Fara í innihald

Landssamband íslenskra útvegsmanna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá LÍÚ)

Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) eru hagsmunasamtök útvegsmanna á Íslandi og eiga allir meðlimir svæðisbundins útvegsmannafélags, sem er meðlimur í LÍÚ, aðild að félaginu. Félagið er aðildarfélag Samtaka atvinnulífsins og eru því allir meðlimir LÍÚ félagar í Samtökum atvinnulífsins. Um miðbik 20. aldar og allt fram undir lok hennar var íslenskur sjávarútvegur undirstaða íslensks atvinnulífs. Þá var það hlutverk LÍÚ að vera samningsaðili fyrir hönd þeirra sem gerðu út veiðibáta, bæði til sjómanna sem og stjórnvalda. Þótt sjávarútvegur sé ekki jafn mikilvægur og það var áður fyrr er LÍÚ enn mikilvæg samtök.

LÍÚ var stofnað af 50 útgerðarmönnum á fundi í Reykjavík þann 17. janúar 1939. Alþingismennirnir Jóhann Þ. Jósefsson og Sigurður Kristjánsson og útgerðarmaðurinn Elías Þorsteinsson frá Keflavík höfðu verið fengnir til þess að undirbúa stofnunina. Áður var búið að stofna Útvegsbændafélag Vestmannaeyja og Félag íslenskra botnvörpuskipaeigenda. LÍÚ var stofnað svo að hagsmunum útgerðarmanna um land allt gæti verið gætt af einu og sama félaginu.

Árið 1944 kom upp hagsmunadeila milli þeirra útgerðarmanna sem gerðu út togara annars vegar og smábáta hins vegar. Þá var sambandinu skipti í tvær deildir eftir þessu. Haustið 1945 var innkaupadeild LÍÚ sem hafði því hlutverki að gegna að útvega aðildarfélögum veiðarfæri sem erfitt var að nálgast á meðan seinni heimsstyrjöldin geysaði. Innkaupsdeildin var rekin allt til 1993 þegar hún var lögð niður vegna mikillar samkeppni. Á tímabilinu 1944 til 1960 voru mikil samskipti milli LÍÚ og íslenskra stjórnvalda. Það var vegna þess að íslenska krónan var rangt skráð og því þurfti uppbóta- og millifærslukerfi til þess að jafna dæmið. Viðreisnarstjórnin afnam þetta fyrirkomulag með því að skrá raunvirði krónunnar frá og með 1960.

Árið 1961 var Verðlagsráð sjávarútvegsins stofnað því samningar höfðu tekist árið áður um að sjómenn fengju til sín hluta af aflaverðmæti og annar kostnaður við útgerð sem áður hafði lent á þeim felldur niður. Í ráðið voru skipaðir aðilar frá útgerðarmönnum, sjómönnum og fiskverkurum auk þess sem ríkið kom einum að. Þetta fyrirkomulag var lagt af 1992.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Heimasíða LÍÚ“. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. febrúar 2009. Sótt 6. september 2009.