Böglunga sögur
Böglunga sögur – öðru nafni Hákonar saga Sverrissonar, Guttorms Sigurðarsonar og Inga Bárðarsonar – er konungasaga, sem fjallar um konungana í Noregi og átökin milli birkibeina og bagla frá því að Sverrir Sigurðarson dó árið 1202 þar til Hákon Hákonarson varð einn konungur Noregs 1217. Böglunga sögur eru aðalheimildin um sögu Noregs á þessu tímabili, en eru ekki eins vel samdar og Sverris saga.
Böglunga sögur eru varðveittar í tveimur gerðum, styttri gerð (A), sem nær yfir árabilið 1202–1209, og lengri gerð (B) um allt tímabilið 1202–1217. Styttri gerðin er varðveitt í tveimur fornum handritum, en lengri gerðin er aðeins til í brotum, og svo heil í danskri þýðingu Peders Claussøns frá því um 1600 (Norske Kongers Chronica). Sveinbjörn Egilsson þýddi hana á íslensku og var þýðingin prentuð í Fornmanna sögum, 9. bindi, ásamt danska textanum. (Til er önnur íslensk þýðing sem Ásgeir Jónsson Stadfeldt gerði 1812, e.t.v. í tengslum við útgáfuna sem þá var í undirbúningi. Er í handriti í British Museum).
Í Böglunga sögum er fjallað um sex konunga eða konungsefni, þrjá birkibeina: Hákon Sverrisson sem var konungur 1202–1204, Guttorm Sigurðsson 1204 og Inga Bárðarson 1204–1217; og þrjú konungsefni bagla: Inga Magnússon (d. 1202), Erling steinvegg 1204–1207 og Filippus Símonarson 1207–1217.
Böglunga sögur eru beint framhald af Sverris sögu. Eldri og styttri gerðinni (A) lýkur með brúðkaupi Filippusar árið 1209. Hún er sennilega samin skömmu eftir 1210 og er sjónarhornið yfirleitt hjá böglum, þó að höfundurinn sé tiltölulega hlutlaus í frásögn sinni. Í yngri og lengri gerðinni er frásögninni haldið áfram þar til Ingi konungur deyr, 1217. Hún mun vera samin um 1220 af manni sem vildi auka hlut birkibeina í sögunni, og eru viðaukar við fyrri hlutann af því tagi. Framhald sögunnar er fremur sundurlaust, og henni lýkur á mjög jákvæðri lýsingu á Inga konungi, sem bendir til að höfundurinn hafi staðið honum nærri. Athyglisvert er að sjá hvernig gerðirnar tvær fjalla um atburðina frá sjónarhóli beggja deiluaðila, án þess þó að gengið sé á svig við sannleikann.
Nafnið Böglunga sögur var notað í Hákonar sögu gamla í handritinu Gullinskinnu sem brann 1728, og á vel við eldri gerðina sem fylgir frekar böglum eftir. Þetta er ein saga, en fleirtölumyndin „sögur“ vísar til þess að sagan fjallar um nokkra konunga. Hallvard Magerøy taldi mest lýsandi að nota nafnið: Saga birkibeina og bagla, en gömul hefð er fyrir nafninu Böglunga sögur. Í útgáfu Fornritafélagsins (2013) notar Þorleifur Hauksson eintölumyndina: Böglunga saga.
Höfundar beggja gerðanna eru óþekktir, en vísbendingar eru um að þeir hafi verið Íslendingar.
Handrit og útgáfur
[breyta | breyta frumkóða]Styttri gerðin er í tveimur skinnbókum: Eirspennli frá upphafi 14. aldar og Skálholtsbók yngstu frá 15. öld. Í þeirri fyrrnefndu er bætt við tveimur köflum. Báðar eru til í sérútgáfum. Af lengri gerðinni eru til brot úr þremur skinnhandritum (um 15% af sögunni), auk dönsku þýðingarinnar sem Peder Claussøn gerði um 1599 eftir heilli skinnbók. Af prentuðum útgáfum má nefna þessar:
- Peder Claussøn Friis (þýð.): Norske Kongers Chronica, Kbh. 1633. — Ole Worm gaf út. Frumútgáfa lengri gerðar á dönsku.
- Birgir Thorlacius, E. Chr. Werlauff (útg.): Noregs konunga sögur IV, Havniæ 1813: 335–438. — Frumútgáfan. Styttri gerðin með latneskri og danskri þýðingu, lengri gerðin á dönsku með latneskri þýðingu.
- Finnur Magnússon o.fl. (útg.): Fornmanna sögur 9, Kaupmannahöfn 1835: 1–228. — Styttri gerðin, lengri gerðin á dönsku með íslenskri þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar, og brot úr þremur handritum lengri gerðar.
- Guðni Jónsson (útg.): Konunga sögur 2, Rvík 1957: 343–392. Íslendingasagnaútgáfan. — Styttri gerðin.
- Hallvard Magerøy (útg.): Soga om birkebeinar og baglar. Böglunga sögur 1–2, Oslo 1988. — Textafræðileg útgáfa með ítarlegri greinargerð.
- Þorleifur Hauksson og Sverrir Jakobsson (útg.): Hákonar saga 1–2, Reykjavík 2013. Íslensk fornrit 31–32. — Sagan er í fyrra bindinu, bæði styttri gerðin, lengri gerðin (þýðing Peders Claussøns og íslensk þýðing Sveinbjarnar Egilssonar), texti handritabrota og nokkur bréf sem tengd eru efni sögunnar. — Fræðileg útgáfa fyrir almenning.
Sagan hefur verið þýdd á dönsku, norsku, nýnorsku, rússnesku og tvisvar á latínu, í síðara skiptið af Sveinbirni Egilssyni, sjá Scripta historica Islandorum, 9. bindi.
Í norskri hátíðarútgáfu konungasagna, 1979, er efni beggja gerðanna steypt saman í eina heild í norsku þýðingunni.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Sverrir Tómasson o.fl.: Íslensk bókmenntasaga I, Rvík 1992:397–398.
- Finnur Jónsson: Den oldnorske og oldislandske litteraturs historie II, 2. útg., Kbh. 1920–1924:634–636.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Baglersagaene“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 15. júlí 2009.