Fara í innihald

Harrý og Heimir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Harry og Heimir)

Harrý og Heimir er útvarpsleikrit sem var flutt á útvarpstöðinni Bylgjunni frá 1988 til 1993. Höfundar voru Karl Ágúst Úlfsson, Sigurður Sigurjónsson og Örn Árnason, sem einnig léku öll hlutverkin í þáttunum. Þetta eru gamanþættir byggðir á klassískum harðsoðnum einkaspæjarasögum frá fyrri hluta 20. aldar. Þættirnir voru fluttir á milli 10 og 11 á morgnana, endurfluttir á milli 16 og 17 síðdegis og svo voru allir þættir vikurnar endurfluttir á laugardögum.

Þáttaraðirnar um einkaspæjarann Harrý Rögnvalds og hinn hundtrygga aðstoðarmann hans, Heimi Schnitzel, urðu tvær; ein ellefu þátta (24-30 mín) 1988 til 1989 og einn fjörutíu þátta (7 mín) árið 1993. Fyrri þáttaröðin var að mestu sjálfstæðar sögur, en tveir af þáttunum voru framhaldssaga þar sem þeir bjarga veðurathugunarmanninum Sigtryggi Klein á veðurathugunarstöð á fjallinu Regingnípu frá illmenninu Finnboga sem hyggst flytja fjöll af hálendi Íslands til Danmerkur. Seinni þáttaröðin er ein framhaldssaga sem gerist í Transylvaníu, þar sem illmennið Frank N. Steingrímsson leitar að heila til að nota í sköpunarverk sitt, Rúrik, og endar á að taka heilann úr Heimi. Díana Klein kemur fyrir í báðum þáttaröðum: Í þeirri fyrri leitar hún að föður sínum og í þeirri síðari að eiginmanni sínum. Í báðum þáttaröðum er sögumaður sem Örn Árnason leikur.

Báðar þáttaraðirnar hafa komið út á geisladiskum hjá Senu, sú fyrri undir titlinum Harrý og Heimir: Með öðrum morðum, en síðari útgáfan heitir Harrý og Heimir: Morð fyrir tvo.

Spaugstofan

[breyta | breyta frumkóða]

Harrý og Heimir birtust reglulega í sjónvarpsþáttum Spaugstofunnar. Tvö atriði voru sýnd árið 1996 og eitt árið 2003. Páskaþáttur Spaugstofunnar 1998 snerist um það að Harrý og Heimir voru að leita að ræningja sem hafði stolið páskaþætti Spaugstofunnar. Karl og Sigurður léku Harrý og Heimi, Örn sögumann og Randver og Pálmi léku gesti sem komu á spæjarastofuna.

Leikrit og kvikmynd

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2009 frumsýndi Borgarleikhúsið leikritið Harrý og Heimir: Með öðrum morðum eftir Karl Ágúst, Örn og Sigurð sem léku jafnframt aðalhlutverkin, en leikritið er unnið upp úr seinni, fjörutíu þátta útvarpsleikritsseríunni. Höfundarnir þrír voru jafnframt leikstjórar sýningarinnar, en Kristín Eysteinsdóttir aðstoðaði við uppsetninguna. Leikmynd og búningar voru eftir Snorra Frey Hilmarsson. Skömmu fyrir frumsýningu var hljóðmynd leikritsins stolið. Sýningin gekk í tvö leikár og var sýnd bæði í Reykjavík og á Akureyri. Sjónvarpsupptaka af sýningunni hefur verið sýnd á Stöð 2 og einnig gefin út á DVD.

Sumarið 2013 var tekin upp kvikmyndin Harrý og Heimir: Morð eru til alls fyrst og var hún frumsýnd um páskana 2014. Hún er byggð á framhaldssögunni úr fyrstu þáttaröð um veðurathugunarmanninn Sigtrygg á Regingnípu. Svandís Dóra Einarsdóttir fór með hlutverk Díönu Klein og Þröstur Leó Gunnarsson lék Sigtrygg. Í myndinni hét illmennið Símon (leikinn af Stefáni Karli, Ingvari E. og Þórhalli Sigurðssyni). Fjallaleiðsögumaðurinn Ísleifur var leikinn af Ólafi Darra.