Heimsmeistaramót landsliða í ruðningi karla

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Heimsmeistarakeppnin í ruðningi er íþróttaviðburður sem haldinn hefur verið á fjögurra ára fresti frá árinu 1987. Um er að ræða keppni í Rugby Union sem er vinsælasta afbrigðið af ruðningi, þar sem tvö fimmtán manna lið etja kappi. Landslið frá suðurhveli hafa verið langsigursælust í keppninni frá upphafi. Ríkjandi meistarar (frá 2013) eru Suðurafríkumenn.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Alþjóðakeppnir landsliða í ruðningi eiga sér langa sögu. Árið 1883 var fimm þjóða mótið haldið í fyrsta sinn, með þátttöku fjögurra liða frá Bretlandseyjum og Frakka. Eftir að Ítalir slógust í hópinn hefur keppnin verið kölluð sex þjóða mótið. Fjórum sinnum á árunum 1900 til 1924 var ruðningur meðal keppnisgreina á Ólympíuleikunum en keppnislið voru fá og fjarri því að vera sterkustu lið viðkomandi þjóða.

Hugmyndir um heimsmeistaramót höfðu reglulega skotið upp kollinum allt frá sjötta áratugnum en einatt hlotið dræmar undirtektir einstakra apildarsambanda. Tillaga frá Áströlum og Nýsjálendingum um að koma slíku móti á laggirnar var loks samþykkt eftir harðar deilur árið 1985. Tveimur árum síðar fór fyrsta keppnin fram með þátttöku sextán þjóða. Ástralir og Nýsjálendingar deildu gestgjafahlutverkinu. Nýsjálendingar urðu heimsmeistarar með talsverðum yfirburðum og unnu allar sínar viðureignir með miklum mun.

Fimm þjóðir hýstu annað heimsmeistaramótið árið 1991, sem Ástralir unnu með sigri á Englandi í úrslitum. Þriðja keppnin var söguleg þar sem hún fór fram í Suður-Afríku árið 1995, en heimamenn höfðu nýverið snúið aftur á alþjóðasviðið í ruðningi eftir að hafa verið í keppnisbanni vegna Apartheid-kynþáttaaðskilnaðarstefnunnar. Heimamenn urðu heimsmeistarar í þessari frumraun sinni að viðstöddum forsetanum Nelson Mandela.

Atvinnumennska var viðurkennd í ruðningi uppúr 1995 og mátti sjá þess merki á næstu heimsmeistaramótum þar sem bilið milli sterkari og veikari liða fór breikkandi. Sigur Ástrala á Namibíumönnum, 142:0 árið 2003 er t.a.m. enn stærsti sigur í sögu HM. Ástralir hömpuðu sínum öðrum heimsmeistaratitli í Wales árið 1999 en 2003 urðu Englendingar fyrstir og einir enn sem komið er til að rjúfa einokun suðurálfuþjóða þegar þeir urðu meistarar í Ástralíu.

Á árunum 2007 til 2023 bættu Nýsjálendingar við sig tveimur heimsmeistaratitlum og Suðurafríkumenn þremur.

Gestgjafar[breyta | breyta frumkóða]

Ár Keppnisstaður
1987 Nýja-Sjáland
Ástralía
1991 England
Frakkland
Wales
Skotland
Írland
1995 Suður-Afríka
1999 Wales
2003 Ástralía
2007 Frakkland
2011 Nýja-Sjáland
2015 England
2019 Japan
2023 Frakkland
2027 Ástralía
2031 Bandaríkin

Árangur einstakra landsliða[breyta | breyta frumkóða]

Land Meistarar 2. sæti 3. sæti 4. sæti
Suður-Afríka 4 (1995, 2007, 2019, 2023) 2 (1999, 2015)
Nýja-Sjáland 3 (1987, 2011, 2015) 2 (1995, 2023) 3 (1991, 2003, 2019) 1 (1999)
Ástralía 2 (1991, 1999) 2 (2003, 2015) 1 (2011) 1 (1987)
England 1 (2003) 3 (1991, 2007, 2019) 1 (2023) 1 (1995)
Frakkland 3 (1987, 1999, 2011) 1 (1995) 2 (2003, 2007)
Wales 1 (1987) 2 (2011, 2019)
Argentína 1 (2007) 2 (2015, 2023)
Skotland 1 (1991)