Fara í innihald

Kastorkirkjan í Koblenz

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kastorkirkjan

Kastorkirkjan er elsta kirkja borgarinnar Koblenz í Þýskalandi, enda reist á 9. öld. Kirkjan stendur á Deutsches Eck, tanganum sem slútir út í samflæði fljótanna Rín og Mósel. Kirkjan er á heimsminjaskrá UNESCO.

Saga kirkjunnar

[breyta | breyta frumkóða]
Gamall skírnarfontur

Það var Hetti, erkibiskupinn í Trier, sem reisti kirkjuna 817-836. Til þess naut hann fulltingis Lúðvíks guðhrædda (syni Karlamagnúsar). Kirkjan var vígð 836 og helguð heilögum Kastor, en hann hafði verið kristniboði í héraðinu á 4. öld. Dóttir Lúðvíks, Rizza, var einnig dýrkuð í kirkjunni, en hún hvílir í henni enn í dag. Seinna á 9. öld var klaustri bætt við. Í þessu klaustri fór fram fundur um skiptingu hins mikla frankaríkis Karlamagnúsar árið 842, en Karl hinn sköllótti fékk vesturhlutann (Frakkland í dag), Lóþar fékk miðhlutann (og borgina Koblenz) og Lúðvík hinn þýski fékk austurhlutann (Þýskaland og Norður-Ítalía í dag). Samningur þessi var svo undirritaður í borginni Verdun árið eftir. Á 10. öld var kirkjan lengd og á 11. öld var núverandi turnum skipt út fyrir gamla hringturna. 1138 var Konráður III kjörinn konungur þýska ríkisins í kirkjunni. 1110 stofnaði erkibiskupinn Bruno von Lauffen spítala (einn hinn fyrsta norðan Alpa). Seinna var þýska riddarareglan kölluð til borgarinnar og henni gefið landstykki við kirkjuna og spítalann. Þetta svæði kallaðist Deutscher Ordt og seinna Deutsches Eck sem það heitir enn í dag og er tanginn við samflæði Rín og Mosel. 1338 gerðist síðasti markverði atburðurinn í kirkjunni, er keisarinn Lúðvík IV hinn bæríski og Játvarður III Englandskonungur gerðu með sér vinasamning. 1803 lögðu Frakkar klaustrið niður. Kirkjan sjálf skemmdist nokkuð í loftárásum seinna stríðsins. Viðgerðum lauk ekki fyrr en 1973, en turnarnir voru ekki teknir í gegn fyrr en 1979-80. Árið 2002 var kirkjan sett á heimsminjaskrá UNESCO.

Listaverk og dýrgripir

[breyta | breyta frumkóða]

Madonnumynd

[breyta | breyta frumkóða]
Madonna

Eitt mesta listaverk kirkjunnar er Madonnumyndin, sem kennd er við heilaga Birgittu frá Svíþjóð (Brigitten-Madonna). Myndin var máluð síðla á 14. öld af bæheimskum listamanni. Á innskrift á bakhliðinni má lesa að það hafi verið Eleonóra, systir Karls V keisara, sem fór með málverkið til Danmerkur, en hún giftist Kristjáni III Danakonungi. Á 17. öld var málverkið eign biskupsins Otto Reinhold von Andrimot, en hann flutti það til Wetzlar í Þýskalandi. 1836 var málverkið flutt til Koblenz og síðan 1849 hangir það í Kastorkirkjunni þar.

Sólarúrið

Í garðinum fyrir utan kirkjuna stendur sólarúr. Það er tiltölulega nýtt og sýnir klukkuna og dagsetninguna. Vegna sólargangs verður hins vegar að færa miðkúlu úrsins til, allt eftir því hvaða árstími er í gangi. Þá er einnig hægt að lesa stjörnumerkið sem ríkir hverju sinni.

Kastorbrunnurinn

[breyta | breyta frumkóða]

1812 reistu Frakkar minnisvarða um sigursæla herför Napoleons til Rússlands á kirkjulóðinni. Minnisvarði þessi kallast Kastorbrunnurinn sökum þess hve hann líkist brunni að utan. Herförin misheppnaðist hins vegar, en minnisvarðinn var látinn standa.

Fyrirmynd greinarinnar var „St. Kastor (Koblenz)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt maí 2010.