Fara í innihald

John Frost-brúin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá John Frost brúin)
John Frost-brúin í dag ásamt minnisvarða

John Frost-brúin er heitið á brúnni frægu yfir Rín í borginni Arnhem í Hollandi. Árið 1944 börðust Bretar og Þjóðverjar um yfirráðin á brúnni í stuttum en snörpum bardaga, áður en Bretar urðu að hörfa.

Síðan 1603 hefur aðeins flotbrú verið yfir Rín við Arnhem. Þegar kom fram á 20. öld jókst þörfin fyrir nýrri og betri brú, sökum aukinna samgangna. Núverandi brú yfir Rín var smíðuð 1932-35 og þótti mikil samgöngubót. En aðeins fimm árum eftir víglsuna réðust Þjóðverjar inn í Holland og hernámu landið snemma í heimstyrjöldinni síðari. Við innrás þeirra tóku hollenskir verkfræðingar það til bragðs að sprengja miðskipið á brúnni til að gera nasistum erfiðara fyrir að komast um landið. Það kom þó ekki í veg fyrir að Þjóðverjar næðu borginni Arnhem á sitt vald. Þeir settu strax upp flotbrú yfir Rín (Ponton-brú) fyrir her sinn og hergögn, ásamt því sem þeir létu gera við brúna. Smíðinni lauk ekki fyrr en í ágúst 1944.

Operation Market Garden

[breyta | breyta frumkóða]

Í júní 1944 réðust bandamenn inn í Normandí og frelsuðu Norður-Frakkland og Belgíu sem Þjóðverjar höfðu hernumið 1940. Um haustið réðust bandamenn inn í Holland með það að markmiði að frelsa landið og sækja lengra austur til Þýskalands. Verkefni þetta kallaðist Operation Market Garden. Fyrsta skrefið var ná yfirráðum yfir öllum brúm yfir Maas og Rínararmana (Neder-Rijn, Lek og Waal). Árnar voru svo miklar að ekki þótti ráðlegt að ráðast inn í landið án þess að stjórna brúnum. Áætlanir gerðu ráð fyrir að bandamenn, aðallega Bretar, flygju yfir árnar með fallhlífasveitir, sem stukku út hér og þar og tækju brýrnar. Þannig voru nokkrar mikilvægar brýr teknar, svo sem í Antwerpen, Nijmegen, Eindhoven og víðar.

Orrustan um Arnhem

[breyta | breyta frumkóða]
Loftmynd af Rínarbrúnni í Arnhem, tekin 19. september 1944. Uppi á myndinni má sjá ónýta þýska hervagna sem Bretar höfðu grandað.

17. september náði bresk fallhlífasveit að brúnni í Arnhem og tók nyrðri brúarsporðinn. Sveitin var fámenn, en hún samanstóð aðeins af 740 manns. Henni var stjórnað af John Frost höfuðsmanni (lieutenant). Þrátt fyrir að innrásin hafi komið Þjóðverjum á óvart, náðu þeir að halda syðri brúarsporðinum. Við tóku miklir landbardagar um brúna. Þjóðverjar höfðu áður komið fyrir sprengjum undir miðskipinu, ef ske skyldi að þeir yrðu að sprengja brúna í neyð. Bretum tókst þó að aftengja þær. Allan næsta dag var barist um brúna. Þjóðverjar fengu liðsstyrk frá eystri svæðum og voru brátt komnir með álitlegt herlið að brúnni. Í raun áttu Bretarnir við ofurefli að etja. Áætlunin var sú að senda fleiri fallhlífasveitir með vopn og vistum þennan dag, en sökum veðurs var það ekki hægt og ekki næstu daga heldur. Því voru Bretar í vondum málum, enda var ekki reiknað með svo mikilli andspyrnu hjá Þjóðverjum. Meðan vistir Bretanna þraut, fengu Þjóðverjar daglega nýjan liðsstyrk. Í sjö daga börðust aðilar og tók að fækka í liði Breta, þrátt fyrir að Þjóðverjar kæmust ekki yfir brúna. Bandamenn sömdu því nýja áætlun, kölluð Operation Berlin, sem fólst í því að bjarga Bretunum í Arnhem. Það var gert við erfiðar aðstæður 25. september er annar herflokkur, breskur og pólskur, kom landleiðina og á bátum. Þjóðverjar skutu látlaust meðan á björgunaraðgerðum stóð. 95 menn féllu í þessari aðgerð.

John Frost höfuðsmaður var leiðtogi Breta á brúnni og ber hún nú nafn hans

Sigurinn í Arnhem var síðasti stóri sigur Þjóðverja í stríðinu. Hann varð þess valdandi að innrás bandamanna í Holland og vesturhluta Þýskalands tafðist í nokkra mánuði. Brúin sjálf skemmdist lítið við þessi átök en 7. október 1944 sprengdu bandamenn brúna í loftárásum til að koma í veg fyrir að Þjóðverjar gætu notað hana fyrir hergagnaflutninga. Eftir stríð notuðu bandamenn flotbrú á ný. Hún reyndist hins vegar óheppileg vegna þess hve lág hún var. Þarmeð stöðvuðust skipaferðir um Rín. Næst var hærri flotbrú reist þar til upphaflega stálbrúin var tekin í notkun á ný 1948. Þann 17. desember 1977 var heiti brúarinnar formlega breytt í John Frost brú, eftir breska höfuðsmanninum sem var æðsti yfirmaður bresku herdeildarinnar í orrustunni á brúnni. 8. maí 1995 var tónlistarhátíðin World Liberty Concert haldin á brúnni í tilefni þess að 50 ár voru liðin frá hinni frækilegu orrustu. Þetta voru stærstu útitónleikar sem haldnir hafa verið í Hollandi.

Árið 1977 var gerð kvikmynd um orrustuna um Arnhem og hét hún A Bridge Too Far. Leikstjóri myndarinnar var Richard Attenborough, en meðal leikara má nefna Sean Connery, Michael Caine, Ryan O'Neil, Gene Hackman, Anthony Hopkins, James Caan, Laurence Olivier, Robert Redford og Hardy Krüger. Upptökur fóru hins vegar ekki fram á John Frost brúnni í Arnhem, heldur á Ijsselbrúnni í borginni Deventer. Ástæðan fyrir því var sú að byggingarnar sitthvoru megin við brúna í Arnhem voru orðnar of nýtískulegar.