hafa verið faðir barnsins. Einar Benediktsson sonur sýslumanns tók að kanna málið, varð fljótt ljóst, að samdráttur þeirra hafði lengi verið á allra vitorði, ekki aðeins á Svalbarðsheimilinu, heldur um alla sveitina. Einn dag um haustið bar svo við, að hún lasnaðist og um sama leyti varð heimilisfólk þess vart, að henni hvarf þykktin. Þetta kom eins og reiðarslag yfir Svalbarðsheimilið og alla sveitina. Enginn hafði búist við því, að þau systkinin gripu til hinna verstu óyndisúrræða. Sólborg og bróðir hennar voru ákærð fyrir að hafa borið út barn sitt. Einar Benediktsson, þá nýútskrifaður lögfræðingur var fenginn til að dæma í málinu og það fór ekki betur en svo að annar sakborningurinn í málinu deyr í höndunum á honum. Þar tókst Sólborgu að innbyrða refaeitur og kom Einar að henni í áköfum krampagráti og seinna um nóttina var hún örend. Ljóst er að þessi lífsreynsla lagðist þungt á skáldið og magnaðist myrkfælni hans mjög við atvikið. Að loknu Sólborgarmálinu lét Einar ferja sig yfir Þistilfjörð. Þegar kom að því að innheimta tollinn segir ferjumaðurinn í stríðni: „Ætlið þér ekki að greiða fyrir stúlkuna líka?“ Og án orða tók Einar upp pyngju sína og greiddi fyrir Sólborgu. Hann varð aldrei samur maður eftir. Og þjáðist upp frá þessu af myrkfælni og mátti aldrei einn vera og taldi Sólborgu fylgja sér og ásækja sig í svefni. Hann dó á dánardægri hennar 12. janúar 47 árum síðar. Þann 4. mars 1893 var Sigurjón dæmdur til tíu ára betrunarhússvistar. Ekki er það síst vegna þáttar skáldsins fræga Einars Benediktssonar, og að það kom í hans hlut að dæma í málinu, að grimm örlög hálfsystkinanna Sólborgar og Sigurjóns, á Svalbarði í Þistilfirði undir lok 19. aldar hafa reynst þjóðinni drjúgt umræðuefni í gegnum tíðina, og komið við sögu í mörgum verkum. Útvarpsleikrit var gert um morðið: [4]

3. júní 1893[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing Morð á nýfæddu barni
Staður Egilsstaðir
Fórnarlamb Nýfætt barn
Gerandi ~34 ára kona
Dómur 5 ár
Rannveig Jóelsdóttir (1859–1929), ógift, fæddi sveinbarn í baðstofunni á Egilsstöðum aðfararnótt 3. júní, þar sem annað heimilisfólk svaf einnig. Kæfði hún barnið með því að þrýsta lærum sínum saman utan um það eftir að það fæddist. Vafði hún barnið síðan í handklæði og nærbuxur og geymdi hjá sér til morguns. Um morgunin fór hún í eldhúsið og brenndi þar fylgjuna áður er hún tók barnið með sér að Ölfusá þar sem hún fleygði því út í. Fannst það rúmum mánuði seinna þar sem það hafði rekið í land. Rannveig játaði að hafa deytt barnið af ásetningi. Hún átti tvö önnur börn og er hún komst að því að hún ætti von á því þriðja óttaðist hún að maðurinn sem hún átti hin börnin með myndi reiðast henni, en þriðja barnið gat hún með öðrum manni. Var hún dæmd til 5 ára betrunarhússvinnu.[5]

26. mars 1903[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing Vanhirða barns
Staður Vestur-Skaftafellsýsla, Suðurlandi
Fórnarlamb 10 ára drengur
Gerandi Maður
Dómur 1 ár
Páll Júlíus Pálsson (1893–1903) lést sökum vannæringar og illrar meðferðar í vist sinni í Skaftárdal, Vestur-Skaftafellssýslu. Páll hafði verið tekinn af foreldrum sínum, Páli Hanssyni og Rannveigu Pálínu Pálsdóttur, og honum komið fyrir í vist á Hörgsdal árið 1901. Ári síðar, 1902, á hreppaskilaþingi svokölluðu, var honum ráðstafað í vist hjá Oddi Stígssyni, bónda í Skaftárdal, en sá bauðst til að taka drenginn fyrir aðeins 20 krónur. Faðir hans, Páll Hansson hafði kvartað yfir aðbúð hans, en ekki var tekið mark á honum. Að lokum var þó séra Sveinn Eiríksson í Ásum sendur til Skaftárdals til að athuga með líðan Páls Júlíusar. Séra Sveinn vottaði að drengnum liði vel og að ekkert væri athugavert við aðbúð hans. Heimilið var hinsvegar fátæklegt, en Oddur og kona hans Margrét Eyjólfsdóttir bjuggu í vesturbænum í tvíbýli í Skaftárdal. Í austurbænum bjó maður að nafni Bergur Einarsson. Bergur þessi sagðist hafa vitað til þess að Oddur færi að einhverju leyti illa með drenginn. Um jólin fyrir lát Páls komu foreldrar hans í heimsókn og dvöldu þar tvær nætur. Sagði Páll þeim þá að Oddur væri harður við hann og berði hann oft. Páll hafði breyst mikið í fari og var óttasleginn og fámáll. Faðir Páls fór að berjast fyrir því að drengurinn yrði færður af bænum, en var þeirri beiðni synjað. Eftir áramótin 1902–1903 var Páll kominn með ljót sár á fæturnar og gekk um haltur. Enginn hafði mikil afskipti af því hvernig hann gengi og var hann rekinn áfram. Þó virðist Oddur hafa vitað af sárum hans og þvegið þau einstaka sinnum. Vinnukona á bænum hafði þá heyrt Pál gráta við vinnu í fjósinu en ekki sinnt því neinu. Í mars var Páll orðinn veiklulegur og daufur, magur og tekinn en var þó á fótum eins og hann gat og kvartaði ekki undan neinu. Þó virðist hann hafa látið vita að honum væri illt í maga en enginn veitti því mikla eftirtekt. Eitt kvöld í mars fór Páll inn í ólæst loft þar sem hann vissi að kæfu væri að finna og náði sér í bita. Þegar hann ætlaði að yfirgefa herbergið stóð Oddur fyrir honum og hélt á stórum vendi. Hann hirti Pál fyrir það að hnupla kæfunni. Daginn eftir neitaði Páll að fara til vinnu í fjósinu og dró Oddur hann þá niður stigann og inn í fjósið á eyrnarsneplunum svo á sást. Um kvöldið stal Páll sér aftur matarbita, en það kom strax í ljós daginn eftir. Oddur reif þá utan af Páli fötin og hirti hann á sama stað og áður, þrátt fyrir að holdið væri rautt og fleðrað. Eftir hýðinguna blæddi mjög úr baki Páls. Að morgni 26. mars 1903 átti Páll erfitt með að vakna, og er hann loks vaknaði lagðist hann stuttu síðar aftur til svefns. Síðla morguns fór Páll að kveina og hljóða upp úr svefni þar sem hann lá í baðstofunni, og gekk það áfram án afskipta Odds og konu hans, Margrétar. Loks spurði Margrét hann hvort hann vildi kaffi, en Páll svaraði engu. Andardráttur hans var óreglulegur og fætur hans orðnir kaldir upp að hné. Margrét náði þá í Berg sem kom og sat yfir drengnum með Oddi í um það bil klukkustund. Bergur brá sér þá frá, en stuttu síðar kom Oddur að finna hann og sagði honum að Páll væri látinn. Áverkarnir á líki Páls voru töluverðir; sár voru bak við eyrun, efri vör, gagnauga og á miklum hluta baksins. Þá var hann svo magur að telja mátti rifbein hans úr mikilli fjarlægð og kviðholið var innfallið. Einnig var hann mjög blóðlítill og kinnfiskasoginn. Höfuðlag hans, kjálkar og tennur báru þess þá greinilega merkis að hann hafi haft beinkröm í æsku. Drep var komið í tær beggja fóta, inn að beini svo neglurnar voru lausar, sem og bjúgur í rist og við ökkla. Héraðslæknarnir tveir sem skoðuðu lík Páls krufðu það þó ekki og því þótti dómurum í málinu erfitt að segja til um rétta dánarorsök. Hjónin voru ekki talin hafa myrt Pál af ásetningi og Margrét var sýknuð af ákæru sækjandans. Hins vegar viðurkenndi Oddur að hafa veitt Páli áverkana, sem og að hafa lítið sem ekkert hirt um fótasár hans, og var því dæmdur í 12 mánaða betrunarhúsvinnu fyrir vanhirðu og hafa valdið drengnum heilsutjóni og þjáningum, sem ullu að öllum líkindum dauða hans. Oddur afplánaði sinn dóm, en er hann kom úr fangelsi og var á leið heim til sín, drukknaði hann í Hólmsá í Skaftafellsýslu.[6]

Ágúst 1906[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing Morð á nýfæddu barni
Staður Bíldudalur, Vestfjörðum
Fórnarlamb Nýfætt barn
Gerandi ~24 ára kona
Dómur 4 ár
Jóna Ágústína Jónsdóttir (1882–1960) varð ófrísk eftir giftan mann, bóndann í Hokinsdal þar sem hún átti heima, og einsetti sér að deyða barnið er það fæddist. Barnið kom í heiminn um miðjan ágúst 1906, er Jóna var við vinnu á Bíldudal, en hún settist á það eftir fæðinguna beið uns það var látið. Tók hún þá barnið og fleygði í sjóinn. Fannst það seinna er það rak í land. Hún var dæmd til 4 ára betrunarhússvinnu árið 1907.[7]

6. ágúst 1913[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing Morð á nýfæddu barni
Staður Furufjörður, Vestfjörðum
Fórnarlamb Nýfætt barn
Gerandi ~22 ára kona
Dómur 3 ár
Kristjana Guðmundsdóttir (1891–1964) varð ófrísk eftir stjúpa sinn, Árna Friðrik Jónsson (1880–1958). Hafði hann gifst móður hennar árið 1908, sem var ekkja, en hann og Kristjana áttu síðan í ástarsambandi árið 1912. Barnið fæddi Kristjana í baðstofunni á Furufirði, þar sem hún bjó, án þess að vekja annað heimilisfólk, en barnið fæddist fyrir tímann. Kristjana hafi ákveðið að deyða barnið eftir að það fæddist, en faðir þess vissi ekki af tilvist þess fyrr en síðar. Um morguninn sá móðir Kristjönu barnið og hafði það þá verið stungið til bana með skærum. Lagði hún það í kassa og út í skemmu. Kristjana lét síðan senda eftir ljósmóður sem aðstoðaði hana og þreif barnið. Tók hún eftir stungusárunum og lét sýslumann vita. Sýslumaður rannsakaði dauða barnsins og í kjölfarið var Kristjana ákærð. Játaði hún á sig morðið og var dæmd til 3 ára betrunarhússvinnu.[8]

1. nóvember 1913[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing Byrlaði rottueitur
Staður Reykjavík
Fórnarlamb ~50 ára maður
Gerandi ~47 ára systir hans
Dómur Dæmd til dauða (dómur síðar mildaður)
Júlíana Silfa Jónsdóttir (1866–1931) byrlaði bróður sínum Eyjólfi Jónssyni (1863–1913) rottueitur í skyr og lést hann nokkrum dögum síðar. Júlíana ætlaði sér að ná af honum sparisjóðsbók hans en inni á henni voru nokkur hundruð krónur. Hún játaði glæpinn en sagðist hafa framkvæmt hann að ósk sambýlismanns síns, Jóns Jónssonar, og var hún dæmd til lífláts. Það var síðasti líflátsdómur sem upp var kveðinn á Íslandi. Dómurinn var seinna mildaður.[9]

30. nóvember 1929[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing Þjófur myrðir húseiganda
Staður Reykjavík
Fórnarlamb ~41 árs maður
Gerandi ~19 ára drengur
Dómur 16 ár
Jón Egilsson (1888–1929), framkvæmdastjóri og meðeigandi bílabúðarinnar og -verkstæðisins Sveinn Egilsson og co., fannst myrtur á verkstæðinu á Laugavegi. Látúnsstöng hafði verið notuð til að slá hann í höfuðið sem olli því að höfuðkúpa hans brotnaði. Jón svaf á verkstæðinu eftir að þar hafði verið framið innbrot. Kvöldið sem Jón var myrtur var öllu verðmætu stolið úr peningaskáp fyrirtækisins og miðað við verksummerki var talið að sá sem verkið hafði framið væri kunnugur húsinu. Egill Haukur Hjálmarsson (1910–1990) játaði á sig morðið er lögregla hafði hendur í hári hans næsta dag. Egill sagðist ekki hafa ætlað sér að myrða Jón en eftir að hann hafði lagt hendur á verðmæti og var á leið út vaknaði Jón, svo Egill greip til látúnsstangarinnar og sló hann. Egill var dæmdur til 16 ára fangelsisvistar í svokölluðu typtunarhúsi, en þar voru fangar látnir vinna á daginn og voru í einangrun á næturnar.[10]

26. desember 1945[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing Morð með barefli
Staður Reykjavík
Fórnarlamb ~53 ára maður
Gerandi Ekki vitað
Dómur
Kristján Guðjónsson (1892–1945), prentari hjá Gutenberg, fannst látinn í auðum bragga í gamla Kveldúlfsportinu í Reykjavík, annan í jólum 1945. Ungur maður um tvítugt sá hann liggjandi í blóði sínu og tilkynnti lögreglu fund sinn. Kristján hafði verið barinn með einhverskonar barefli við bæði eyru og einnig fengið högg á munn þar sem mikið blóð var og tennur brotnar. Lögreglan hóf strax rannsókn á málinu og sá að leitað hafði verið að verðmætum á Kristjáni, en hann hafði ekki haft neitt verðmætt meðferðis. Enginn morðingi hefur fundist enn í dag og er málið því óupplýst.[11]

3. maí 1947[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing Maður brýst inn á heimili og veitist með sveðju að tveimur stúlkum
Staður
Fórnarlamb 2 ára stelpa
Gerandi ~37 ára maður
Dómur Ósakhæfur
Að kvöldi 3. maí 1947 réðst Ingólfur Einarsson (1910–1969), járnsmiður, inn í bragga nr. 1 á Háteigsvegi þar sem tvær litlar stúlkur voru fyrir. Móðir þeirra hafði skroppið yfir í næsta hús og var því ekki á svæðinu. Faðir stúlknanna var einnig fjarverandi, en hann var við vinnu. Ingólfur réðst strax á yngri stúlkuna, Kristínu Kjartansdóttur (1945–1947), 2ja ára, og veitti henni mörg stungusár sem hún lést samstundis af. Eldri stúlkan, Sigríður, 8 ára, reyndi að koma systur sinni til bjargar en réðst Ingólfur þá á hana með sveðjunni sem hann hafði meðferðis og veitti henni fjölmarga áverka. Sigríði tókst að komast út úr bragganum og finna móður sína áður en það leið yfir hana. Móðir stúlknanna, Rósa Aðalheiður Georgsdóttir (1919–2009), hljóp strax yfir í braggann, en þar tók Ingólfur á móti henni með sveðjunni og út brutust mikil átök. Tveir drengir, 11 og 12 ára, heyrðu Rósu kalla á hjálp og náðu í föður annars þeirra, Gunnar Guðmundsson, og náði hann í Baldur Einarsson. Saman fóru þeir yfir að bragganum og sáu Ingólf þar inni. Skipuðu þeir Ingólfi að koma út úr bragganum. Ingólfur kastaði sveðjunni frá sér kæruleysislega og gekk út. Gunnar og Baldur tóku hann sín á milli og keyrðu með hann niður á lögreglustöð og afhentu hann lögreglunni. Aðrir menn höfðu einnig komið á vettvang og keyrðu þeir systurnar upp á Landspítala, en Rósa fór með öðrum bíl. Sigríður og Rósa lágu lengi á spítalanum með mikla áverka áður en þeim tókst að jafna sig. Ingólfur hafði dvalið á Kleppi en dvaldi á þessum tíma í skúr nálægt Sjómannaskólanum. Vitað er af því að hann hafi oft hrætt börn fyrir þennan atburð og jafnvel hótað þeim dauða. Ingólfi var gert að sæta geðrannsókn og var að lokum dæmdur ósakhæfur og að sitja öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Móðir stúlknanna, Rósa, stofnaði kærleikssjóð til styrktar Sogni árið 2004 í minningu Kristínar, dóttur sinnar. Hægt er að styrkja sjóðinn með því að leggja inn á reikning 010–18–930084.[12]

18. júní 1952[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing Maður skýtur eiginkonu sína og síðan sjálfan sig
Staður Kópavogur
Fórnarlamb ~47 ára kona
Gerandi ~48 ára eiginmaður hennar
Dómur
Guðmundur Gestsson (1904–1952) og kona hans, Ingibjörg Helgadóttir (1905–1952) fundust látin á heimili sínu í Kópavogi. Hafði Guðmundur skotið Ingibjörgu og síðan framið sjálfsvíg. Voru þau hjón vel þekkt, en Guðmundur hafði verið framkvæmdastjóri ríkisspítalanna. Guðmundur hafði verið veill á geði, hafði dvalið á stofnun í Danmörku, en var á þessum tímapunkti að bíða vistar á geðsjúkrahúsi hér heima. Hjónin voru ein heima er Guðmundur greip til byssunnar. Skildu þau eftir sig tvö börn, 3ja ára stúlku og 17 ára dreng.[13]

26. febrúar 1953[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing Maður eitrar fyrir sér og allri fjölskyldu sinni
Staður Reykjavík
Fórnarlamb ~33 ára kona, ~7 ára drengur, ~5 ára stelpa, ~4 ára stelpa
Gerandi ~35 ára fjölskyldufaðirinn
Dómur
Hulda Karen Magnússon (1920–1953), Magnús Sigurðsson (1946–1953), Sigríður Dúa Sigurðardóttir (1948–1953), Ingibjörg Stefanía Sigurðardóttir (1949–1953) og Sigurður Magnússon (1918–1953) lyfjafræðingur fundust látin á heimili sínu í Reykjavík að morgni 26. febrúar 1953. Sigurður hafði veikst af heilabólgu árið áður og hafði meðal annars dvalið á geðdeild. Hann var farinn að vinna aftur í apóteki en kvartaði um í höfðinu dagana fyrir lát hans. Sigurður hafði byrlað sjálfum sér, konu sinni og þremur börnum þeirra eitur. Hann skildi eftir sig sjálfsvígsbréf þar sem hann sagði að hann hefði ekki getað skilið konu sína og börn eftir, svo hann tók þau með sér. Lágu þau öll í hjónarúminu, hlið við hlið, er þau fundust.[14]

24. mars 1953[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing Líkamsárás á skemmtanalífinu
Staður Keflavík
Fórnarlamb ~63 ára maður
Gerandi ~31 árs bandarískur hermaður, 21 árs maður, 18 ára drengur
Dómur 3 ár
Ólafur Sívertsen Ottesen (1890–1953) fannst nær dauða en lífi í vörubíl við Kirkjuveg í Keflavík. Búið var að breiða ullarteppi yfir Ólaf en hann hafði verið illa barinn í höfuðið. Íbúar við Kirkjuveg fundu hann fyrir tilviljun um hádegi þann 12. mars 1953, en þá hafði Ólafur legið þar síðan um miðja nótt. Hann var rænulítill og gat ekki sagt lögreglu meira en nafn sitt. Í ljós kom þó síðar að Ólafur hafði ætlað sér aftur í samkvæmi á Kirkjuvegi sem hann hafði verið í áður um kvöldið en var meinuð innganga. Þrír menn, bandaríski hermaðurinn Robert Raymond Willits (1922–?), Arnar Semingur Andersen (1935–2017) og Einar Gunnarsson (1932–) neituðu honum um inngöngu og gaf Robert Ólafi kjaftshögg og barði í höfuðið svo Ólafur missti meðvitund. Skildu þeir hann eftir í fiskikari rétt hjá húsinu og héldu áfram gleðskap sínum. Síðar um nóttina sóttu þeir Ólaf og færðu í vörubílinn, en við það rankaði Ólafur við sér og börðu mennirnir hann þá aftur þar til hann rotaðist, en Arnar beitti einnig hníf á háls hans. Síðan breiddu þeir ullarteppi yfir hann og skildu hann eftir í yfirgefnum bílnum og héldu aftur í samkvæmið. Ólafur lést á spítala þann 24. mars, 12 dögum eftir árásina, en hann hafði varla haft rænu allan þann tíma. Dánarorsök var mikill heilahristingur af völdum margra högga á höfuð og lungnabólga í kjölfarið. Einnig kom í ljós að Ólafur hafði brotnað á ökla og annarri öxl við árásina. Mennirnir þrír voru í kjölfarið ákærðir og hlaut Robert 3 ára fangelsisvist, Arnar 2 ár og Einar 3 mánuði.[15]

6. janúar 1957[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing Maður skýtur unnustu sína.
Staður Hveragerði
Fórnarlamb ~20 ára kona
Gerandi ~26 ára unnusti hennar
Dómur 12 ár
Konkordía Jónatansdóttir (1937–1957) var skotin til bana í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Hveragerði. Unnusti hennar, Sigurbjörn Ingi Þorvaldsson (1931–1995), skaut hana með riffli í brjóstið og lést hún litlu síðar. Sigurbjörn játaði verknaðinn en neitaði að hann hafi verið framinn af ásetningi. Vitni segja hann þó hafa fengið riffilinn lánaðan til að skjóta kálf í fjósinu sem hann vann í, og það að eftir að hann hafði hleypt af gekk hann rólegur til herbergis síns. Hann var undir áhrifum áfengis og hafði verið það nokkra daga í röð. Einnig hafði Sigurbjörn reynt að fremja sjálfsvíg nokkru áður. Hann var dæmdur til 12 ára fangelsisvistar þann 19. september 1957.[16]

1. mars 1958[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing Hnífsárás eftir heimiliserjur
Staður
Fórnarlamb ~37 ára kona
Gerandi ~32 ára unnusti hennar
Dómur 16 ár
Guðjón Magnússon Guðlaugsson (1926–2013) veittist að unnustu sinni, Sigríði Sigurgeirsdóttur (1921–1958), eftir rifrildi þeirra á milli og stakk hana þrisvar sem varð henni að bana. Höfðu þau bæði setið að drykkju. Guðjón sýndi engann mótþróa er lögregla handtók hann og játaði hann morðið. Í júlí sama ár var Guðjón dæmdur til 16 ára fangelsisvistar.[17]

30. ágúst 1959[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing
Staður Akranes
Fórnarlamb ~43 ára kona
Gerandi ~44 ára maður
Dómur 16 ár
(Sigríður) Ásta Þórarinsdóttir (1916–1959) fannst látin á elliheimilinu á Akranesi, en hún hafði verið kyrkt. Ásta var vanheil og því hafði hún dvalist á elliheimilinu í nokkur ár þrátt fyrir ungan aldur. Aðfaranótt 30. ágúst var brotist inn á elliheimilið, en rúða í þvottahúsinu hafði verið brotin og maður farið þar inn. Tvær stúlkur sem störfuðu á elliheimilinu voru á svæðinu og urðu þær varar við hávaða sem kom úr herbergi Ástu. Sóttu þær mann í næsta hús til að aðstoða sig. Maðurinn fór inn í herbergi Ástu og sá hana liggja þar líflausa og ungan mann sitja við rúm hennar. Ungi maðurinn, Brynjar Ólafsson (1937–1981), var mjög drukkinn og bað um að sér yrði hjálpað út. Hann var handtekinn síðar um nóttina heima hjá sér, eftir að lögregla hafði verið kölluð til. Brynjar bar við minnisleysi sökum ölvunar og sagði að hann hefði aldrei viljað skaða Ástu. Hann hafði þó oft komið við sögu lögreglu áður sökum ölvunar og eitt sinn sökum líkamsárásar. Fingrafar Brynjars fannst einnig á hálsi Ástu, svo óvéfengjanlegt þótti að hann hafði framið ódæðið. Þetta var í fyrsta skipti sem morð hafði verið framið á Akranesi. Brynjar var dæmdur til 16 ára fangelsisvistar af sakadómi Akraness í mars 1960.[18]

1. október 1961[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing
Staður Reykjavík
Fórnarlamb ~35 ára kona
Gerandi ~35 ára eiginmaður hennar
Dómur 6 ár
Ásbjörg Haraldsdóttir (1926–1961) fannst illa barin á heimili sínu í Reykjavík. Eiginmaður hennar, Húbert Rósmann Morthens (1926–2010) hringdi á sjúkrabíl en Ásbjörg var þegar látin þegar hann bar að garði. Samkvæmt Húberti og kunningjum þeirra hjóna rifust hann og Ásbjörg oft og algengt var að það kæmi til átaka þeirra á milli. Þá hafi Ásbjörg oft slegið mann sinn án tilefnis, en hann einnig lagt hendur á hana svo sá á henni eftir á. Umrætt kvöld höfðu Húbert og Ásbjörg setið í stofu sinni við drykkju. Þau höfðu farið að deila og síðan haft samfarir, minnst tvisvar þessa nótt. Húbert sagði að kona hans hafi í drykkjuvímunni kallað hann með nafni annarra manna í miðjum samförum og það hafi gert hann bálillann. Húbert hafði þá slegið til hennar og barið hana hvívetna þar til hún lá hreyfingarlaus á gólfinu. Hann hafi síðan borið hana inn í hjónarúmið, þá enn með lífsmarki, og sofnað sjálfur. Er hann vaknaði morguninn eftir, sá hann að eitthvað mikið var að og klæddi konu sína og kom börnum þeirra í pössun, áður en hann hringdi á sjúkrabíl. Gekkst Húbert strax við því að hafa banað konu sinni. Sakadómur Reykjavíkur dæmdi Húbert til 7 ára fangelsisvistar, en Hæstiréttur mildaði þann dóm í 6 ár í nóvember 1962. Ölvun og afbrýðisemiskast Húberts komu til refsilækkunar.[19]

22. júní 1963[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing Líkamsárás
Staður Reykjavík
Fórnarlamb ~48 ára maður
Gerandi Óvitað
Dómur
Björn Stefánsson (1915–1963) fannst afar illa haldin eftir fólskulega árás á Hafnarsvæðinu í Reykjavík. Björn hafði verið laminn og svo hafði vítissóda verið hellt yfir hausinn á honum sem að skaðbrenndi 50% af líkama hans, en vítissódi er afar skaðlegt hreinsiefni. Björn lést á spítala nokkrum dögum eftir árásina og þrátt fyrir að komast örlítið til meðvitundar gat hann ekki gert almennilega grein fyrir því hver eða hverjir hefðu ráðist svona að honum og telst mál þetta því óupplýst.[20]

21. desember 1966[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing Maður skýtur kærasta sinnar fyrrverandi og síðan sjálfan sig.
Staður Reykjavík
Fórnarlamb ~37 ára maður
Gerandi ~34 ára Færeyingur
Dómur
Kristján E. Ólafsson (1929–1966) lést af skotsárum á heimili unnustu sinnar í Reykjavík. Unnusta hans var við það að skilja við mann sinn, Færeyinginn Finn Kolbjörn Nielsen (1932–1966), og hugðist giftast Kristjáni. Finn var ósáttur við skilnaðinn og nýjan ráðahag konu sinnar. Þetta kvöld hafði hún lagst til svefns en vaknaði við að Kristján kallaði nafn hennar. Fann hún hann og Finn liggjandi á gólfinu, látna af skotsárum. Hjá þeim lá skammbyssa af gerðinni Ruby, sem hafði stuttu áður horfið úr skáp í skipi sem Finn var háseti á. Í vasa Finn fannst bréf sem stílað var á tengdamóður hans en í því stóð að Finn hafði liðið mjög illa og að eitthvað hræðilegt átti eftir að gerast. Kristján hafði verið skotinn í brjóstið en Finn í höfuðið gegnum munninn. Þótti óvéfengjanlegt að Finn hafði framið verknaðinn.[21]

7. janúar 1967[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing
Staður Reykjavík
Fórnarlamb ~39 ára kona
Gerandi ~39 ára fyrrum eiginmaður hennar
Dómur 16 ár
Hjördís Úlla Vilhelmsdóttir Zebitz (1928–1967) fannst stungin til bana í baðkari á heimili sínu í Reykjavík. Eldri kona á efri hæð hússins hafði hringt á lögregluna eftir að hafa heyrt mikinn skarkala á neðri hæðinni um morguninn. Þegar lögreglan kom á svæðið hitti hún fyrir Þorvald Ara Arason (1928–1996), fyrrum eiginmann Hjördísar og þekktan lögmann, en hann virtist vera drukkinn. Í íbúðinni fundu lögreglumennirnir lík Hjördísar, sem Þorvaldur hafði borið inn á baðherbergi, og vitni sem þar voru fyrir. Vitnin voru frænka Þorvaldar og tvítug dóttir hennar, sem og sex ára gömul dóttir Hjördísar og Þorvaldar. Þarna höfðu þá átt sér stað átök milli Hjördísar og Þorvaldar, en hún neitaði að hleypa honum inn er hann bankaði upp á þá um morguninn. Þorvaldur braut sér leið inn og réðst að Hjördísi með stórum eldhúshníf, skar hana margsinnis og stakk þar til hún lést. Frænka Þorvaldar reyndi að stíga á milli en þá skar Þorvaldur hana á fæti og var hún flutt á sjúkrahús þegar lögreglu bar að garði. Þorvaldur játaði að hafa komið með hnífinn með sér en neitaði að hafa myrt konu sína af yfirlögðu ráði. Hann var dæmdur til 16 ára fangelsisvistar fyrir morðið.[22]

18. janúar 1968[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing Leigubílstjóri skotinn í hnakkann í bifreið sinni
Staður Reykjavík
Fórnarlamb ~43 ára leigubílstjóri
Gerandi Ekki vitað
Dómur
Gunnar Sigurður Tryggvason (1925–1968), leigubílstjóri hjá Hreyfli, var skotinn í hnakkann í bifreið sinni við Laugalæk í Laugarnesi. Rignt hafði nóttina sem morðið átti sér stað og því erfitt fyrir lögreglu að afla sönnunargagna. 32 cal. skothylki fannst á vettvangi, en þau eru notuð í skammbyssur. Skammbyssur eru ólöglegar á Íslandi, en eingöngu lögreglan hafði slíkar byssur undir hendi á þessum tíma. Því er talið líklegt að byssunni og skotunum hafi verið smyglað til landsins. Einnig var annað af tveimur veskjum Gunnars horfið og því hefur þetta að öllum líkindum verið svokallað ránmorð. Morðingi Gunnars fannst aldrei og er málið því enn óupplýst.[23]

9. maí 1968[breyta | breyta frumkóða]

Stutt lýsing
Staður
Fórnarlamb ~43 ára maður
Gerandi ~46 ára fyrrum starfsmaður hans
Dómur 16 ár
Flugrekstrarstjóri Flugfélags Íslands (F.Í.), Jóhann Gíslason (1925–1968), var skotinn fjórum sinnum á heimili sínu svo hann hlaut bana af. Gunnar Viggó Frederiksen (1922–2013), fyrrverandi flugstjóri, hafði brotist inn heima hjá Jóhanni og kom Jóhann til móts við hann til að koma honum út. Þá brutust út átök milli þeirra og Gunnar hleypti fjórum skotum af skammbyssu sinni, sem hann hafði tekið með til að ógna Jóhanni. Gunnar kastaði byssunni frá sér fyrir utan húsið og flúði vettvang. Gunnari hafði nokkru áður verið sagt upp hjá F.Í. sökum agabrots. Gunnar var dæmdur til 16 ára fangelsisvistar.[24]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Rjettvísin gegn Kristbjörgu Björnsdóttur, Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenzkum málum, Bindi I, bls 6 og 75
 2. Rjettvísin gegn Þorbjörgu Jóhannesdóttur, Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenzkum málum, Bindi I, bls 324
 3. Rjettvísin gegn Jóni Sigurðssyni, Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenzkum málum, Bindi IV, bls 184-185, 227-229, 286-290 og 458-459MorðJón Sigurðsson, morðinginn úr Bárðardal
 4. http://podcast.ruv.is/leikrit/S%C3%B3lborgarm%C3%A1l_-_fyrri_%C3%BE%C3%A1ttur.mp3 Geymt 2016-03-05 í Wayback Machine , http://podcast.ruv.is/leikrit/S%C3%B3lborgarm%C3%A1l_-_seinni_%C3%BE%C3%A1ttur.mp3 Geymt 2016-03-05 í Wayback Machine]
 5. Rjettvísin gegn Rannveigu Jóelsdóttur, Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenzkum málum, Bindi IV, bls 421
 6. Réttvísin gegn Oddi Stígssyni og Margréti Eyjólfsdóttur, bls 22-27Þættir úr íslenskri afbrotasögu: Hordauður ómagi með kolbrandskaun, bls 18-20
 7. Rjettvísin gegn Jónu Ágústínu Jónsdóttur, Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenzkum málum, Bindi VII, bls 344
 8. Rjettvísin gegn Árna Friðrik Jónssyni og Kristjönu Guðmundsdóttur, Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenzkum málum, Bindi IX, bls 351
 9. Hæstaréttardómar hæstaréttar árið 1914—1915. - Nr. 450 Hæstaréttarmálaflutningsmaður Dietrichson gegn Júlíönu Silfu Jónsdóttur og Jóni JónssyniMorð í Reykjavík
 10. Hryllilegt morð framið hjer í bænum í fyrrmóttMorð í ReykjavíkDómur í morðmálinu
 11. Maður myrtur í auðum bragga niðri við sjóÓupplýst lögreglumál - Morð á öðrum degi jóla 1945
 12. BLS 1&5, Vitskertur maður myrðir ungabarnÓður maður drepur 2ja ára barn og veitir móður þess og systur mikla áverkaIngólfur Einarsson dæmdur í aukarjettiKærleikssjóður til styrktar Sogni
 13. Hjón Finnast látin af skotsárum á heimili sínuÞekkt hjón fundust látin í íbúð sinni á miðvikudagsmorgun, - bæði af skotsárum
 14. Lyfjafræðingur réð sér, konu sinni og 3 börnum bana á eitri á heimili sínu í Reykjavík í gærHeil fjölskylda, fimm manns, fundin örend á heimili sínu
 15. Maður finnst lemstraður í bíl eftir líkamsárásRáðizt á Ólaf við húsdyrnar um nóttinaÁrásarmennirnir í varðhaldi á nýHæstiréttur dæmir Bandaríkjamann og 2 íslendinga fyrir morðið á Ólafi OttesenBandarísk upprisuhátíð
 16. Ung stúlka skotin til banaSigurbjörn dæmdur
 17. Rannsókn í morðmálinu haldið áframSjómaðurinn sem myrti unnustu sínaMorðinginn dæmdur í 16 ára fangelsi
 18. Ungur maður réði konu bana í ölæði á elliheimilinu á Akranesi um helginaKona myrt á AkranesiSat ölvaður yfir líki konunnar16 ára fangelsisdómur í morðmálinu á Akranesi
 19. Barði konu sína til banaVarð konu sinni að bana í ölæðiDæmdur í 7 ára fangelsiManndráp
 20. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=169819http://www.visir.is/g/2013131129684
 21. MorðFrá ríkisútvarpi ÍslandsHúsaleigan
 22. Kunnur lögfræðingur myrðir fyrrverandi eiginkonu sínaÞorvaldur Ari hafði vopnið meðferðisÞyngstu fangelsisdómar ÍslandssögunnarÞorvaldur Ari fékk 16 ára fangelsi
 23. Líkur á að um ránmorð hafi verið að ræða
 24. Flugstjóri skaut fyrrverandi yfirmann sinn til bana í nóttHlaut 16 ára fangelsi