Samtök ferðaþjónustunnar
Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) eru hagsmunasamtök fyrirtækja sem starfa við ferðaþjónustu á Íslandi. Samtökin voru stofnuð 11. nóvember 1998. Samtökin voru byggð á grunni Sambands veitinga- og gistihúsa og lögðu önnur hagsmunasamtök sem störfuðu innan ferðaþjónustunnar niður starfsemi sína á sama tíma. Meginhlutverk SAF er að gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna sinna, vinna að því að fyrirtækin búi við starfsskilyrði sem gera þau samkeppnishæf á alþjóðamarkaði og vinna að vexti og viðgangi greinarinnar með öllum tiltækum ráðum. Nánari upplýsingar um tilgang samtakanna er að finna í lögum SAF sem auðvelt er að finna á heimasíðu þessari. Í dag er fjöldi fyrirtækja í SAF. Það eru flugfélög, ferðaskrifstofur, gististaðir, veitingahús, bílaleigur, hópbifreiðafyrirtæki, afþreyingarfyrirtæki svo og önnur fyrirtæki sem telja sig til ferðaþjónustufyrirtækja.
SAF starfa með öðrum hagsmunasamtökum og eru þau ein af 8 aðildarsamtökum Samtaka atvinnulífsins sem stofnuð voru 15. september 1999 með samruna Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambandsins. Með stofnun SAF talar ferðaþjónustan einni röddu gagnvart stjórnvöldum, fjölmiðlum svo og öðrum sem ferðaþjónustufyrirtæki skipta við og er stefna SAF í hinum ýmsum málum unnin á vegum stjórnar og nefnda, en innan samtakanna starfa 7 fagnefndir. Þar að auki starfa þverfaglegar nefndir s.s. umhverfisnefnd, nethópur svo og fleiri nefndir sem sinna sérstökum verkefnum. Aðalfundur SAF hefur æðsta vald í málefnum samtakanna en 7 manna stjórn stýrir málum milli aðalfunda. SAF er umsagnaraðili um lagafrumvörp og reglugerðartillögur og eiga samtökin fulltrúa í fjölmörgum nefndum, stjórnum og ráðum bæði á vegum opinberra aðila og annarra. Á þann hátt hafa samtökin áhrif á starfsumhverfi fyrirtækjanna.[1].
SAF á aðild að Samtökum atvinnulífsins.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Hvað er SAF?“. Sótt 26. janúar 2010.