Baglar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Baglar voru flokkur stuðningsmanna kirkjunnar í Norska innanlandsófriðnum 1130 til 1240.

Flokkurinn var stofnaður af Nikulási Árnasyni biskupi, hálfbróður Inga krypplings, árið 1196. Markmiðið var að styðja Inga baglakonung, sem sagður var sonur Magnúsar Erlingssonar, sem konungsefni gegn Sverri Sigurðssyni sem hafði verið krýndur tveimur árum fyrr með fulltingi birkibeina. Flestir baglar komu úr Víkinni og voru kirkjunnar menn, landeigendur og kaupmenn. Árið 1194 bannfærði kirkjan Sverri konung og biskupar landsins yfirgáfu það.

Við lát Sverris 1202 sneru biskuparnir aftur heim og stuðningur við bagla þvarr, en eftir lát síðasta beina afkomanda Sverris sem vitað var um, Guttorms, fylktu baglar sér á ný um meintan son Magnúsar Erlingssonar, Erling steinvegg, en birkibeinar tóku Inga Bárðarson til konungs. 1204 gerðu baglar innrás í Noreg og lögðu Víkina undir sig með aðstoð Valdimars sigursæla Danakonungs.

Átök milli bagla og birkibeina stóðu til ársins 1208 þegar biskupunum tókst að semja um frið í Hvítingsey. Þá var Erlingur látinn og baglar höfðu tekið Filippus, systurson Inga krypplings og Nikulásar Árnasonar, til konungs. Þegar Ingi Bárðarson og Filippus baglakonungur dóu báðir 1217 tókst Skúla jarli að fá bagla til að samþykkja konungsefni birkibeina, Hákon, og leysa flokkinn upp.

Andstaða við Hákon konung kom upp síðar í kringum Sigurð ribbung, son Erlings steinveggs, og var sá flokkur kallaður ribbungar.

Konungsefni bagla[breyta | breyta frumkóða]