Jórunn Viðar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita

Jórunn Viðar (f. 7. desember 1918) er íslenskt tónskáld. Hún er fædd og uppalin í Reykjavík, dóttir hjónanna Einars (1887 - 1923) og Katrínar Viðar (1895 - 1989). Drífa Viðar (1920-1971) var systir hennar. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1937. Sama ár sigldi hún til Þýskalands, þar sem hún nam tónsmiðar við Tónlistarakademíuna í Berlín í tvo vetur, en sneri heim til Íslands í júlímánuði 1939. Hún giftist Lárusi Fjeldsted (1918 - 1985), þá laganema, síðar forstjóra í Reykjavík og eignuðust þau þrjú börn: Lárus (f. 1942), forstjóri í Reykjavík; Katrínu, lækni og alþingismann (f. 1946) og Lovísu (f. 1951), sellóleikara.

Árin 1943-1946 dvöldu Jórunn og Lárus með syni sínum í New York, þar sem hann leitaði sér lækninga og rak fyrirtæki eftir það, en hún lagði stund á frekara nám í tónsmíðum við Julliard-skólann þar í borg. Þegar þau fluttu heim eignuðust þau dætur sínar tvær og Jórunn stundaði tónsmíðar, auk þess að vera einleikari og undirleikari á píanó. Hún samdi tónlistina við kvikmyndina Síðasta bæinn í dalnum, og hefur samið fjölda annarra tónverka, oft við gamla eða nýja texta eftir ýmsa höfunda. Í tónsmíðum sínum hefur Jórunn sótt mikið í íslenskan tónlistararf, bæði sem innblástur og við útsetningar á íslenskum þjóðlögum. Hún var mjög lengi eina konan í Tónskáldafélagi Íslands.

Meðal þekktra verka Jórunnar eru jólalögin Jól og Það á að gefa börnum brauð, Kall sat undir kletti, Únglíngurinn í skóginum við texta Halldórs Laxness og ballettinn Eldur.