Fara í innihald

Leópold 3. Belgíukonungur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Leópold 3.)
Skjaldarmerki Sachsen-Coburg-Gotha-ætt Konungur Belgíu
Sachsen-Coburg-Gotha-ætt
Leópold 3. Belgíukonungur
Leópold 3.
Ríkisár 23. febrúar 193417. júlí 1951
SkírnarnafnLéopold Philippe Charles Alberg Meinrad Hubertus Marie Miguel (franska)
Leopold Filips Karel Albert Meinrad Hubertus Maria Miguel (hollenska)
Fæddur3. nóvember 1901
 Brussel, Belgíu
Dáinn25. september 1983 (82 ára)
 Woluwe-Saint-Lambert, Belgíu
GröfÉglise Notre-Dame de Laeken, Brussel
Konungsfjölskyldan
Faðir Albert 1. Belgíukonungur
Móðir Elísabet af Bæjaralandi
EiginkonurÁstríður af Svíþjóð (1926-1935)
Lilian Baels (1941-1983)
BörnJósefína Karlotta, Baldvin, Albert, Alexander, María Kristín, María Esmeralda

Leópold III (3. nóvember 190125. september 1983) var konungur Belgíu frá 1934 til 1951.

Leópold fæddist árið 1901 og var elsti sonur Alberts 1. Belgíukonungs. Eftir fyrri heimsstyrjöldina kvæntist hann sænsku prinsessunni Ástríði og eignaðist síðar með henni þrjú börn.

Leópold varð konungur Belgíu árið 1934 eftir að faðir hans lést í fjallgönguslysi. Árið 1935 missti Leópold stjórn á bíl sínum með þeim afleiðingum að kona hans, Ástríður, hlaut bana af.[1]

Eftir dauða Ástríðar hóf Leópold aukin afskipti af utanríkismálum Belgíu og fékk því m.a. framgengt að Belgía lýsti fyrirfram yfir hlutleysi sínu ef til annarrar styrjaldar skyldi koma.[2] Þegar seinni heimsstyrjöldin braust út var hlutleysi Belgíu hins vegar ekki virt frekar en fyrri daginn og þann 10. maí árið 1940 réðust Þjóðverjar inn í Belgíu. Belgar reyndu að berjast gegn innrásarhernum en voru fljótt yfirbugaðir. Leópold hafði þá tekið við æðstu stjórn hersins og tók hann það að sér að gefast formlega upp fyrir Þjóðverjum.

Ólíkt þjóðhöfðingjum á borð við Vilhelmínu Hollandsdrottningu og Hákon Noregskonung ákvað Leópold að flýja ekki frá Belgíu ásamt ríkisstjórn sinni þegar Belgía var hernumin. Ákvörðun hans um að gefast persónulega upp fyrir innrásarliðinu og dvelja síðan áfram í Belgíu undir hernámi varð mjög umdeild. Forsætisráðherra hans, Hubert Pierlot, taldi konunginn hafa brotið á stjórnarskránni með því að lýsa yfir uppgjöf Belga án samþykkis ríkisstjórnarinnar. Aðrir gagnrýnendur hans töldu einnig að með því að dvelja áfram í Belgíu sem fangi Þjóðverja hefði hann fyrirgert möguleikanum á að veita andspyrnunni í Belgíu forystu. Franski forsætisráðherrann Paul Reynaud sakaði Leópold um að hafa svikið þjóð sína og breskir fjölmiðlar útmáluðu hann sem „svikakonung“ og „konungsrottu“. Belgískir flóttamenn í Frakklandi skildu eftir bréfmiða við fæturna á styttu af Alberti 1. konungi (sem hafði barist við Þjóðverja til loka fyrri heimsstyrjaldarinnar) og kölluðu son hans „óverðugan arftaka“ hans.[3]

Eftir að Þjóðverjar réðust inn í Frakkland var Leópold settur í stofufangelsi í Laeken-höll. Á meðan hann var fangi Þjóðverja ákvað hann að kvænast ástkonu sinni, Lilian Baels. Ákvörðun Leópolds um að kvænast í annað sinn undir þessum kringumstæðum styggði marga þegna hans, sem þótti hann vanvirða minningu Ástríðar með því að kvænast ótiginni konu sem var vænd um að vera höll undir Þjóðverja.[1] Til þess að sefa þjóðina bað Lilian þó um að vera ekki kölluð drottning Belgíu, heldur aðeins prinsessa af Réthy, og að börn þeirra Leópolds yrðu ekki talin með í erfðaröð til belgísku krúnunnar.

Leópold var fluttur til Þýskalands árið 1944 og var þar enn í stofufangelsi þegar her bandamanna frelsaði Belgíu sama ár. Útlagastjórn Pierlots, sem hafði dvalið í London á stríðsárunum, var svo ósátt vegna framkomu hans að hún neitaði að hleypa honum aftur inn í landið nema að belgíska þjóðin samþykkti það sérstaklega í þjóðaratkvæðagreiðslu. Árið 1950 var þjóðaratkvæðagreiðslan haldin og 57% Belga kusu að leyfa konungnum að snúa heim.[1]

Engin sátt ríkti meðal Belga um heimkomu konungsins og Leópold var áfram mjög umdeildur. Afstaða Belga var eftir pólitískum línum, en var einnig mjög margbreytileg eftir landshlutum: Flestir belgískir Flæmingjar studdu heimkomu Leópolds en flestir Vallónar voru á móti henni.[1] Belgískir sósíalistar undir forystu Paul-Henri Spaak voru harðir í andstöðu sinni gegn því að Leópold tæki aftur við völdum og því var óttast að það kynni að leiða til samfélagsóeirða eða jafnvel borgarastyrjaldar að hann gerðist þjóðhöfðingi landsins á ný.[4] Að lokum fór svo að Leópold ákvað að segja af sér þann 17. júlí 1951 og leyfa elsta syni sínum með Ástríði, Baldvin, að taka við konungstigninni í Belgíu. Leópold fékk þó leyfi til að búa áfram í Belgíu og var náinn ráðgjafi sonar síns.[5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Leopold Belgíukonungur“. Tíminn. 26. mars 1950. Sótt 4. mars 2019.
  2. „Leopold III. lýsir yfir algerðu hlutleysi Belgíu“. Nýja dagblaðið. 16. október 1936. Sótt 4. mars 2019.
  3. Ronald Atkin (1990). Pillar of Fire: Dunkirk 1940. Birlinn Limited. bls. 140–141. ISBN 1 84158 078 3.
  4. J. Nyhamar (25. ágúst 1950). „Deilan um Leopold“. Fálkinn. Sótt 4. mars 2019.
  5. La Couronne et la rose, Baudouin et le monde socialiste 1950-1974, Le Cri, Brussels, 2010, ISBN 978-2-87106-537-1.


Fyrirrennari:
Albert 1.
Konungur Belgíu
(23. febrúar 193417. júlí 1951)
Eftirmaður:
Baldvin


  Þessi Belgíugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.