Hollywood (skemmtistaður)
Hollywood var skemmtistaður að Ármúla 5 í Reykjavík sem sérhæfði sig í diskótónlist, tískusýningum og almennum glamúr. Staðurinn var opnaður 2. mars 1978 og lauk starfsemi sinni árið 1987. Áður en Hollywood opnaði var þar staður sem hét Sesar, en Ólafur Laufdal tók við rekstri hans, breytti staðnum og nafninu og rak hann með konu sinni Kristínu Ketilsdóttur. Þau seldu svo reksturinn árið 1987.
Opið var alla daga vikunnar, nema á miðvikudögum því á þeim degi var bannað að selja og veita áfengi á Íslandi. Rúmu ári eftir opnun Hollywood var önnur hæð byggð ofan á skemmtistaðinn. Við það stækkaði hann um helming og barirnir urðu átta. Inni á staðnum var auk þess sjoppa þar sem selt var sælgæti, sokkabuxur, snyrtivörur og samlokur og annað smálegt. Einnig var hægt að kaupa þar ísmola við lokun á kvöldin og hafa með sér í heimapartíin. Helstu plötusnúðar staðarins voru þeir: Leópold Sveinsson, Ásgeir Tómasson, Gísli Sveinn Loftsson (Áslákur), Halldór Árni Sveinsson og Daddi dídjei.
Árið 1985 stóð til að breyta húsi Vörumarkaðarins í risavaxið Hollywood, [1] en úr því varð ekki.
Ungfrúr Hollywood
[breyta | breyta frumkóða]- 1979 - Auður Elísabet
- 1980 - Valgerður Gunnarsdóttir
- 1981 - Gunnhildur Þórarinsdóttir
- 1982 - Kolbrún Anna Jónsdóttir (Fulltrúi ungu kynslóðarinnar)
- 1983 - Jóhanna Sveinsdóttir (Stjarna Hollywood) - Hanna Kristín Jónsdóttir (Sólarstjarna Úrvals).
- 1984 - Anna Margrét Jónsdóttir (Stjarna Hollywood og fulltrúi ungu kynslóðarinnar) - Arnbjörg Finnbogadóttir (Sólarstúlka Úrvals)
- 1985 - Ragna Sæmundsdóttir (Stjarna Hollywood) - Margrét Guðmundsdóttir (Sólarstúlka Úrvals)
- 1986 - Guðlaug Jónsdóttir (Stjarna Hollywood) - Svava Sigurjónsdóttir (Sólarstjarna Pólaris)
Skemmtiatriði í Hollywood
[breyta | breyta frumkóða]- Bakka-Tommi
- Baldur Brjánsson töframaður
- Grétar „grínisti“ Hjaltason
- Halli og Laddi
- Herbert Guðmundsson
- Ljósin í bænum
- Model ´79 voru með tískusýningar í hverri viku.
Hollywood í dægurlagatextum
[breyta | breyta frumkóða]Skemmtistaðurinn Hollywood kemur fyrir í nokkrum íslenskum dægurlagatextum. Má þar nefna lagið Fegurðardrottning með Ragnhildi Gísladóttur. Þar segir:
„Og svo frétti ég af keppninni í Hollywood / Þar sem bíll af Datsun-gerð í veði var / Svo ég skellti mér í chiffonkjól, batt hár í hnút / og viti menn ég sigur úr býtum bar.“
Í lagi Bítlavinafélagsins, Þrisvar í viku, segir frá tvítuga töffaranum Auðbirni sem „...fer í ljós þrisvar í viku og mætir reglulega í líkamsrækt. Hann fer í Hollywood um helgar með mynd af bílnum í vasanum.“
Á plötunni Ísland syngur Spilverk þjóðanna um hippann sem „forðum í Tjarnarbúð fríkaði út“ en „er nú fastagestur í Hollywood, mænir á meyjar og vídeó og dreymir um Alfa Rómeó“.
Bubbi Morthens samdi svo og söng lagið Hollywood, hárbeitta ádeilu um firringu diskómenningarinnar, sem kom út á hljómplötunni (1980).