Katrín Fjeldsted
Katrín Fjeldsted (fædd 6. nóvember 1946) er stjórnmálamaður og heimilislæknir.
Foreldrar hennar eru Jórunn Viðar (1918- 2017) tónskáld og Lárus Fjeldsted (1918-1985) forstjóri. Katrín var gift Valgarði Egilssyni (1940-2018) og eignuðust þau fjögur börn saman; Jórunni Viðar (f. 1969), Einar Véstein (f. 1973; d. 1979), Véstein (f. 1980) og Einar Stein (f. 1984). Katrín lauk stúdentsprófi frá MR árið 1966 og kandidatspróf frá læknadeild HÍ árið 1973. Hún hélt síðan áfram í sérfræðinámi til heimilislækninga í Bretlandi og lauk því 1979.
Katrín hefur meðal annars verið borgarfulltrúi, í borgarráði, formaður heilbrigðisráðs, formaður heilbrigðisnefndar, varaformaður umhverfisnefndar og umhverfismálaráðs, í stjórn Sorpu, á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og fleira.
Katrín sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn kjörtímabilið 1999-2003 auk þess sem hún hefur setið í landbúnaðarnefnd, iðnaðarnefnd, félagsmálanefnd, umhverfisnefnd, heilbrigðis- og trygginganefnd og allsherjarnefnd. Kjörtímabilið 2003-2007 var hún 2. varaþingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður og tók nokkrum sinnum sæti á þinginu. Hún var kosin á stjórnlagaþing 2010 og sat í stjórnlagaráði.
Katrín var formaður Félags íslenskra heimilislækna frá 1997 til 1999. Hún var varaformaður Evrópusamtaka lækna 2006-2007 og 2008-2009, og var forseti samtakanna 2013-2016.