Kvennafræðarinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Blaðsíða úr Kvennafræðaranum.

Kvennafræðarinn er bók um matreiðslu, hússtjórn og fleira eftir Elínu Briem, skólastýru Kvennaskólans á Ytri-Ey á Skagaströnd og stofnanda Hússtjórnarskóla Reykjavíkur. Bókin var ein fyrsta íslenska matreiðslubókin og hafði mikil áhrif á íslenska matargerð.

Þegar Elín Briem réðist í að skrifa bók sína seint á 9. áratug 19. aldar var engin matreiðslubók tiltæk á íslensku þótt tvær bækur hefðu raunar komið út áður, Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur eftir Mörtu Maríu Stephensen (en í rauninni líklega að mestu eftir Magnús Stephensen mág hennar) árið 1800 og Ný matreiðslubók ásamt ávísun um litun, þvott o.fl. eftir Þóru Andreu Nikólínu Jónsdóttur, sem út kom 1858. Hvorug náði mikilli útbreiðslu svo að einu matreiðslubækurnar sem íslenskar húsmæður áttu kost á voru danskar, svo sem matreiðslubók maddömu Mangor, sem var mikið notuð hér á landi en miðaðist við danskar aðstæður.

Elín stýrði skólanum á Ytri-Ey 1883-1895 og hefur við gerð bókarinnar án efa nýtt sér efni sem hún hefur útbúið til kennslu í skólanum auk þess sem hún hefur viðað að sér í húsmæðrakennaranámi sínu í Kaupmannahöfn á árunum 1881-1883. Um þrír fjórðu bókarinnar er mataruppskriftir en einnig er fjallað um næringu og heilsu, hreinlæti og þrif, þvotta og fleira. Kvennafræðarinn kom út um áramótin 1888-1889 og náði strax miklum vinsældum seldist strax í 3000 eintökum og var endurprentuð fjórum sinnum, síðast 1911. Bókin hafði veruleg áhrif á íslenska matargerð og einnig á hússtjórn, hreinlæti og margt annað.

Ef spurt væri að því bvaða bók íslensk hafi átt mestan þátt í að bæta lifnaðarhætti og heimilisstjórn Íslendinga, yrði svarið ótvírætt: Kvennafræðarinn. Ef húsmæður þær, er nú eru orðnar rosknar, og eigi áttu í uppvextinum kost á hússtjórnarfræðslu, væru spurðar að því, af hverjum þær hefðu auðgast mest að hagkvæmri þekkingu, mundu þær svara: Af Kvennafræðaranum hennar Elínar Briem. Og það er ekki ofsagt þótt sagt sé, að engin íslensk bók hefir valdið jafn mikilli og hollri breytingu á heimilunum, aukið hreinlæti, kennt hagsýni og gjört viðurværi manna fjölbreyttara, en þessi, ég vil segja, sígilda íslenska matreiðslubók. Matreiðslubók er ekki algjörlega réttnefni, því að Kvennafræðarinn fjallar um margt fleira en matreiðslu, um öll heimilisstörf, og er sanni nær að segja, að af Kvennafræðaranum geti hver meðalgreind kona lært flest það, er að hússtjórn lítur.
 
— Tímaritið 19. júní.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  • „Frú Elín Briem Jónsson 70 ára. 19. júní, 9. tbl. 1926“.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]