Fara í innihald

Skagaströnd (sveit)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Skagaströnd er byggðarlag á vesturströnd Skagans á Norðurlandi. Upphaflega var nafnið eingöngu haft um ströndina og byggðina á henni en verslunarstaðurinn undir Spákonufelli kallaðist Höfði eða Höfðakaupstaður. Danskir kaupmenn sem þar versluðu fóru að kalla kaupstaðinn Skagestrand og fesist það smám saman við verslunarstaðinn og síðar kauptúnið sem þar reis. Þegar nú er talað um Skagaströnd er oftar en ekki átt við þéttbýlið þótt sveitin hafi enn sama nafn.

Skagaströnd liggur norðan við Refasveit og eru mörkin milli byggðanna um Laxá. Ströndin er aðeins talin ná út undir Króksbjarg; bæirnir þar fyrir norðan eru sagðir vera á Skaga. Ströndin er fremur láglend, einkum norðan til, en fjöllin hækka þegar sunnar dregur og þar ber mest á Spákonufelli fyrir ofan kauptúnið. Upphaflega var öll Skagaströnd í Vindhælishreppi en árið 1939 var honum skipt í þrennt. Ytri hluti strandarinnar ásamt bæjunum yst á Skaga varð þá Skagahreppur, miðhlutinn (kauptúnið og næsta nágrenni) varð Höfðahreppur en syðri hlutinn hét áfram Vindhælishreppur. Árið 2002 sameinuðust Vindhælishreppur og Skagahreppur á ný undir nafninu Skagabyggð en Höfðahreppur, sem nú heitir Sveitarfélagið Skagaströnd, klýfur Skagabyggð í miðju.

Á Skagaströnd voru áður tvö prestaköll, Höskuldsstaðaprestakall og Hofsprestakall. Enn eru kirkjur á Höskuldsstöðum og Hofi en ströndin og þorpið eru nú eitt prestakall, Skagastrandarprestakall. Einnig var kirkja á Spákonufelli en hún var lögð af þegar Hólaneskirkja á Skagaströnd var byggð 1928.