Fara í innihald

Sögumaður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sögumaður er í frásögn röddin sem segir söguna. Stundum er sögumaðurinn jafnframt persóna í frásögninni og óáreiðanlegur sögumaður er frásagnartækni þar sem lesandi eða áheyrandi treysta ekki sögumanni til að segja satt og rétt frá. Sögumaður er þannig aðgreindur frá höfundi eins og hann kemur fyrir í verkinu. Hvort sem sögumaður kemur fyrir sem persóna eða rödd er það alltaf sú rödd sem segir frá atburðum sögunnar í öllum rituðum bókmenntum (til dæmis ljóðum, skáldsögum, endurminningum) en í öðrum skáldskaparmiðlum eins og kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi, leikritum er sögumaður stundum til staðar og stundum ekki, þegar frásögninni er miðlað til áhorfenda/áheyrenda sjónrænt eða með samtölum persóna.

Sögumenn eru stundum flokkaðir eftir sjónarhorni og innsýn í söguna, og þá hvort þeir eru sjálfir þátttakendur, eins og í fyrstu persónu frásögn, eða standa utan við og segja frá hugsunum annarra persóna, eins og alvitur sögumaður gerir; eftir frásagnartíma, það er hvort sögutími er í þátíð, nútíð eða framtíð miðað við tíma frásagnarinnar; og eftir frásagnarhætti sem sögumaður notast við, persónusköpun, niðurröðun atburða í frásögninni, notkun málsniða og þess háttar. Sögumaður getur verið hlutdrægur eða hlutlaus, alvitur eða með takmarkaða innsýn í atburði. Frjáls óbein ræða er frásagnaraðferð þar sem raddir sögumanns og persóna renna saman í eina og hugsanir persónunnar birtast án formálans „hún hugsaði ...“. Slíkt stílbragð kemur oft fyrir í Hroki og hleypidómar eftir Jane Austen, sem dæmi. Sumar sögur notast við marga sögumenn eða ólík sjónarhorn hjá sama sögumanni til að segja söguna. Í skáldsögunni Drakúla eftir Bram Stoker er sagan sögð út frá takmörkuðu sjónarhorni margra sögumanna sem sumir eru ónefndir og koma ekki fyrir sem persónur. Sagan birtist lesandanum þannig gegnum samanlagða vitneskju ólíkra sögumanna.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.