Hákonar saga Hákonarsonar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hákonar saga Hákonarsonar (eða Hákonar saga gamla) er ævisaga Hákonar gamla Noregskonungs, og jafnframt saga Noregs á þeim árum sem hann fór með völd. Hákonar saga er varðveitt í mörgum handritum, sem bendir til að hún hafi verið vinsælt rit. Hún er í raun og veru framhald af Böglunga sögum.

Höfundur Hákonar sögu var Sturla Þórðarson sagnaritari. Sturla var leiðtogi Sturlunga um það leyti sem Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd, 1262, og hafði hann fallið í ónáð hjá Hákoni gamla. Sturla fór þá til Noregs til þess að freista þess að sættast við konung. Þegar þangað kom var Hákon í herför í Orkneyjum, og fór Sturla þá á fund sonar hans, Magnúsar lagabætis. Magnús konungur tók Sturlu kuldalega, en Sturlu tókst að vinna hylli hans, sjá Sturlu þátt í Sturlunga sögu. Þegar fregnir bárust til Noregs af fráfalli Hákonar, haustið 1263, fékk Magnús Sturlu til að setja saman sögu föður síns. Þetta var að mörgu leyti vandasamt verk, því að í sögunni er m.a. sagt frá valdabaráttu Hákonar og Skúla jarls, en ekkja Hákonar og móðir Magnúsar var dóttir Skúla; hún var þá enn á lífi.

Sturla styðst bæði við frásögn greinargóðra manna, og einnig ýmis skjöl og bréf. Stundum verður sagan smásmugulega nákvæm, en oft tekst höfundinum nokkuð upp, svo sem þegar hann segir frá æskuárum konungs, krýningu hans o.fl. Sturla gerir sér títt um að lýsa ýmiss konar ytri viðhöfn, sem hefur greinilega verið í hávegum höfð við hirðina.

Hákonar saga er mikilvægasta heimildin um sögu Noregs frá 1217, þegar Hákon gamli komst til valda, til 1263, þegar hann andaðist. Í sögunni er einnig nokkuð sagt frá atburðum á Íslandi og í öðrum löndum þar sem Hákon átti ítök.

Sturla skreytir söguna með eigin kveðskap um Hákon, sem hann hefur líklega ætlað að flytja honum ef fundum þeirra hefði borið saman.

Íslenskar útgáfur[breyta | breyta frumkóða]

Hákonar saga hefur komið í mörgum útgáfum erlendis, bæði íslenski frumtextinn og þýðingar á önnur mál. Íslenskar útgáfur bókarinnar eru þessar:

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Enska Wikipedian, 9. mars 2008, og fleiri heimildir.