Kristinn E. Andrésson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kristinn Eyjólfur Andrésson um 1951.

Kristinn Eyjólfur Andrésson, (fæddur 12. júní 1901 – látinn 21. ágúst 1973), var bókaútgefandi, bókmenntafræðingur og alþingismaður. Hann var mikill áhrifamaður í pólitík og menningarlífi og einn helsti áhrifamaður í bókmenntum á Íslandi um langt skeið.

Fjölskylda[breyta | breyta frumkóða]

Kristinn var fæddur á Helgustöðum í Reyðarfirði og voru foreldrar hans Andrés Runólfsson bóndi og María Elísabet Níelsdóttir Beck. Maki Kristinns var Þóra Vigfúsdóttir. Þóra var áhrifakona í kvennabaráttu og saman unnu þau hjónin ötullega að uppbyggingu kommúnisma á Íslandi.

Menntun[breyta | breyta frumkóða]

Kristinn tók stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1922. Hann lauk mag. art. prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1928. Stundaði síðan framhaldsnám í þýskum bókmenntum í Kiel, Berlín og Leipzig 1929–1931.

Störf[breyta | breyta frumkóða]

Kristinn var kennari við Alþýðuskólann á Hvítárbakka 1927–1929. Um skeið íslenskukennari við Kvennaskólann og Iðnskólann í Reykjavík. Bókavörður við Landsbókasafnið 1931–1932, starfaði síðan við ritstörf og bókaútgáfu til æviloka.

Kristinn stofnaði ásamt Ragnari Jónssyni í Smára bókaútgáfuna Heimskringlu árið 1934 og stóð Heimskringla að stofnun Máls og menningar árið 1937 ásamt Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda. Kristinn var framkvæmdastjóri Heimskringlu frá stofnun hennar 1934 og hann varð síðan einnig framkvæmdarstjóri Máls og menningar frá stofnun þess 1937 fram til 1971. Hann var ritstjóri tímaritsins Sovétvinurinn frá 1933 til 1936, og tímaritsins Rauðir pennar frá 1935 til 1939 og bókmenntatímaritsins Tímarit Máls og menningar frá 1940 fram til 1971. Kristinn var einnig ritsjóri Þjóðviljans 1946 - 1947.

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Kristinn gerðist róttækur þegar á námsárum og hélt fast við þær grundvallarskoðanir alla ævi. Hann vék aldrei frá stuðningi við uppbyggingu sósíalismans i Sovétríkjunum og aðdáun á Jósef Stalín [1]

Árið 1932 var Sovétvinafélag Íslands stofnað í þeim tilgangi að halda uppi kynningu og menningarlegu sambandi við Ráðstjórnarríkin undir forystu Kristinns. Hélt félagið úti tímariti og gaf meðal ananrs út tvær ferðabækur frá Sovétríkjunum, "Í austurvegi" eftir Halldór Kiljan Laxness og "Rauðu hættuna" eftir Þórberg Þórðarson. Félagið hætti störfum 1938.

Félagið MÍR, Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, voru stofnuð 1950 og var Kristinn aðalforgöngumaður um stofnun félagsins og var formaður 1968 - 1972.

Kristinn hafði all tíð náið samband við forystumenn kommúnistaflokka Sovétríkjanna og Austur-Þýskalands og dvaldi hann og Þóra kona hans langdvölum þar. Kristinn gaf einnig reglulega skýrslur til sendiherra Sovét á Íslandi um stjórnmál og menningarmál. Samkvæmt skjölum í Moskvu virðist hann ásamt Einari Olgeirssyni hafa einir tekið á móti því fé som veitt var þaðan til hreyfingar vinstri sósíalista og kommúnista á Íslandi. [2].

Miðstjórn Kommúnistaflokks Sovétríkjanna samþykkti í júlí 1971 að veita Kristni sérstakan lífeyri fyrir dygga þjónustu í nær fjörutíu ár. Kristinn var einnig sæmdur hátíðarorðu Sovétríkjanna á aldarafmæli Vladímírs I. Leníns 1969.[3]

Kristinn var landskjörinn alþingismaður 1942–1946 fyrir Sameiningarflokk alþýðu — Sósíalistaflokkurinn og varaþingmaður nóvember–desember 1950 [4].

Kynferðisbrot[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2021 stigu tvær konur fram og lýstu því hverning Kristinn hafi áreitt þær með grófum hætti þegar þær voru níu ára gamlar. [5], [6]

Ritstörf[breyta | breyta frumkóða]

 • Íslenskar nútímabókmenntir 1918 til 1948. Mál og Menning (1949)
 • Eyjan hvíta, Ritgerðasafn. Heimskringla (1951)
 • Isländische Erzähler ritstjóri ásamt Bruno Kress. Aufbau-Verlag, (1963)
 • Enginn er eyland Mál og Menning, (1971)
 • Ný augu, Bókaútgáfan Þjóðsaga. (1973)

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Rósa Magnúsdóttir. „Kristinn og Þóra: Rauðir þræðir.“ ( Mál og menning, 2021)
 2. Hannes H. Gissurarson. Íslenskir kommúnistar 1918-1998. Almenna Bókafélagið, 2011
 3. Rósa Magnúsdóttir: Living Socialism: An Icelandic Couple and the Fluidity between Paid Work, Voluntary Work, and Leisure. In: WerkstattGeschichte. Heft 79, 2019, S. 29–41 (pdf).
 4. https://www.althingi.is/altext/cv/is/?nfaerslunr=384
 5. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/11/09/segir_kristin_e_hafa_misnotad_sig_kynferdislega/
 6. https://www.mbl.is/mogginn/bladid/innskraning/?redirect=%2Fmogginn%2Fbladid%2Fgrein%2F1794842%2F%3Ft%3D736519659&page_name=grein&grein_id=1794842