Holger Rosenkrantz

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Holger Rosenkrantz, Holgeir Rósinkrans (d. í febrúar 1658) var danskur sjóliðsforingi sem var hirðstjóri á Íslandi 1620 til 1633.

Rosenkrantz var frá Ørup á Skáni. Hann gekk ungur í danska sjóherinn og varð kapteinn árið 1610. Árið 1616 stýrði hann flaggskipinu í leiðangri Jørgen Daa gegn sjóræningjum á Eystrasalti. Hann var gerður hirðstjóri á Íslandi 1620. Hann var áfram í sjóhernum og stýrði meðal annars skipinu Justitia í orrustunni við Hamborgara 1630, sem háð var á Saxelfi. en var þó oft á Íslandi. Hann var á Bessastöðum þegar Tyrkjaránið var framið árið 1627 og hlaut nokkurt ámæli fyrir aðgerðarleysi þegar annað skip ræningjanna strandaði á skeri og fannst ýmsum að hann hefði þá átt að neyta færis og ráðast að þeim á meðan þeir fluttu varning og fanga yfir í hitt skipið. Rosenkrantz var þó ekki með öllu aðgerðarlaus og lét gera virki á Bessastöðum til að verjast ræningjunum og safnaði liði. „En hófuðsmaður með sínum þénurum og mörgum Islenzkum í stórum látúnssöðlum á landi riðu til umsjónar og aðgætni með löngum stöngum, svo sem hertygjað fólki væri að sjá, þá sólin á söðulbryggjurnar skein,“ segir Jón Ólafsson Indíafari í ævisögu sinni en hann var þá í þjónustu höfuðsmanns

Árið 1633 lét hann af hirðstjórn á Íslandi en fékk Gotland í staðinn og hætti þá í sjóhernum. 1645 misstu Danir Gotland í friðarsamningum við Svía og fékk hann þá Stafangurslén í Noregi og hélt því til 1648. Þá flutti hann til Frøllinge á Hallandi, sem hann hafði fengið með konu sinni, Vibeke Thott, og átti þar heima síðustu tíu árin. Hann var einn af fulltrúum skánska aðalsins á stéttaþingi í Kaupmannahöfn 1650.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Rosenkrantz, Holger“. Dansk biografisk Lexikon.


Fyrirrennari:
Frederik Friis
Hirðstjóri
(16201633)
Eftirmaður:
Pros Mund