Harmleikur almenninganna
„Harmleikur almenninganna“ (e. tragedy of the commons) er kenning, hugtak og dæmi, sem fundið var upp af Garrett Hardin, og er notað til þess að skýra það af hverju sameiginlegar auðlindir eru oft nýttar óhóflega af einstökum aðilum, með tilliti til heildarhagsmuna samfélagsins.[1] Þetta er algengt vandamál sem birtist oft í raunveruleikanum á þann hátt, að sameiginlegar auðlindir eru fullnýttar af einstaklingum og/eða fyrirtækjum sem hafa óskert aðgengi að þeim. „Harmleikur almenninganna“ er áberandi hugtak í umræðunni um sjálfbæra þróun.
Skilgreining
[breyta | breyta frumkóða]„Harmleikur almenninganna“ á við um auðlindir sem oftast eru (en þurfa ekki að vera) náttúruauðlindir, og eru sameiginlegar í einhverjum skilningi. Harmleikurinn kemur fram þegar það reynist erfitt og kostnaðarsamt að útiloka líklega notendur sameiginlegra auðlinda, og afleiðingin verður sú að gengið er um of á þær. Niðurstaðan verður gjarnan í stað þess að sameiginlegar auðlindir haldist við, og skapi gæði jafnt fyrir samfélagið í heild sinni (með „gæðum“ er átt við vörur og þjónustu í hagfræðilegum skilningi), þá þurrkast þær að lokum upp vegna gernýtingar. Það að auðlindin verði notuð upp er hinn svokallaði „Harmleikur almenninganna.“[2]
Saga hugtaksins
[breyta | breyta frumkóða]Hugtakið „Harmleikur almenninganna“ var fyrst notað af bandaríska vistfræðingnum Garrett Hardin (1915 – 2003).[3] Hardin setti hugtakið fram í samnefndri grein sinni The Tragedy of the Commons í tímaritinu Science árið 1968.[4] Grein Hardin hefur haft mikil áhrif í hagfræði sem og öðrum fræðigreinum, t.d. leikjafræði,[5] og margoft hefur verið vitnað til hennar í fræðiritum.[6] Hardin fann upp á hugmyndinni við lestur á skrifum William Forster (1794 – 1852), en Forster var mikill áhugamaður um stærðfræði.[7] Hardin notar orðið „harmleikur“ eins og enski heimspekingurinn og stærðfræðingurinn Alfred North Whitehead (1861 – 1947) skilgreindi það í bók sinni Science and the Modern World. En Whitehead segir harmleik vera vægðarlausan atburð sem felur í sér óhamingju.[8] Þó svo að „Harmleikur almenninganna“ sé hugtak sem er tiltölulega nýtt af nálinni, þá er vandamálið sem það lýsir ævafornt og hefur verið þekkt lengi. Forngríski heimspekingurinn Aristóteles skrifaði til að mynda um viðfangsefni sem tengjast „Harmleik almenningana.“[9]
Aristóteles hafði bent á að vandamálið með sameiginlegar auðlindir væri að það sem margir ættu sameiginlega yrði yfirleitt hugsað minna um en venjulega, og jafnvel vanrækt. Samkvæmt kenningunni er það vegna þess að fólki er yfirleitt meira umhugað um hluti sem það á, frekar en hluti sem það á sameiginlega með mörgum öðrum.[10]
Birtingarmynd
[breyta | breyta frumkóða]„Harmleikur almenninganna“ kemur fram þegar rætt er um vandamál sem tengjast ákveðinni tegund gæða, þ.e. sameiginlegum auðlindum. Í hagfræði eru gæði flokkuð á eftirfarandi hátt, í fjóra flokka út frá tveimur viðmiðum. Sameiginlegar auðlindir eru einn af þessum flokkum[11] (sjá greinina um Almannagæði fyrir nánari lýsingu á þessari töflu).
Notkun eins minnkar notagildi annarra | |||
Já | Nei | ||
Hægt er að útiloka aðra frá notkun | Já | Einkavörur |
Eðlileg einokun |
Nei | Sameiginlegar auðlindir |
Almannagæði |
Sameiginlegar auðlindir eru ekki útilokandi, eru í eigu allra og fólk hefur frítt aðgengi að þeim. Sameiginlegar auðlindir eru aftur á móti þess eðlis að þær gefa af sér takmarkað magn gæða og því minnkar notkun eins aðila notagildi annarra. Einstaklingar freistast til þess að nýta meira af auðlindinni sér í hag, en það dregur úr heildarnytjum hennar og bitnar á nytjum annarra af auðlindinni. Þegar hálfgert stjórnleysi ríkir er ekkert því til fyrirstöðu að einstaklingar láti eiginhagsmuni ráða, og óhjákvæmilega niðurstaðan verður sú að auðlindin þurrkast upp.[12] Til þess að sporna gegn „Harmleik almenninganna“ þarf að beita einhverskonar skilvirkum stjórntækjum eða skýrum reglum um nýtingu auðlindarinnar. Hagfræðingar benda á að skýrlega afmörkuð eignarréttindi séu almennt besta leiðin til að vinna gegn „Harmleik almenninganna.“[13]
Dæmi
[breyta | breyta frumkóða]„Harmleikur almenninganna“ kemur t.d. fram við fiskveiðar, en fiskistofnar eru sameiginleg auðlind. Nýting á fiskistofni er þess eðlis að notkun eins á stofninum minnkar notagildi annarra. Eftir því sem meiri fiskur er veiddur verður það kostnaðar- og tímafrekara fyrir einhvern annan að veiða jafnmikinn fisk úr sama stofni. Kostnaður fyrir aðra eykst í beinu samhengi við það magn sem annar veiðir. Ef aðgengi að fiskistofninum er óskert, freistast einkaðilar til að veiða eins og þeim sýnist, og nýting þeirra bitnar á öðrum. Eftir að veitt hefur verið ákveðið magn af fiski er minna eftir af stofninum fyrir aðra til að nýta. Að lokum kemur svo að því að gengið er á þolmark fiskistofnsins (í því samhengi er talað um ákveðinn „þröskuld“) og fiskurinn hefur verið ofveiddur. Stofninn hættir að skila af sér þeim gæðum sem hann gerði áður til samfélagsins.[14]
Í raunveruleikanum er málið sjaldan jafn einfalt og þetta dæmi sýnir, en grunnforsendurnir eiga við í flestum tilvikum samt sem áður. Flóknir hlutir eins og aðgerðir stjórnvalda, tækniframfarir, efnahagslögsögur landa, rányrkja o.fl. geta spilað þarna inn í.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Mankiw og Taylor, 2010, bls. 904.
- ↑ Mankiw og Taylor, 2010, bls. 214; Ostrom, 2008, bls. 360.
- ↑ Dixit, Skeath og Riley, 2009, bls. 452.
- ↑ Hardin, 1968.
- ↑ Dixit, Skeath og Riley, 2009.
- ↑ Ostrom, 2008, bls. 360.
- ↑ Hardin, 1968, bls. 1244.
- ↑ Hardin, 1968, bls. 1244; Whitehead, 1925, bls. 7.
- ↑ Mankiw og Taylor, 2010, bls. 216.
- ↑ Dixit, Skeath og Riley, 2009, bls. 472; Mankiw og Taylor, 2010, bls. 216.
- ↑ Ágúst Einarsson, 2007, bls. 109.
- ↑ Dixit, Skeath og Riley, 2009, bls. 472.
- ↑ Ágúst Einarsson, 2007, bls. 111; Mankiw og Taylor, 2010, bls. 214; Ostrom, 2008, bls. 360.
- ↑ Ágúst Einarsson, 2007, bls. 112; Dixit, Skeath og Riley, 2009, bls. 472; Mankiw og Taylor, 2010, bls. 216.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Ágúst Einarsson (2007). Rekstrarhagfræði. Reykjavík: Mál og menning.
- Dixit, Avinash., Skeath, Susan og Reiley, David (2009). Games of Strategy (3. útgáfa). New York; London: W. W. Norton & Company.
- Mankiw, N. G. og Taylor, M. P (2010). Economics (special edition). Andover: Cengage Learning.
- Hardin, Garrett. „The Tragedy of the Commons“. Science. 162 (3859) (1968): 1243-1248.
- Ostrom, E. (2008). „Tragedy of the commons“. Í Durlauf, S. N. og Blume, L. E. (ritstjórar), The New Palgrave Dictionary of Economics, 2(8), bls. 360-362. Palgrave Macmillan.
- Whitehead, A. N (1925). Science and the Modern World. New York: The Macmillan company.