Fara í innihald

Samtök rafverktaka

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Samtök rafverktaka, skammstöfuð SART, eru hagsmunasamtök íslenskra atvinnurekenda á sviði rafiðna. Þau voru stofnuð árið 1949 undir nafninu Landssamband íslenskra rafvirkjameistara. Samtökin eru aðili að Samtökum iðnaðarins og eru aðalviðsemjandi Rafiðnaðarsambands Íslands.

Aðildarfélög

[breyta | breyta frumkóða]

Átta aðildarfélög standa að Samtökum rafverktaka, þar af eru sjö landshlutafélög: Félag löggiltra rafverktaka (sem starfar á höfuðborgarsvæðinu), Félag rafverktaka á Vesturlandi, Félag rafverktaka á Vestfjörðum, Félag rafverktaka á Norðurlandi, Félag rafverktaka á Austurlandi, Félag rafverktaka á Suðurlandi og Rafverktakafélag Suðurnesja. Að auki er Félag raftæknifyrirtækja (áður Meistarafélag rafeindavirkja) aðili að samtökunum.[1]

Elsta félag atvinnurekenda í rafiðnum er Félag löggiltra rafverktaka, sem stofnað var 29. mars 1927 og nefndist þá Félag löggiltra rafvirkjameistara í Reykjavík. Þá voru í Reykjavík fimm rafvirkjameistarar. Töldu þeir að markaðurinn væri fullmettaður og var stofnun félagsins öðrum þræði viðbragð við því. Starfsvettvangur félagsins var í fyrstu bundinn við Reykjavík eins og nafnið gaf til kynna.

Þann 31. mars 1949 var stofnfundur Landssamband íslenskra rafvirkjameistara haldinn í húsi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur við Vonarstræti. Daginn eftir var fyrsti formaður hins nýja sambands kjörinn, Jón Sveinsson. Segja má að í fyrstu hafi megintilgangur sambandsins verið að halda utan um rafvirkjameistara utan Reykjavíkur.

Félag rafvirkjameistara á Akureyri gekk í sambandið árið 1955 og var í kjölfarið ákveðið að opna skrifstofu í Reykjavík. Um 1970 voru svo skipulega stofnuð héraðsfélög fyrir allt landið sem gengu með tímanum í sambandið. Nafni sambandsins var breytt árið 1967 í Landssamband íslenskra rafverktaka. Enn var nafninu breytt árið 1999, þá í Samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði, skammstafað SART og árið 2010 varð nafnið: SART - Samtök rafverktaka.

Þann 1. janúar 2012 urðu Samtök rafverktaka aðilar að Samtökum iðnaðarins.[2]

Á sjöunda áratugnum gáfu Samtök rafverktaka út tímaritið Rafvirkjameistarann. Frá 1970 til 1993 nefndist málgagn samtakanna LÍR-fréttir en blaðaútgáfa lagðist að mestu af eftir að samtökin komu sér upp heimasíðu.

Árið 2019 kom út veglegt 70 ára afmælisrit samtakanna.

Samtök rafverktaka hafa frá 1979 farið með umboð aðildarfélaga sinna í kjarasamningum við Rafiðnaðarsamband Íslands og innan Samtaka atvinnulífsins, auk þess að skipa fulltrúa í stjórnir lífeyrissjóða.

Árið 1962 hófu samtökin innflutning á raflagnaefni, ljósaperum o.fl. og sinntu því um áratuga skeið, en innflutningshöft og skortur á aðföngum var ein ástæðan fyrir stofnun samtakanna í upphafi.

Löggildingarmál, öryggis- og starfsleyfismál eru einnig veigamikil viðfangsefni. Hafa samtökin komið að ýmsum verkefnum á sviði öryggismála í samstarfi við aðra hagsmunaaðila og opinberar stofnanir.

Árið 1974 náðu samtökin og Rafiðnaðarsambandið samkomulagi um stofnun endurmenntunar. Starfsemi þessi var rekin undir merkjum Fræðsluskirfstofu rafiðnaðarins og Rafiðnaðarskólans, sem síðar sameinuðust undir heitinu Rafmennt. Eins hafa Samtök rafverktaka átt fulltrúa í sveinsprófsnefndum í rafiðnaði.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Vefsíða SART: aðildarfélög, skoðað 9. nóv. 2020“.
  2. „SART - Samtök rafverktaka. 70 ára afmælisrit, Reykjavík 2019“ (PDF).