Vilhelmína Hollandsdrottning
Vilhelmína (fullu nafni Wilhelmina Helena Pauline Maria; 31. ágúst 1880 – 28. nóvember 1962) var drottning Hollands frá árinu 1890 þar til hún sagði af sér árið 1948.
Vilhelmína var einkabarn Vilhjálms 3. Hollandskonungs og annarrar eiginkonu hans, Emmu af Waldeck og Pyrmont. Hún varð ríkiserfingi hollensku krúnunnar þegar hún var fjögurra ára eftir að hálfbróðir hennar og frændi höfðu dáið. Hún varð síðan drottning eftir dauða föður síns, þá aðeins tíu ára gömul. Þar sem drottningin var ólögráða gerðist móðir hennar ríkisstjóri fyrir Vilhelmínu þar til hún varð 18 ára. Árið 1901 giftist hún Hinrik hertoga af Mecklenburg-Schwerin og eignaðist með honum dótturina Júlíönu.
Hún ríkti í nærri því 58 ár, lengur en nokkur annar hollenskur einvaldur. Valdatíð hennar spannaði bæði fyrri og seinni heimsstyrjöldina, kreppuna miklu og hrun hollenska nýlenduveldisins. Hennar er helst minnst utan Hollands fyrir hlutverk sitt í seinni heimsstyrjöldinni, þar sem hún sló hollensku andspyrnunni eldmóð í brjóst í hernámi nasista.[1] Vilhelmína flúði Holland þegar Þjóðverjar réðust inn í landið árið 1940 og gerðist leiðtogi útlegðarstjórnar í London. Þar flutti hún fjölda ræða til hollensku andspyrnunnar í gegnum útvarpsstöðina Radio Oranje og kom í veg fyrir að hollenski forsætisráðherrann semdi um frið við Þjóðverja óháð bandamönnum. Í ræðum sínum kallaði Vilhelmína Adolf Hitler „erkióvin mannkynsins“.[2]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ "Wilhelmina of Netherlands Dies" (UPI), The New York Times, 28 November 1962. pp. A1–A39.
- ↑ Reston, James R. "Queen Wilhelmina goes to England,"[óvirkur tengill] The New York Times. 14 May 1940.