Fara í innihald

Hámenning

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tilgangurinn með stofnun National Gallery í London var sá að göfga alþýðu manna með myndlist „gömlu meistaranna“ frá endurreisnartímanum og klassíska tímanum.

Hámenning er samheiti yfir þær listgreinar sem njóta sérstakrar viðurkenningar í tilteknum samfélögum. Sögulega séð á þetta við um listgreinar sem tengdust aðli og síðar borgarastétt á Vesturlöndum, andstætt lágmenningu sem tengdist alþýðu manna. Hugtakið endurspeglar að einhverju leyti 17. aldar hugmyndina um hinar fögru listir sem er aðgreind frá nytjalist. Hámenning á þannig við um list sem hefur sérstakt fagurfræðilegt gildi eða felur í sér fagurfræðilegar nýjungar, og krefst íhugunar og menntunar til að njóta. Dæmi um hámenningu eru sígild tónlist, fagurbókmenntir, tilteknar greinar myndlistar og leikhúss, listdans og listrænar kvikmyndir. Neysla hámenningar hefur verið talin merki um góða menntun og góðan smekk og var gjarnan talin aðgreinandi, meðan neysla alþýðumenningar og dægurmenningar var sameinandi. Í mörgum tilvikum hafa ríki reist sérstakar stofnanir með áherslu á hámenningu eins og þjóðleikhús og þjóðlistasöfn. Upprunalegur tilgangur slíkra stofnana var oft á tíðum sá að gefa alþýðu manna færi á að njóta hámenningar sem var talin hafa siðbætandi áhrif.

Skilin milli hámenningar og lágmenningar eru menningarbundin og hafa tekið miklum breytingum í gegnum tíðina. Dæmi um þetta er hvernig vestrænir höfundar á 19. öld skrifuðu um sviðslistir í Asíu og Afríku sem dæmi um alþýðumenningu meðan þar var litið á þær sem hámenningu. Landslagsmálverk hafa verið talin dæmi um bæði hámenningu og lágmenningu eftir því hvaða menningarsamfélag og hvaða tímabil á í hlut. Til er fjöldi dæma um listgreinar sem áður töldust almennt til lágmenningar á Vesturlöndum en teljast nú almennt til hámenningar, eins og ballett, djasstónlist og tilteknar kvikmyndir.