Þóra Andrea Nikólína Jónsdóttir
Þóra Andrea Nikólína Jónsdóttir (1813 – 1861) eða Þ.A.N. Jónsdóttir var íslensk húsmóðir og matreiðslubókarhöfundur á 19. öld og var einna fyrst íslenskra kvenna til að senda frá sér bók.
Þóra var fædd í Danmörku, dóttir séra Jóns Jónssonar helsingja, sonar séra Jóns Jónssonar lærða í Möðrufelli. Jón helsingi átti danska konu, Helenu Jóhönnu Andrésdóttur Olsen, og hétu öll börn þeirra þremur nöfnum, sem var mjög fátítt á þeim árum. Fjölskyldan flutti til Íslands 1824 og settist að í Möðrufelli, þar sem Þóra ólst upp. Hún giftist Indriða Þorsteinssyni gullsmið og bjuggu þau í Indriðahúsi á Akureyri.
Árið 1858 gaf Þóra út bók sína, sem heitir Ný matreiðslubók ásamt ávísun um litun, þvott o.fl. og er skráð samin af Þ.A.N. Jónsdóttur. Bókin er 244 blaðsíður og hefur að geyma fjölda mataruppskrifta. Margar þeirra eru þýddar úr erlendum bókum, oftast dönskum, en Þóra hefur lagt sig fram um að finna íslensk heiti á hráefni og rétti og smíða þau þar sem þau voru ekki til þótt mörg hafi ekki náð fótfestu. Hún notar til dæmis orðið vöðlubjúga um rúllupylsu og ragout og frikasse þýðir hún sem lystarspað og spaðmusl.
Hún leggur líka áherslu á hreinlæti við matargerðina, sem stundum var ábótavant á þessum tíma, enda aðstæður slæmar, og segir: „Það er ekki nóg að katlar og pottar og annað þess konar skíni eins og sól í heiði á búrshillunni, ef þeir eru eins og farðakoppar að innan. Það er heldur ekki nóg að eldhús, eða búrsborðið sje eins og hvítt traf, ef allt annað sem því er skylt, er ekki eins umleikið. En því er miður, að þetta brennur víða við, og öllum er það í augum uppi, hvernig maturinn muni vera, þar sem svo er háttað.“
Þess má geta að bók Þóru var önnur í röð prentaðra íslenskra matreiðslubóka. Sú fyrsta var Einfalt matreiðslukver fyrir heldri manna húsfreyjur sem kom út árið 1800 eftir Mörtu Maríu Stephensen. Ekki er þó fullljóst hvort hún er í raun höfundur kversins og því má vel segja að bók Þóru hafi verið ein sú fyrsta sem út kom eftir íslenska konu.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Hallgerður Gísladóttir (1999). Íslensk matarhefð. Mál og menning, Reykjavík.
- „Íslenskt mál. Morgunblaðið, 1. ágúst 1987“.