Lech Kaczyński
Lech Kaczyński | |
---|---|
Forseti Póllands | |
Í embætti 23. desember 2005 – 10. apríl 2010 | |
Forsætisráðherra | Kazimierz Marcinkiewicz Jarosław Kaczyński Donald Tusk |
Forveri | Aleksander Kwaśniewski |
Eftirmaður | Bronisław Komorowski (starfandi) |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 18. júní 1949 Varsjá, Póllandi |
Látinn | 10. apríl 2010 (60 ára) Smolensk, Rússlandi |
Þjóðerni | Pólskur |
Stjórnmálaflokkur | Lög og réttlæti (2001–2005) |
Maki | Maria Mackiewicz (g. 1978) |
Börn | 1 |
Háskóli | Háskólinn í Varsjá Háskólinn í Gdańsk |
Undirskrift |
Lech Aleksander Kaczyński (18. júní 1949 – 10. apríl 2010) var forseti Póllands frá 23. desember 2005 til 10. apríl 2010.
Lech Kaczyński stofnaði íhaldssama stjórnmálaflokkinn Lög og réttlæti ásamt tvíburabróður sínum, Jarosław Kaczyński, árið 2001. Bræðurnir höfðu verið virkir í pólskum stjórnmálum frá falli kommúnismans í landinu og höfðu átt lykilþátt í að tryggja sigur Lechs Wałęsa, leiðtoga Samstöðu, í forsetakosningum Póllands árið 1990. Síðar kastaðist hins vegar í kekki milli bræðranna og Wałęsa og árið 2009 kærði Wałęsa Lech Kaczyński fyrir að staðhæfa að hann hefði njósnað fyrir leynilögreglu pólsku kommúnistastjórnarinnar á áttunda áratugnum.[1]
Lech Kaczyński var kjörinn forseti Póllands árið 2005 með 54 prósentum atkvæða gegn 46 prósentum sem Donald Tusk hlaut.[2] Lög og réttlæti unnu sigur í þingkosningum í september sama ár og Jarosław Kaczyński varð því forsætisráðherra Póllands árið 2006. Var þá komin upp sú fordæmalausa staða að forseti og forsætisráðherra landsins væru tvíburabræður.[3] Flokkur bræðranna tapaði hins vegar aukakosningum sem haldnar voru árið 2007 og því varð Lech Kaczyński að skipa keppinaut sinn, Donald Tusk, forsætisráðherra.[4]
Lech Kaczyński lést í flugslysi yfir Smolensk í Rússlandi þann 10. apríl 2010 ásamt eiginkonu sinni og 95 öðrum, sem margir hverjir voru háttsettir í her Póllands. Erindi þeirra til Rússlands var að taka þátt í minningarathöfn vegna fjöldamorða Rússa á pólskum liðsforingjum í Katynskógi í seinni heimsstyrjöldinni.[1]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Kolbeinn Þorsteinsson (12. apríl 2010). „Þjóðarharmur í Póllandi“. Dagblaðið Vísir. bls. 16-17.
- ↑ „Íhaldsmaður og tortrygginn í garð ESB“. Morgunblaðið. 25. október 2005. bls. 18.
- ↑ „Tvíburabræður stjórna í Póllandi“. Morgunblaðið. 9. júlí 2006. bls. 4.
- ↑ Kolbeinn Þorsteinsson (23. október 2007). „Taldi sig eiga sigurinn vísan“. Dagblaðið Vísir. bls. 10-11.
Fyrirrennari: Aleksander Kwaśniewski |
|
Eftirmaður: Bronisław Komorowski (starfandi) |