Félag byltingarsinnaðra rithöfunda
Félag byltingarsinnaðra rithöfunda var íslenskt bókmenntafélag stofnað á Hótel Borg 3. október 1933. Helsti hvatamaður að stofnun félagsins var Kristinn E. Andrésson en aðrir stofnendur voru meðal annars Halldór Stefánsson, Steinn Steinarr, Gunnar Benediktsson, Jóhannes úr Kötlum, Stefán Jónsson og Ásgeir Jónsson. Síðar gengu Halldór Laxness, Vilhjálmur frá Skáholti og Guðmundur Daníelsson í félagið. Félagið gaf út tímaritið Rauða penna frá 1935. Sú bókmenntastefna sem félagið hélt á lofti framan af var félagslegt raunsæi og það var andsnúið módernismanum sem fram kom í ljóðlist stuttu síðar. Félagið var aðili að Alþjóðasambandi byltingarsinnaðra rithöfunda, en þegar sambandið hvatti aðildarfélög sín árið 1935 til að leggja sig sjálf niður og taka þátt í samfylkingu með borgaralegu öflunum skirrðist íslenska félagið við því. Kristinn tók þátt í stofnun bókaútgáfunnar Heimskringlu og félagið var stofnaðili að Máli og menningu 1937. Mál og menning óx hratt fyrstu árin en aftur á móti dró úr áhuga á félagslega raunsæinu. Árið 1943, ári eftir stofnun Rithöfundafélags Íslands, ákvað Félag byltingarsinnaðra rithöfunda að leggja sjálft sig niður. Segja má að félagið hafi náð yfirhöndinni í Rithöfundafélaginu þegar Halldór Stefánsson var kjörinn formaður þess árið 1945. Það leiddi til klofnings innan félagsins og stofnunar Félags íslenskra rithöfunda.