Fara í innihald

Kóngsbænadagur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kóngsbænadagur eða stórbeðudagur (danska: store bededag færeyska: dýri biðidagur) er föstudagurinn í 4. viku eftir páska. Kóngsbænadagur var sérstakur hátíðisdagur sem Kristján 5. Danakonungur fyrirskipaði í öllu ríki sínu fjórða föstudag eftir páska. Uppruni dagsins er sá að Hans Bagger Sjálandsbiskup lét taka upp þrjá nýja föstu- og hátíðisdaga í biskupsdæmi sínu á árunum 1675 til 1677. Af þessum þremur var kóngsbænadagurinn lögboðinn í öllu ríkinu af konungi árið 1686. Þennan dag átti að loka krám og verslunum og hringja til messu.

Í Kaupmannahöfn komst fljótlega sú hefð á að borgarar fögnuðu vori þennan dag með því að klæða sig upp á og fá sér göngutúr á borgarvirkjunum. Vegna þessarar hefðar var deginum hlíft, að talið er, þegar Johann Friedrich Struensee fækkaði helgidögum ársins um helming 20. október 1770.

Dagurinn er enn haldinn hátíðlegur í Danmörku og Færeyjum en dagurinn var afnuminn sem helgidagur af Alþingi á Íslandi árið 1893. Upphaflega átti líka að afnema skírdag, annan í páskum, uppstigningardag og annan í hvítasunnu en horfið var frá því með alla daga nema kóngsbænadaginn.

Kóngsbænadagurinn virðist hafa verið frekar óvinsæll á Íslandi eins og þessi húsgangur ber með sér:

Innan sleiki ég askinn minn,
ekki er saddur maginn.
Kannast ég við kreistinginn
kóngs- á bænadaginn.

Ekki er það þó einleikið. Í Höllu eftir Jón Trausta er fjallað um gleði vinnuhjúa sem fengu frí á kóngsbænadag og notuðu það m.a. til hvíldar, skemmtana og drykkju - sem og til að heimsækja aðra bæi og undirbúa vistaskipti um vinnuhjúaskildaga, sem voru skammt undan.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]