Fara í innihald

Islam Karimov

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Islam Karimov
Ислом Каримов
Islam Karimov árið 2013.
Forseti Úsbekistans
Í embætti
1. september 1991 – 2. september 2016
ForsætisráðherraAbdulhashim Mutalov (1992–1995)
Oʻtkir Sultonov (1995–2003)
Shavkat Mirziyoyev (2003–2016)
VaraforsetiShukrullo Mirsaidov (1990–1992)
EftirmaðurShavkat Mirziyoyev
Persónulegar upplýsingar
Fæddur30. janúar 1938
Samarkand, úsbeska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
Látinn2. september 2016 (78 ára) Taskent, Úsbekistan
StjórnmálaflokkurFrjálslyndi lýðræðisflokkurinn (2006–2016)
Lýðræðisflokkur alþýðunnar (1991–2006)
Kommúnistaflokkur Sovétríkjanna (fyrir 1991)
MakiNatalía Kútsjmí (skilin)
Tatíana Karimova (1967–2016)
Börn3
Undirskrift

Islam Abdúganjevítsj Karimov (30. janúar 1938 – 2. september 2016[1][2]) var úsbeskur stjórnmálamaður sem var fyrsti forseti lýðveldisins Úsbekistans frá sjálfstæði ríkisins frá Sovétríkjunum árið 1991. Fyrir hrun Sovétríkjanna hafði Karimov verið aðalritari landsdeildar Kommúnistaflokksins í Úsbekistan. Hann hélt völdum í landinu eftir sjálfstæði þess og stýrði því allt til dauðadags árið 2016. Karimov var einræðisherra og stjórn hans var alræmd fyrir mannréttindabrot og harðræði gegn íbúum landsins.

Æska og uppvöxtur

[breyta | breyta frumkóða]

Karimov átti úsbeskan föður og tadsíska móður. Hann ólst upp á barnaheimili. Hann nam verkfræði og hagfræði[3] í Taskent og árið 1966 hóf hann vinnu hjá Gosplan, ríkisáætlananefnd Sovétríkjanna.

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Karimov kleif metorðastigann innan sovéska kommúnistaflokksins. Árið 1983 varð hann fjármálaráðherra í úsbeska sovétlýðveldinu og árið 1986 varð hann varaformaður ráðherraráðsins.

Karimov komst til valda árið 1989 í Úsbekistan þegar hann varð aðalritari landsdeildar kommúnistaflokksins þar í landi. Þann 24. mars 1990 varð hann forseti úsbeska sovétlýðveldisins.

Forseti Úsbekistans

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 31. ágúst 1991 lýsti Karimov yfir sjálfstæði Úsbekistans frá Sovétríkjunum. Þann 29. desember sama ár vann hann fyrstu forsetakosningar nýja ríkisins með 90 % atkvæða. Kosningarnar voru víða álitnar ósanngjarnar þar sem kosningabaráttan var ekki frjáls og átt var við atkvæðatalninguna. Hið sama hefur gilt um allar kosningar í Úsbekistan upp frá því. Eftir kjör Karimovs til forseta herti hann tökin á ríkinu með því að handtaka stjórnarandstæðinga eða reka þá úr landi.

Þann 26. mars árið 1995, fáeinum mánuðum áður en fyrsta kjörtímabili Karimovs hefði átt að ljúka, var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem samþykkt var að framlengja fyrsta kjörtímabilið um fimm ár. Þann 9. janúar árið 2000 var gengið til forsetakosninga þar sem Karimov hlaut rúmlega 90% atkvæðanna. Mótframbjóðandi hans tilkynnti að hann hefði sjálfur greitt Karimov atkvæði. Þann 27. febrúar 2002 var haldin önnur þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem samþykkt var að lengja kjörtímabil forsetans úr fimm árum í sjö.

Karimov bældi niður allt andóf af hörku og vændi andstæðinga sína gjarnan um íslamskt trúarofstæki. Þetta gat hann gert með vísan til vopnaðrar baráttu vígahópsins Íslamshreyfingar Úsbekistans í landinu. Árið 2002 greindi Mannréttindavaktin meðal annars frá því að tveir menn hefðu verið teknir af lífi í fangelsi í norðvestanverðu Úsbekistan með því að vera soðnir lifandi.[4] Í fyrstu var Karimov vinveittur vesturveldunum og eftir hryðjuverkin 11. september 2001 leyfði hann Bandaríkjunum og Atlantshafsbandalaginu að byggja herstöðvar í Úsbekistan til að nýta við stríðið í Afganistan.

Þann 13. maí árið 2005 voru rúmlega 300 óvopnaðir mótmælendur myrtir af öryggissveitum Karimovs í borginni Andijan í kjölfar vopnaðra átaka fyrr um daginn.[5] Evrópusambandið lét í kjölfarið banna vopnasölur til Úsbekistans og Bandaríkin gagnrýndu jafnframt Karimov fyrir aðgerðir stjórnar hans. Eftir þetta urðu Bandaríkin og NATÓ að láta af hendi herstöðvar sínar í Úsbekistan og Karimov fór fremur að halla sér að Rússlandi í utanríkisstefnu sinni. Þann 14. október sama ár skrifaði Karimov undir gagnkvæman varnarsáttmála við Rússland.

Þann 28. ágúst 2016 tilkynnti skrifstofa forsetans að hann hefði verið lagður inn á sjúkrahús.[6] Næsta dag tilkynnti dóttir Karimovs að hann hefði fengið heilablóðfall. Orðrómar heyrðust um að Karimov væri látinn en andlát hans var ekki staðfest opinberlega.[7] Óvissan um heilsuástand Karimovs leiddi til vangaveltna um það hver eftirmaður hans á forsetastól yrði.[8][9]

Eftir margra daga óvissu tilkynnti embætti forsetans þann 2. september 2016 að Karimov væri látinn.[10] Opinberlega var dauði hans tímasettur klukkan 20:55 þann 2. september.[2]

Útför Karimovs var haldin þann 3. september 2016 í Samarkand. Formaður útfararnefndarinnar var forsætisráðherrann Shavkat Mirziyoyev, sem bent var á sem mögulegan eftirmann Karimovs í forsetaembætti.[11] Nigmatilla Júldasjev tók við forsetaembættinu til bráðabirgða í krafti embættis síns sem þingleiðtogi en hann lét völdin ganga til Mirziyoyev eftir fáeina daga. Mirziyoyev var kjörinn forseti þann 4. desember 2016.

Fjölskylda

[breyta | breyta frumkóða]

Karimov var kvæntur og átti tvær dætur. Sú eldri var Gulnara Karimova og var fædd 1972 en hin yngri var Lola Karimova-Tilljaeva, fædd árið 1978.

Lengi var talið að Karimov væri að búa dóttur sína, Gulnöru, undir það að taka við af honum sem forseti Úsbekistans. Árið 2014 var Gulnara hins vegar sett í stofufangelsi ásamt dóttur sinni vegna ábendinga um að hún hefði tekið við mútugreiðslum.[12]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Kristján Róbert Kristjánsson (2. september 2016). „Andlát Karimovs staðfest“. RÚV. Sótt 25. september 2020.
  2. 2,0 2,1 „Медицинское заключение о болезни и причине смерти Ислама Абдуганиевича Каримова“. www.press-service.uz. 2. september 2016. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. september 2016. Sótt 25. september 2020.
  3. „Islam Abduganiyevich Karimov | 2022“ (bandarísk enska). 21. desember 2022. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. febrúar 2023. Sótt 3. febrúar 2023.
  4. Vera Illugadóttir (9. september 2016). „Sauð menn lifandi og fangelsaði eigin dóttur“. RÚV. Sótt 16. nóvember 2022.
  5. Uzbekistan: Andizhan one year on – the victims must not be forgotten Amnesty International, 11. maí 2006.
  6. „ИНФОРМАЦИОННОЕ СООБЩЕНИЕ“. www.press-service.uz. 28. ágúst 2016. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. ágúst 2016. Sótt 25. september 2020.
  7. Neil Macfarquhar (2016 29. ágúst). „With Uzbekistan's Ruler Gravely Ill, Questions Arise on Succession“. The New York Times. Sótt 25. september 2020.
  8. Bruce Pannier (29. ágúst 2016). „Who Could Replace Uzbekistan's Ailing President?“ (enska). RadioFreeEurope/RadioLiberty. Sótt 25. september 2020.
  9. „What happens when a nation loses the only leader in its history?“. NBC News. 31. ágúst 2016. Sótt 25. september 2020.
  10. „Islam Karimov: Uzbekistan president's death confirmed - BBC News“ (enska). Sótt 25. september 2020.
  11. «Islam Karimov: Uzbekistan to bury its strongman leader», BBC News, 3. september 2016. Skoðað 26. september 2020.
  12. Hafliði Sævarsson (12. september 2016). „Poppstjarnan, sendiherrann og skartgripahönnuðurinn frá Úsbekistan“. Kjarninn. Sótt 16. nóvember 2022.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Forseti Úsbekistans
(1. september 19912. september 2016)
Eftirmaður:
Shavkat Mirziyoyev