Fara í innihald

Jón Pétursson (læknir)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jón Pétursson (1733-1801) var íslenskur læknir. Hann var handlæknir í Norðlendingafjórðungi og skrifaði merk rit um læknisfræði. Jón fæddist árið 1733 á Hofsá í Svarfaðardal. Foreldrar hans voru Pétur Jónsson frá Hnjúki í Svarfaðardal og Margrét Illugadóttir frá Nesi í Höfðahverfi í Grýtubakkahreppi. Jón stundaði nám í Hólaskóla og lauk prófi þaðan 14. maí 1759. Árið 1760 varð hann djákni á Munkaþverá á Staðarbyggð í Eyjafirði.

Bjarni Pálsson fyrsti landlæknir á Íslandi ritaði Gísla Magnússyni Hólabiskupi og bað hann að útvega sér lærisvein úr Norðurlandi og réðst Jón árið 1762 til vistar í Nesi við Seltjörn. Jón stundaði læknisfræðinám þar í tvo vetur. Árið 1764 kom til Íslands Johan Gerald König sem verið hafði nemandi sænska grasafræðingsins Carls von Linné. Erindi hans var að safna grösum fyrir nýja útgáfu af Flora Danica sem var fræðirit af öllum villtum plöntum í danska ríkinu. Með König var teiknarinn Sören Johannes Helt. Sumrin 1764-1765 voru þeir í grasasöfnun og var Jón Pétursson sennilega leiðsögumaður þeirra. Jón Pétursson fer til Kaupmannahafnar 1765 með König og er skráður í Hafnarháskóla. Jón skrifar árið 1769 ritgerð um skyrbjúg á Íslandi en ritgerð hans virðist fjalla um holdsveiki. Jón mun hafa verið herlæknir í sjóher Dana á árunum 1770-1771 og farið til Spánar, Alsír og Egyptalands. Jón lauk ekki læknaprófi frá Hafnarháskóla en hann kann að hafa lokið handlæknanámi frá öðrum skóla sem var miðaður við þarfir hersins og flotans. Jón fór aftur til Íslands 1772 og var til 1775 í Nesi við Seltjörn sem aðstoðarmaður landlæknis og fyrsta lyfsalans Björns Jónssonar sem kom til starfa 1772. Árið 1775 varð Jón handlæknir í Norlendingafjórðungi og sat í Viðvík í Skagafirði. Árið 1782 sendir Jón frá sér bók um iktsýki en hann var sjálfur ills haldinn af liðagigt. Í þeirri bók setur Jón fyrstur manna fram lýsingu á iktsýki sem á við sjúkdóminn arthiritis rheumatoides. Jón samdi einnig Lækningabók fyrir almúga.