Lavrentíj Bería

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Lavrentíj Beríja)
Lavrentíj Bería
Лавре́нтий Бе́рия
ლავრენტი ბერია
Varaforsætisráðherra Sovétríkjanna
Í embætti
5. mars 1953 – 26. júní 1953
ForsætisráðherraGeorgíj Malenkov
ForveriVjatsjeslav Molotov
EftirmaðurLazar Kaganovítsj
Innanríkisráðherra Sovétríkjanna
Í embætti
25. nóvember 1938 – 29. desember 1945
ForveriNíkolaj Jezhov
EftirmaðurSergej Krúglov
Í embætti
5. mars 1953 – 26. júní 1953
ForveriSergej Krúglov
EftirmaðurSergej Krúglov
Persónulegar upplýsingar
Fæddur29. mars 1899
Merkheuli, Georgíu, Rússlandi
Látinn23. desember 1953 (54 ára) Moskvu, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Sovétríkjanna
MakiNina Gegetsjkori
StarfStjórnmálamaður, leynilögreglumaður
Undirskrift

Lavrentíj Pavlovítsj Bería (Лавре́нтий Па́влович Бе́рия á kyrillísku letri; ლავრენტი პავლეს ძე ბერია á georgísku) (29. mars 1899 – 23. desember 1953) var sovéskur stjórnmálamaður, hermarskálkur Sovétríkjanna og lengi formaður leyniþjónustunnar NKVD í stjórnartíð Jósefs Stalín. Hann var útnefndur varaforsætisráðherra árið 1941 og gekk til liðs við miðstjórn sovéska kommúnistaflokksins árið 1946.

Af öllum leynilögreglustjórum Stalíns sat Bería lengst í embætti og naut mestra áhrifa, sérstaklega í og eftir seinni heimsstyrjöldina. Hann stýrði miklum hluta sovéska ríkisins og var í reynd marskálkur Sovétríkjanna sem fór fyrir herdeildum NKVD og njósnaaðgerðum á austurvígstöðvunum í stríðinu. Bería skipulagði einnig byggingu fjölda nýrra Gúlag-vinnubúða og stýrði sérstökum fangabúðum fyrir vísindamenn og vélvirkja.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Bería var Georgíumaður líkt og Stalín. Hann fæddist í þorpinu Merkheili nálægt Sukhum, sem er vinsæll baðstaður við Svartahaf.[1] Hann gekk í kommúnistaflokkinn í Bakú árið 1917, nokkrum mánuðum fyrir rússnesku byltinguna.[1][2] Eftir byltinguna varð Bería foringi í öryggislögreglu Bolsévika í Bakú.[1] Hann gekk síðan til liðs við öryggislögregluna Tsjeka og fór fyrir fjöldaaftökum á mensévikum árið 1922.[1] Sama ár gerðist hann lögreglustjóri í Georgíu.

Árið 1932 varð Bería aðalritari kommúnistadeildar Kákasus.[1] Hann fór um þetta að venja komur sínar til Moskvu og rækta sambönd sín við helstu ráðamenn Sovétríkjanna. Hann var útnefndur í æðsta ráð Sovétríkjanna árið 1937 og varð góðvinur Jósefs Stalín sjálfs.[1]

Hreinsanirnar miklu stóðu sem hæst á þessum tíma en þegar valdhöfum varð ljóst að of langt hefði verið gengið í pólitískum ofsóknum rússnesku leyniþjónustunnar var Bería skipaður innanríkisráðherra og settur yfir leynilögregluna í stað Níkolaj Jezhov, sem var í kjölfarið tekinn af lífi. Eftir að Bería var skipaður í embætti var dregið úr hreinsununum.[1]

Sem yfirforingi rússnesku leynilögreglunnar var það starf Bería að handtaka og fjarlægja andófsmenn og aðra sem valdsmenn Sovétríkjanna höfðu horn í síðu við. Hann hafði einnig umsjón yfir Gúlag-þrælabúðum og lét þrælka bæði pólitíska fanga og þýska og japanska stríðsfanga.

Bería sótti Jaltaráðstefnuna ásamt Stalín, sem kynnti hann fyrir Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseta sem „okkar Himmler“.[3] Eftir stríðið skipulagði Bería yfirtöku kommúnista á ríkisstofnunum Mið- og Austur-Evrópu og kvað í kútinn andspyrnu á nýjum yfirráðasvæðum Sovétmanna. Bería var einnig valinn til að hafa umsjón yfir sovésku kjarnorkuáætluninni. Sovétmönnum tókst að hanna eigin kjarnavopn á aðeins fimm árum, einkum með njósnum um vesturveldin.

Dauði Stalíns og fall Bería[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Stalín fékk hjartaáfall í mars árið 1953 var Bería fljótur að láta alla heyra hvað honum fannst í raun um húsbónda sinn. Er hann stóð við dánarbeði Stalíns úthellti hann sér yfir foringjann og fór öllum illum orðum um hann. Þegar Stalín rumskaði í eitt augnablik flýtti Bería sér að falla á kné og kyssa hönd hans en þegar Stalín féll aftur í dá stóð Bería upp og hrækti á gólfið.[4] Eftir að Stalín lést þann 5. mars gortaði Bería sig af því að hafa drepið hann.[5] Þetta hefur leitt til orðróma um að Bería hafi eitrað fyrir Stalín[6] eða vísvitandi neitað honum um nauðsynlega læknishjálp, en þetta hefur aldrei verið staðfest.

Bería var útnefndur varaforsætisráðherra Sovétríkjanna eftir dauða Stalíns. Hann myndaði í stuttan tíma þremenningabandalag (troika) sem réð yfir Sovétríkjunum ásamt Georgíj Malenkov og Vjatsjeslav Molotov. Seinna sama ár framdi Níkíta Khrústsjov valdarán með aðstoð herafla Georgíj Zhúkov marskálks og lét handtaka Bería fyrir landráð.[2] Hermenn Zhúkovs neyddu liðsmenn NKVD til hlýðni og þann 23. desember 1953 var Bería tekinn af lífi.[7]

Kynferðisafbrot[breyta | breyta frumkóða]

Við réttarhöld Bería árið 1953 var upplýst að Bería hefði gerst sekur um fjölda nauðgana á embættistíð sinni.[8][9] Bería hafði nýtt sér stöðu sína sem foringi leyniþjónustunnar til að þvinga konur til kynmaka við sig. Hann hafði m.a. oft keyrt um götur Moskvu á glæsibíl sínum og valið konur af götunum sem voru síðan handteknar og fluttar á setur hans[10] (sem í dag er sendiráð Túnis í Moskvu). Þar var Bería vanur að nauðga þeim á skrifstofu sinni og gefa þeim síðan blómvönd þegar þær fóru. Ef þær þáðu blómvöndinn var því tekið sem viðurkenningu á að kynlífið hefði farið fram með samþykki þeirra; ef þær afþökkuðu voru þær handteknar. Bería þvingaði konur einnig til kynmaka með því að lofa að frelsa ættingja þeirra úr Gúlaginu, þótt ættingjar þeirra væru í sumum tilvikum þegar látnir.

Meðlimir sovésku ríkisstjórnarinnar vissu af kynferðisbrotum Bería en létu sér fátt um finnast. Sagt er að Stalín hafi eitt sinn frétt af því að dóttir sín væri ein með Bería og hafi strax hringt í hana og sagt henni að hafa sig burt hið snarasta.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 „Meistari lögregluríkisins fallinn“. Morgunblaðið. 11. júlí 1953. Sótt 6. júní 2018.
  2. 2,0 2,1 „Bería sviptur embætti, stefnt fyrir æðsta dómstól og sakaður um þjóðsvik“. Tíminn. 11. júlí 1953. Sótt 6. júní 2018.
  3. Montefiore, Simon Sebag (2005). Stalin: Court of the Red Tsar. Random House. bls. 483.
  4. Simon Sebag-Montefiore (2005). Stalin: Court of the Red Tsar. Random House, bls. 571.
  5. Vladimri Fedorovski, Le fantôme de Staline, Rocher, 2007.
  6. Françoise Thom, Beria : Le Janus du Kremlin, Cerf, 2013, bls. 924.
  7. „Лаврентия Берию в 1953 году расстрелял лично советский маршал“.
  8. Donald Rayfield. Stalin and His Hangmen: The Tyrant and Those Who Killed for Him. Random House, 2005; bls. 466–467
  9. Montefiore, bls. 506
  10. Thaddeus Wittlin, Beria chef de la police secrète, Paris: Nouveau Monde éditions, 2014.